sunnudagur, október 31, 2004

Eftirlitsmaðurinn

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsinu 31. október 2004

Höfundur: Nikolæ Gógol
Leikstjóri: Bergur Þór Ingólfsson.

EFTIRLITSMAÐURINN er einn af sígildum gamanleikjum heimsins. Þar er dregið skefjalaust dár að spillingu, hræsni, snobbi og lítilmótlegu og skítlegu eðli þeirra sem eiga þess kost að maka krókinn á kostnað meðborgara sinna, og hve fljótir þeir eru að leggjast flatir þegar þeir mæta einhverjum sem þeir telja sér valdameiri og æðri. Grínið byggist síðan á því að þar vaða þeir í villu. Undir grínaktugu yfirborðinu leynist síðan dauðans alvara því Gogol lætur það ekki fara á milli mála að spilling og vanhæfni broddborgaranna tekur sinn toll, sjúklingar, fangar og aðrir skjólstæðingar kerfisins líða fyrir framferðið.

Eins og gildir um mörg sígild verk þá er það bæði sammannlegt og með djúpar rætur í ritunartíma sínum og -stað. Spillingu og græðgi skilja allir en blandan sem hér er boðið upp á af vanhæfni og skeytingarleysi um örlög náungans kemur ákaflega rússneskt fyrir sjónir.

Það er sannarlega virðingarvert að ráðast í sígild verk af þessu tagi með ungum og áhugasömum leikhóp, og þá er freistandi að taka viljann fyrir verkið. Það er samt ekki hægt að neita því að hópnum og leikstjóra hefur ekki alls kostar tekist að blása lífi í þetta gamla verk, ná ekki alveg að gera það að sínu með sannfærandi persónum, skýrum ætlunum og "sitúasjónum".

Hluti vandans liggur vafalaust í reynsluskorti, ef ekki á leiksviði þá í það minnsta í glímu við jafn framandi efnivið. Eins held ég að útlitsleg staðfærsla hafi verið misráðin. Hún gerir málsnið og heim leikritsins ankannalegan, auk þess sem aðstæðurnar eru ótrúverðugar í þessu umhverfi.

Það sem sýningin hefur með sér er á hinn bóginn krafturinn sem hópurinn býr yfir og brýst fram í öflugum samleik. Sérstaklega skemmtilegt í stærri hópatriðum, sérstaklega stóra fylleríisatriðinu fyrir hlé. Þar nýttust skophæfileikar Arnars Inga Tryggvasonar í hlutverki Kléstrakovs líka best.

Arnar Bergmann Sigurbjörnsson náði líka að skína á köflum sem hinn vonlausi borgarstjóri, en framsögn hans var hins vegar lýti á frammistöðunni. Hinn glymjandi hljómburður Frumleikhússins er miskunnarlaus við óskýrmælgi sem því miður er of algeng í þessari sýningu. Þetta er atriði sem of oft er leyft að skemma sýningar, grundvallaratriði sem gleymist í hugmyndaflæðinu sem skapast á æfingum, aðalatriði sem týnist eins og hvert annað smáatriði.

Eftirlitsmaðurinn ber vott um þann metnað leikfélagsins að glíma við verðug verkefni og treysta ungu fólki til góðra verka. Útkoman er kraftmikil sýning sem á sína spretti en nær ekki til fullnustu að skila þessu tímalausa og skemmtilega verki til okkar.

laugardagur, október 30, 2004

Að sjá til þín maður

Leikfélag Hafnarfjarðar
Gamli Lækjarskólinn í Hafnarfirði 30. október 2004

Höfundur: Franz Xaver Kroetz
Þýðendur: Ásthildur Egilsson og Vigdís Finnbogadóttir.
Leikstjóri; Gunnar B. Guðmundsson.

LEIKFÉLAG Hafnarfjarðar heldur áfram með sína metnaðargjörnu, sumir myndu segja fífldjörfu, dagskrá. Og þótt Hamskiptin og Beisk tár Petru von Kant séu þungavigtarverkefni held ég að þetta verk Kroetz, Að sjá til þín maður, sé það erfiðasta til þessa. Útkoman er líka sú að þrátt fyrir að mörgu leyti ágæta frammistöðu og skýra hugsun þá nær hópurinn ekki að rísa undir nánast ómennskum kröfum verksins.
Hér segir frá fjölskyldu verkamanns í bílaverksmiðju í Suður-Þýskalandi seint á áttunda áratugnum. Spennustigið er hátt, enda er einkasonurinn atvinnulaus, stendur ekki undir kröfum foreldranna um að ná lengra í lífsgæðakapphlaupinu en þau. Fjölskyldan splundrast, drengurinn flytur að heiman og móðirin líka. Við fylgjumst með hvernig þau tvö ná að fóta sig meðan heimilisfaðirinn nær ekki að draga neina lærdóma af skipbroti draumsins, rígbundinn af hugmyndum um mikilvægi sitt og karlmennsku sinnar. Eins og önnur verk þessa merka höfundar er leikritið skrifað í smásmyglislegum natúralískum stíl, mikið af fyrirmælum um athafnir, langar þöglar senur inn á milli innihaldslausra samtala og ofsafengins ofbeldis. Frábærlega skrifað, feiknlega áhrifaríkt, glettilega fyndið - en svínslega erfitt.

Það sem stendur leikhópnum einna helst fyrir þrifum er aldurinn. Það er varla hægt að ímynda sér verra verk til að leika upp fyrir sig í, svo mjög stendur það og fellur með algerri samsvörun persóna og leikenda. En hér standa þrír jafnaldrar (eða því sem næst) á sviðinu. Þessi staðreynd neyðir Guðmund L. Þorvaldsson til að "leika" of mikið, búa of mikið til sem gerir föðurinn að hálfgerðri grínfígúru. Firnavel gert sem slíkt enda Guðmundur óðum að verða einn af öflugustu leikurum áhugaleikhússins hér. En nálgunin kostar of mikið, sýningin verður aldrei nægilega trúverðug.

Mótleikarar Guðmundar, þau Sara Blandon og Jón Stefán Sigurðsson, eru mun reynsluminni leikarar, en sýna bæði sinn besta leik sem ég hef séð til þeirra. Sara sérlega góð í síðasta hlutanum þar sem hún berst við sjálfa sig fyrir sjálfstæði sínu og Jón Stefán átti áhrifaríkan leik, sérstaklega í þöglum atriðum.

Þessi góða frammistaða dugir því miður ekki til að skila áhrifum verksins, sem helgast bæði af því hvað verkefnið er erfitt og túlkunarleiðum leikstjórans sem leggur of mikla áherslu á skopfærslu, t.d. með framgöngu fjórða leikarans, Snorra Engilbertssonar og hljóðsveitinni sem bætt er inn í verkið til óþurftar. Þó skipta hér mestu umfangsmiklar styttingar sem gerðar hafa verið og draga mjög úr áhrifamættinum. Nákvæm vinna með langdregin þögul atriði eru eitt helsta höfundareinkenni Kroetz og eitt af hans öflugustu vopnum. Þessum atriðum sleppir Gunnar Björn, en rýrir fyrir vikið það líf sem þarf að kvikna á sviðinu og okkur er ætlað að skoða og dæma. Útkoman verður of flatneskjuleg þó það taki vissulega styttri tíma.

Leikmyndin er hreinn unaður - frábærlega rétt í períódu með unaðslega ósmekklegu og ósamstæðu veggfóðri á hinum ólíku flötum. Þeim mun furðulegra að heyra að verkið er ekki bara staðfært (misráðið að mínu viti) heldur virðist það eiga að gerast í nútímanum. Þetta misræmi truflar svo sem ekki að ráði, en einkennilegt samt í ljósi þeirrar nostursamlegu vinnu við að negla tímann niður í húsgögnum og búnaði.

Að sjá til þín maður er metnaðarfull og vel leikin sýning, unnin af fullri listrænni alvöru eins og búast mátti við af Leikfélagi Hafnarfjarðar. Það reynist þó ofverkið þeirra að skila efninu og áhrifum þess til fullnustu, sem eftir á að hyggja kemur ekki á óvart í ljósi þessa krefjandi verkefnis.

fimmtudagur, október 28, 2004

Íslenskar þjóðsögur og ævintýri

Gelmir ehf.
Október 2004

Umsjón og framleiðsla: Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason

Leikarar: Árni Tryggvason, Bryndís Petra Bragadóttir, Gunnar Hansson, Jakob Þór Einarsson, Linda Ásgeirsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Tjörvi Þórhallsson, Valdimar Lárusson, Þröstur Leó Gunnarsson, Örn Árnason, Hesturinn Víkingur, Hundurinn Vaskur, Ónefndur köttur.
Teikningar; Brian Pilkington
Söngur: Margrét Eir Hjartardóttir
Tónlist: Jónas Þórir.

Rótað í arfinum

EKKI er mér kunnugt um að áður hafi verið ráðist í verkefni af þessu tagi, að koma íslenskum þjóðsögum á framfæri við yngstu kynslóðina í formi myndbands. Ber því sérstaklega að hrósa framtakinu og hugmyndinni, því hér er arfur sem verður að standa í lifandi sambandi við æsku landsins og á áreiðanlega undir högg að sækja í alþjóðavæddu afþreyingarumhverfi nútímans.

Á myndbandinu eru tíu þjóðsögur sagðar og leiknar, auk þess sem Margrét Eir syngur tvö þjóðlög, vitaskuld lýtalaust og Árni Tryggvason gegnir hlutverki sögumanns. Árni hefur einhverja hlýjustu nærveru íslensks leikara, en ekki er ég sannfærður um að ungviðið skilji allt af því sem hann segir í sínu bundna máli milli sagna.

Sögurnar eru flestar sagðar á þann hátt að sögumaður les þær en leikarar bregða sér í hlutverkin og eru að mestu þögulir í þeim leik. Tvær þeirra eru sviðsettar með teikningum sem spretta undan galdrapenna Brians Pilkington og tekst sú leið ágætlega, þó ein framvinduvilla hafi slæðst inn í söguna af Grímseyingunum og bjarndýrinu og húnar bjarndýrsins sjáist í myndskeiði þar sem þeir eru víðs fjarri. Reyndar er það almennt nokkuð lýti á þessu lofsverða framtaki að ekki hefur verið lögð nóg alúð við ýmis smáatriði. Það er allt í lagi þó framleiðslan sé augljóslega ekki íburðarmikil en þeim mun mikilvægara er að vandvirkni einkenni það sem gert er.

Þannig er margt kátlegt við Bakkabræður eins og vonlegt er í meðförum Arnar Árnasonar, Sigurðar Sigurjónssonar og Þrastar Leós Gunnarssonar, en heldur virka uppátæki þeirra lausbeisluð og eru því ekki eins áhrifarík og ef leikstjóri hefði vélað um. Enginn slíkur er skrifaður fyrir verkefninu, en Sigurður og Örn sagðir umsjónarmenn þess, en hafa auðvitað um annað að hugsa í Bakkabræðrasögunum. Skemmtilegust Bakkabræðrasagna er sú fyrsta, þar sem þeir bera grjót á hest sinn, og hin óborganlega frásögn af tilraunum þeirra í heimilislýsingum. Hinar þrjár sem fluttar eru takast síður.

Best heppnaðar í safninu eru að mínu viti sagan af Gilitrutt og Átján barna faðir í álfheimum, enda er þar minna um lausbeislun í leik og sögurnar skýrar og sterkar í sjálfu sér. Þó er eins og Örn Árnason langi mest til að veita umskiptingnum samkeppni í afkáraskap í þeirri síðarnefndu, sem annars er fallega túlkuð af Bryndísi Petru Bragadóttur, Ragnheiði Steindórsdóttur og fleirum, og alkunnir grettuhæfileikar Þrastar fá réttilega að njóta sín í umskiptingnum. Gilitrutt er líka vel sögð og sviðsett og skýrt leikin af Lindu Ásgeirsdóttur, Jakob Þór Einarssyni og Bryndísi Petru.

Allt önnur leið og spennandi er farin að Búkollusögu. Þar erum við komin í nútímann og Gunnar Hansson segir söguna með hjálp hluta sem hann finnur á göngu sinni í fjörunni. Snjöll leið og endursögn Gunnars um margt ágæt þó mér leiðist að heyra jafn ágæta kynjakú og Búkollu vera undantekningarlaust kallaða "belju". Eins hefðu umsjónarmenn átt að vita að "móða" er fljót en ekki stöðuvatn, enda er svoleiðis pollur varla fyrirstaða fyrir tröllskessur þó heimskar séu. Myndatakan var líka óþarflega upptekin af Gunnari en sinnti minna skemmtilegri "sviðsetningunni" og tónlistin, sem í hinum sögunum var smekklega notuð, var hér á lyftutónlistarstiginu og rímaði illa við dramatískan eltingarleikinn.

En þrátt fyrir allar þessar aðfinnslur sem flestar eru smávægilegar má vel hafa gaman af efninu, og eins og áður sagði er framtakið þarft. Myndbandið Íslenskar þjóðsögur og ævintýri er öllum börnum hollt.