miðvikudagur, október 19, 2016

Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti

Eftir Rodrigó García. Þýðing: Stefán Hallur Stefánsson og Una Þorleifsdóttir. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikari: Stefán Hallur Stefánsson Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Leikmynd og búningur: Stefán Hallur Stefánsson og Una Þorleifsdóttir. Leikhópurinn ST/una setur upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Frumsýning í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 15. október 2016.

Kall á barmi taugaáfalls


Það er viðeigandi að tveimur dögum eftir að Bob Dylan eru veitt bókmenntaverðlaun Nóbels sé frumsýnt í Þjóðleikhúsinu þetta kröftuga sviðsverk sem sækir safa sinn að miklu leyti í spennuna milli há- og lágmenningar, eða kannski í örvæntinguna yfir hvað sú spenna er orðin lítil á þessari póstmódernísku skeggöld neyslu og nándarskorts.

Maður á besta aldri ákveður að sólunda fátæklegum ævisparnaðinum í sukkferð til Madridar með tveimur ungum sonum sínum. Áfengi, eiturlyf, skyndimatur og félagsskapur þýsks heimspekings er greiddur fullu verði, en hápunkturinn verður samt að brjótast inn í Prado og eyða nótt með svörtu myndum Goya. Drengirnir vilja reyndar heldur fara í Disneyland í París, lái þeim hver sem vill. Þetta virðast vera merkilega klárir strákar. En þetta er ekki þeirra ævisparnaður. Karlinn ræður.

Það er mikil orka og hæfileg óreiða í texta Rodrigó García. Bræðin út í öngstræti neyslusamfélagsins og almennt glóruleysi nútímans er einlæg, en framsetningin kannski ekki ýkja frumleg. Grunnhugmyndin – framvindan, ef svo mætti segja, er þó snjöll og heldur vélinni vel gangandi þann tæpa klukkutíma sem sýningin tekur. Og vissulega er stundum sagt eitthvað forvitnilegt og afhjúpandi. Pælingarnar um sálfræði og jarðfræði þóttu mér til að mynda spennandi. Ógnvekjandi ræða um kjarna kynlífsins var einnig öflug og eftirminnileg. Og svo þarf maður víst að fara að skoða verk Peter Sloterdijks sem þeir feðgar leigja sér eins og hverja aðra hóru til að tala við sig um heimspeki meðan þeir rúnta um Madrid og háma í sig samlokur áður en hápunktinum, Prado-heimsókninni, er náð. Áhrifaríkust er þó afstaða persónunnar til sona sinna, sex og ellefu ára. Hún er fyrir neðan allar hellur ef horft er með raunsæisgleraugum á verkið, en góðu heilli dregur García upp þannig mynd af þroska drengjanna að það er óhugsandi að lesa í verkið á þann hátt.

Leikstjóri og leikari hafa tekið djarfa ákvörðun um hvernig þau vildu vinna úr þessum efnivið. Óreiðan, ofbeldishugsunin, ólíkindaleg bræðin virðist við fyrsta lestur bjóða upp á trylling. Fullt af leikmunum, mat, myndbönd; öll vinsælu hjálpartækin í dótakassa samtímaleikhússins. Í enskri uppfærslu fóru grísir með hlutverk sonanna tveggja.

Ekki hér. Einangraður í reyk á auðu sviði fer Stefán Hallur Stefánsson með textann, segir okkur þessa sögu. Í hljóðnema úr dótakassanum reyndar, en aðallega erum við ein með manninum og orðunum.

Þessi dirfska borgar sig ríkulega. Stefán Hallur sýnir hér á sér hliðar sem hafa ekki verið áberandi í þeim verkefnum sem leikhúsið hefur falið honum undanfarið. Orkunni og ógninni sem hann á svo auðvelt með að miðla er ýtt til hliðar, pakkað niður. Lágmæltur, hikandi leggur hann upp í þessa Madridarferð. Hér er unnið af stakri fagmennsku á móti textanum, og þannig tekst að miðla merkingu hans á ferskan og óvæntan hátt.

Þetta er frábærlega gert. Stefáni og Unu Þorleifsdóttur leikstjóra hefur tekist sérlega vel upp með greiningu og framsetningu textans. Ögrandi innihaldið, grimmdin og glóruleysi persónunnar, hugmyndalegt erindi textans, er svolítið látið sjá um sig sjálft. Ekki látið taka ráðin af listamanninum. Hann segir okkur bara söguna, tjáir okkur hvernig honum líður. Við förum með honum í þessa feigðarför. Sitjum við eldhúsborðið þar sem lagt er á ráðin og rifist um aðdráttarafl Goya og Walt, erum í sætaröðinni fyrir aftan þá feðga á fluginu, í leigubílnum sem hringsólar um flugvöllinn meðan beðið eftir að þýski heimspekingurinn lendi.

Það er mikið öryggi í efnistökum sýningarinnar. Traust á leikaranum og einföldustu meðulum leikhússins. Þannig færumst við nær þessum ógeðfellda og ógnvekjandi manni, hlustum á hann með opnari hug en ef hann færi um öskrandi, rífandi og tætandi allt sem fyrir verður, sem hefði verið svo augljós og fyrirsjáanleg leið. Fyrir vikið nær það sem hann hefur að segja um siðmenningu á síðustu metrunum til okkar. Með því að gera sig varnarlausan gerir Stefán Hallur það sama við okkur.

Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti er kröftug sýning með alvöru erindi, miðlað af öguðu listfengi. Spennandi leikhús í sinni nöktustu mynd.þriðjudagur, október 04, 2016

Horft frá brúnni

Eftir Arthur Miller. Íslensk þýðing: Sigurður Pálsson. Leikstjórn: Stefan Metz. Leikmynd og búningar: Sean Mackaoui. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóðhönnun og hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson. Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Harpa Arnardóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Snorri Engilbertsson, Arnar Jónsson, Baltasar Breki Samper, Hallgrímur Ólafsson og Baldur Trausti Hreinsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 30. september 2016.

Dýrið í okkur

Harmleikir upp á líf og dauða þrífast best utan við það sem við vestrænir nútímamenn köllum lög og rétt, en jafnframt verða að gilda hörð lögmál og ósveigjanleg sem „hetjan“ gengur á hólm við. Það er því kjörið fyrir bókmenntir á þessu rófinu að beina sjónum sínum að þeim ítölsku innflytjendum í Bandaríkjunum, sem fluttu með sér stranga lífsreglubálka en gengu kannski ekki nema að nafninu til undir aga hins ameríska réttarkerfis. Þetta vissu Puzo og Coppola, og þetta nýtti Arthur Miller sér þegar hann langaði að láta á það reyna hversu nálægt klassískum harmleik mætti komast í nútímaumhverfi.

Útkoman var Horft frá brúnni. Þar lætur hversdagslegur hafnarverkamaður í New York óleyfilegar ástríður leiða sig til voðaverks undir vökulu auga viturs en lífsleiðs lögfræðings sem Miller lætur gegna hlutverki kórsins úr grísku harmleikjunum sem hann vill blása nútímalífi í. Snjöll og krefjandi hugmynd og verkið löngu komið í flokk sígildra nútímaverka ásamt með öðrum leikritum Millers frá blómaskeiði hans upp úr miðri síðustu öld.

Sviðsetning Stefans Metz er tæknilega framúrskarandi. Samspil leikmyndar, lýsingar og hringsviðstækninnar býr til æsandi flæði og á sinn þátt í að halda spennunni uppi í þessar tæpu tvær klukkustundir sem það tekur heim Carbone-fólksins að sundrast. Stóran plús fær leikstjórinn fyrir að hlífa okkur við hléinu, sem hefði verið illþolandi uppbrot. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar er glæsilegt verk og gegnir óvenju viðamiklu hlutverki.

Leikmynd Sean Mackaoui er sömuleiðis sterk og falleg, þó bogadregnar línur glugga og dyraopa minni kannski frekar á „gamla landið“ og kirkjubyggingar en fátækrahverfi hafnarhverfisins og ögri þannig raunsæinu. Það sama má reyndar segja um notkun á „bakhliðum“ veggfleka og aðrar vísanir í kvikmyndaver og leiksviðið sjálft. Útlit og andblær sýningarinnar sækir meðvitað í Film Noir-stílinn og fer alveg að mörkum „kitschins“ – listlíkisins. En það sleppur, fyrir utan upphafstitlana og ofnotkun á hátalarakerfinu fyrir hugleiðingar lögfræðingsins Alfieri. Að öðru leyti viðeigandi og vel heppnað.

Á tveimur stöðum vinnur sviðsetningin þó á móti áhrifamættinum. Annars vegar þegar innflytjendurnir sem setja óstöðugt jafnvægið á Carbone-heimilinu upp í loft koma í fyrsta sinn þar inn. Þröng og kyrrstæð sviðsetning atriðisins gerir leikurunum ókleift að sýna okkur afstöðuna – valdaþrepin, hrifningu, andúð – sem byrjar að myndast þarna og verður öllum á endanum að falli.

Og svo seint í verkinu þar sem Eddie Carbone er hafður inni í símaklefa meðan hin stóru ósköp ganga yfir. Táknrænt séð er þetta góð hugmynd, en verður til þess að við missum sambandið við persónurnar, sjáum ekki viðbrögð þeirra, erum svikin um samleikinn sem verk af þessu tagi lifa og nærast á.

Því þetta er leikaraleikrit. Skrifað inn í hefð sálfræðilegs raunsæis, leikhús innlifunarinnar, hefð Stanislavskíjs og Lees Strasberg (þó Miller hafi reyndar haft illan bifur á „Method-páfanum“). Engin sviðsetningarbrögð eða stílfærsla kemur í staðinn fyrir list leikarans við að afhjúpa þessar persónur, en geta, eins og dæmin sanna, þvælst fyrir. Gera það ekki hér, utan þessara tveggja fyrrnefndu atriða.

Leikhópurinn vinnur fallega úr þessum gjöfula efnivið. Engir stórsigrar en öllu vel til skila haldið. Aðalhlutverkið, Eddie Carbone, verður í meðförum Hilmis Snæs Guðnasonar eins og dýr í sífellt þrengra búri eftir því sem endalokin nálgast. Það örlaði á því að fullmikil orka og meðvitund færi í það hjá leikaranum að skapa persónunni þyngd og eldra fas, en þar fyrir utan var þessi einfaldi meðalmaður sannfærandi hjá Hilmi.

Við fyrstu sýn virtist mér Stefán Hallur Stefánsson ætla að sýna karlmennsku Marcos með eintóna vélrænu, en túlkunin fékk fleiri víddir í síðari atriðum. Snorri Engilbertsson finnst mér fara hættulega leið að Rodolfo, gerir hann ákaflega fínlegan og kvenlegan, og staðfestir í raun þá mynd sem Eddie hefur af þessum vonbiðli fósturdótturinnar. Ekki sjálfgefin túlkun en algerlega fær. Gerir spennitreyju karlmennskunnar að lykilatriði í örlögum Eddies. Og Snorri gerir þetta ákaflega vel.

Oft er Miller legið á hálsi fyrir að skrifa ekki nógu bitastæð kvenhlutverk, en ekki virtist efnisskortur trufla Hörpu Arnardóttur við að skapa heilsteypta og harmræna Beatrice eða Láru Jóhönnu Jónsdóttur að vera bæði spriklandi lífsglöð og tilfinningadjúp Katrín. Tvö atriði sem munu lifa í minningunni eru tveggja manna sena Eddies og Beatrice við sitt kalda hjónarúm og svo samtal Katrínar og Rodolfo á bryggjunni, þar sem við fyllumst bjartsýni á framtíð þessa vel gerða fólks, sem reynist auðvitað tál eitt.

Hlutverk Alfieris er trúlega skrifað fyrir textanæm reynslubúnt á borð við Arnar Jónsson sem brást auðvitað ekki.

Almennt er leikstíllinn hófsamur og vel samstilltur, eins og við eigum að venjast í uppfærslum Stefans Metz. Það má vissulega sjá fyrir sér sýningu með meiri hita, afdráttarlausari afstöðu til þess hvaða drifkraftar eru að verki innra með Eddie Carbone en hér er boðið upp á. Skýra nákvæmar fyrir okkur samspil þríhyrninganna tveggja sem hreyfa gangverkið: Heimilisfaðir – eiginkona – fósturdóttir, yngismær – unnusti – fósturfaðir.
Það er merkilegt með harmleiki. Við lítum á þá sem verðugustu minnisvarða sem við höfum reist göfgi mannsins. Á hinn bóginn er þeirra helsta erindi að fletta ofan af hinum myrku hvötum sem menningin hefur hulið sjónum okkar. Ekkert sýnir okkur betur dýrið í manninum en þetta hástig hámenningarinnar.

Sýning Þjóðleikhússins rekur atburðina á skýran hátt. Leggur fyrir okkur hvað gerðist og skilur okkur eftir með úrvinnsluna. Það er heiðarleg afstaða, kvöldið er fljótt að líða og skilur eftir sig spurningar sem vert er að velta fyrir sér.