mánudagur, febrúar 23, 2004

Sálmurinn um blómið

Útvarpsleikhúsið
febrúar 2004

Leikgerð: Jón Hjartarson, leikstjórn: María Reyndal, hljóðvinnsla: Björn Eysteinsson, tónlist: Úlfur Eldjárn. Leikendur: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Álfrún Örnólfsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Gunnar Hansson, Gunnar Helgason, Hanna María Karlsdóttir, Jón Hjartarson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Víkingur Gunnarsson, Þorsteinn Gunnarsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir.

Guði líkur

ÞÓRBERGUR Þórðarson skýtur upp kollinum víða á ferli Jóns Hjartarsonar. Hann fór á kostum í Ofvitanum á sínum tíma, algerlega trúverðug mynd af meistaranum. Svo sannfærandi að, þökk sé velgengni sýningarinnar og síðar sjónvarpinu, að mynd hans er mynd Þórbergs í hugum margra, svo er allavega farið með undirritaðan, ef hann hefur ekki vara á sér. Seinna gerði Jón sviðsgerð af Sálminum um blómið, setti upp með Leikfélagi Hornafjarðar og lék sjálfur Sobbeggi afa. Og nú er leikgerð sögunnar komin í útvarpið og enn er Jón Þórbergur, jafn trúverðugur og áður, stílsmáti skáldsins runnin honum í merg og blóð. Ekki hef ég þekkingu til að segja hversu mikið hin fyrri leikgerð Jóns er gengin aftur í þessari, enda skiptir það svo sem engu máli.

Þroskasaga Lillu Heggu, eða kannski frekar, saga viðbragða Þórbergs við fullorðnun þessarar litlu vinkonu sinnar, er makalaust verk, hliðstæðulaust í íslenskum bókmenntum, og mögulega heimsins. Leikgerðin byrjar á því að guð birtist Þórbergi og setur honum verkefnið fyrir. Síðan er því lýst hvernig hann þarf að finna leiðina að verkefninu, sem endar með því að hann leitast við að gera sér upp og nálgast þannig þroskastig viðfangsefnisins. Síðan rekur hver gullmolinn annan í lýsingum á samskiptum litlu manneskjunnar og höfundarins. Óneitanlega er því eins farið með leikgerðina og söguna, fyrri hlutinn er mun skemmtilegri en sá síðari, meðan framandleikinn er mestur og Lilla Hegga sjálf í forgrunni. Í seinni hlutanum verða önnur hugðarefni Þórbergs og hvernig hann kynnir Lillu Heggu þau meira áberandi: Kommúnismi, Spírítismi og Suðursveit, og þá fatast verkinu flugið nokkuð.

Eins og fyrr sagði er Jón Hjartarson sannfærandi sem Þórbergur, en hefur að sama skapi minni möguleika á að sýna manni óvænta fleti á persónunni sem hann hefur tengst svo traustum böndum á löngum tíma, enda reynir hann það alls ekki. Það er sjálfsagt að varðveita sem mest af þessu sérstæða sambandi leikara og viðfangsefnis úr raunveruleikanum.

Álfrún Örnólfsdóttir nær framúrskarandi tökum á að lýsa þroska Lillu Heggu, óborganleg sem ungabarn, ótrúlega trúverðug upp frá því, og skemmtilegt hvernig hún dregur fram tilfinninguna fyrir því hvernig samneyti við fullorðna mótar orðfæri barnsins, eftir að málsnið þess hefur sett svip sinn á tungutak hinna fullorðnu.

Anna Kristín Arngrímsdóttir er prýðileg sem Mammagagga, rödd skynseminnar og Þorsteinn Gunnarsson sömuleiðis sem rödd guðs. Aðrir vekja varla eftirtekt, enda hlutverkin lítil.

Öll vinnan við verkið einkennist að mínu viti af vandvirkni og trúmennsku við viðfangsefnið. Á það við um stælalausa leikstjórn Maríu Reyndal, áferðarfallega tónlist Úlfs Eldjárn, hljóðvinnslu og alla framsetningu.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Brim

Vesturport
Vélarsalnum í Vestmannaeyjum föstudaginn 20. febrúar 2004

Höfundur: Jón Atli Jónasson
Leikstjóri: Hafliði Arngrímsson
Leikmynd: Börkur Jónsson og Hlynur Kristjánsson
Lýsing: Björn Kristjánsson
Hljóðmynd: Björn Kristjánsson og Sigurjón Brink.

Leikendur: Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Ingvar E. Sigurðsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Egill Egilsson og Víkingur Kristjánsson.

Herbergi í skipi

EKKERT viðfangsefni dregur eins fram natúralistana í íslensku leikhúsfólki og sjómannslífið. Í verkum Kristjáns Kristjánssonar með Skagaleikflokknum höfum við séð lúkar með rennandi vatni og virkri eldavél til viðbótar við hin lögboðnu þrengsli, og svo dugði sama hópi ekkert minna en árabátur á hvolfi í ískaldri sundlaug til að túlka örvæntingu manna í sjávarháska. Í Brimi er stigið enn eitt skrefið þar sem veltingurinn bætist við þrengslin og ómannlegan hráslagann sem lykilatriði í framvindunni. Frábærlega hugvitssamleg leikmynd Barkar Jónssonar og Hlyns Kristjánssonar setur svo sannarlega svip sinn á ferð leikaranna gegnum verkið þar sem hinn óhrjálegi lúkar hangir í vírum innan í stálbúri og bregst af miskunnarleysi náttúruaflanna við minnstu hreyfingum áhafnarinnar á ömurlegu línuskipinu sem er vettvangur verksins.

Í landi eru flestir skipverja undirmálsmenn. Sumir eru beinlínis á mörkum greindarskerðingar en aðrir ramba á brún annarra viðurkenndra viðmiða um hvað telst í lagi: berja konuna sína, geta ekki hamið kynhvötina, eða glíma við sálrænan fortíðarvanda. Um borð tekst alla jafnan að viðhalda einhvers konar ógnarjafnvægi, og hversu ömurlega mynd sem Jón Atli dregur upp af lífinu um borð er ævinlega skýrt að þessir menn eru enn ráðvilltari í landi.

Verkið er næsta framvindulaust. Sterkustu þættir þess eru smásmyglisleg samtöl skipverjanna um ekki neitt og nokkur eintalanna sem brjóta upp myndina af lífinu um borð. Þau eru þó vissulega misjöfn að gæðum og talsverður munur á hversu miklu lífi leikurunum tekst að gæða persónurnar. Formið, hin framvindulitla lýsing aðstæðna, rýrir líka nokkuð möguleika Jóns Atla til að koma áhorfendum á óvart og halda þeim við efnið. Það litla sem finnst af atburðarás og þróun í verkinu er lítilfjörlegt og illa byggt. Það er í lýsingu aðstæðna og persóna sem styrk höfundarins er að finna. Jón Atli hefur þrátt fyrir allt eitthvað að segja og hæfileikarnir til að skila því í texta eru ótvíræðir, þótt ef til vill hafi hann ekki náð tökum á öllum tækjunum í brúnni á þeim flókna listræna frystitogara sem leikhúsið er.

Mest blómstra þeir leikaranna sem fá að skapa gróteskustu persónurnar. Stjarna sýningarinnar er tvímælalaust Ólafur Egill Egilsson sem hinn félagslega fatlaði Kiddi. Frábær mannlýsing bæði frá hendi höfundar og leikara, sem nær þeim skýrleika í túlkun að vera samtímis fullkomlega raunsæisleg og glæsilega stílfærð. Gísli Örn Garðarsson er bæði aumkunarverður og bráðhlægilegur sem hinn treggáfaði Benni kokkur. Af þeim hinum jarðbundnari persónum á Ingvar E. Sigurðsson einna bestan dag, og nýtur þar myndugleika síns á sviði sem vélstjórinn. Björn Hlynur Haraldsson og Víkingur Kristjánsson eru á sömu raunsæismiðunum og Ingvar en ná hvorki að ljá persónum sínum nægilegan kraft né nægilega skýr einkenni til að blómstra við hlið Gísla og Ólafs. Hlutverk Nínu Daggar Filippusdóttur er eiginlega frekar vandræðalegt í verkinu og þótt hún fari lýtalaust með það tekst henni ekki að breiða yfir hve óþarft það er.

Hafliði Arngrímsson sest í nýjan stól að þessu sinni, og leikstýrir sinni fyrstu sýningu í íslensku atvinnuleikhúsi. Hann fer að mínu viti hárrétta leið að verkefninu, leggur áherslu á sterkan og dálítið gróteskan stíl, vinnur vel með klisjuleg sjómannalög sem varpa skemmtilegu ljósi á nöturlegan raunveruleikann, og stýrir umferðinni um erfitt rýmið af næmri tilfinningu fyrir myndmáli og orkuflæði. Hafliði er vonandi kominn á bragðið því það er ljóst að þar fer maður með sterkar skoðanir og afgerandi leikhússmekk sem á betur heima á leiksviði en sem álit á verkum annarra.

Sú ákvörðun Vesturports að frumsýna Brim utan höfuðborgarsvæðisins og stefna síðan á leikferð um landið er aðdáunarverð nýbreytni í vinnulagi frjálsra leikhópa, ekki sú fyrsta sem þetta magnaða leikhús stendur fyrir. Viðbrögð frumsýningargesta í Vestmannaeyjum ættu að staðfesta að það er hungur eftir slíkum viðburðum og ekki síður eftir því að lífi íslensks almennings séu gerð skil á leiksviðum þjóðarinnar. Hér er þörf sem öll leikhús - og leikskáld - landsins verða að uppfylla. Annars er eins gott að pakka bara saman og fara á sjóinn.

laugardagur, febrúar 14, 2004

Landsmótið

Leiklistarhópur Umf. Eflingar Höfundar: Jóhannes Sigurjónsson og Hörður Þór Benónýsson, leikstjóri: Arnór Benónýsson, tónlistarstjóri: Jan Alavere. Félagsheimilinu Breiðumýri í Reykjadal laugardaginn 14. febrúar 2004.

Eflingu allt 

BREIÐAMÝRI í Reykjadal norður er ein af orkustöðvum íslensks áhugaleikhúss þessi árin og hefur tekist að þróa starfsemi sem á engan sinn líka á landinu. Félagarnir hafa að mestu sérhæft sig í fjölmennum sýningum með söngvum, oftast í léttum dúr og kraftur og leikgleði eru áberandi þættir í framsetningu þeirra. Undir markvissri stjórn Arnórs Benónýssonar hafa þau leitt saman áhugasama unglinga úr Laugaskóla og harðsnúinn kjarna leiklistarfólks úr sveitinni og náð að bræða þessar fylkingar saman á eftirtektarverðan hátt. 

Að þessu sinni er verkið frumsamið og fjallar um atburði á landsmóti í sveit fyrir norðan sem vel getur verið í Þingeyjarsýslu um miðjan sjöunda áratuginn. Höfundarnir hafa ekki áður sett saman leikrit af þessari stærðargráðu en eru að ég held báðir skrifvanir og af þessum frumburði að dæma pennafærir mjög. Það er stór og vel pússaður spéspegill sem hér er stillt upp og honum er snúið í ýmsar áttir. Gagnkvæmir fordómar sveitafólks og borgarbarna eru fyrirferðarmiklir, svo og ungmennafélagsrómantík og rembingurinn sem verður til þegar hún gengur út í öfgar. Þá er skotið föstum skotum að fortíð og samtíð, og oft hitta þau þannig í mark að syngur í. Það er greinilegt að höfundunum er ekki sýnt um að hemja skáldtrippi sín. Hugmyndirnar eru næstum of margar og sumir efnisþættirnir þola varla hvað dvalið er við þá, það á einkum við um sveitar- og borgarríginn. 

Höfuðmáli skiptir þó að Landsmótið er ósvikin og óbeisluð skemmtun og þá þýðir ekkert að setja fyrir sig byggingarfræðilega vankanta heldur hlæja með. Það var líka mikið hlegið í Breiðumýri á laugardagskvöldið. Sýningin ber öll helstu einkenni félagsins. Kraftur, mannfjöldi og taumlítil leikgleði, sem þó fer aldrei alveg úr böndunum í sterkri umferðarstjórn Arnórs sem jafnframt er laginn við að laða það besta fram hjá leikurum sínum svo skýrar mannlýsingar standa út úr mannmergðinni þegar það á við. Það vinnst ekki pláss til að telja upp alla þá sem fara á kostum hér, en þó verður að nefna nokkra sérstaklega. Hilmar Valur Gunnarsson er frábær sem helsti töffari sunnanmanna og Birkir Sveinsson sérlega sannfærandi sem ímynd ungmennafélagshetjunnar, hinn berfætti Norður-þingeyski Magnús. Jón Friðrik Benónýsson er óborganlegur sem gamall og plássfrekur forkólfur. Þorgrímur Daníelsson var sannfærandi og fyndinn Ungmennafélagsandi. Þorgerður Sigurgeirsdóttir aldeilis stórfínn miðill. Svona mætti lengi telja. 

Söngtextar höfundanna eru prýðilega skemmtilegir og lagavalið snjallt. Tilvalið að nota minna þekkt bítlalög eins og hér er gert, The Continuing Story og Bungalow Bill sómdi sér til að mynda vel sem söngur Vínandans. Það er vel hægt að þusa yfir smáatriðum í sýningunni. Búningar sveitaunglinganna voru ekki eins vandlega tímabilstengdir og klæðnaður borgartöffarana. Verkið er heldur langt og í skemmtiþörf sinni stigu höfundar og leikendur einstaka sinnum yfir smekkleysismúrinn. En þetta er tittlingaskítur miðað við alla þá gleði, fyndni og kraft sem streymir frá sviði niður í sal í Breiðumýri þessar vikurnar. Allir á Landsmótið!

sunnudagur, febrúar 08, 2004

In Transit

Thalamus
Borgarleikhúsið, litla svið sunnudaginn 8. febrúar 2004.

Leikstjórn: Gregory Thompson og Rex Doyle
Leikmynd: Kristína R. Berman
Lýsing: Halldór Örn Öskarsson
Tónlist og hljóðmynd: Halldór Ágúst Björnsson

Leikendur: Birna Hafstein/Maríanna Clara Lúthersdóttir, Erlendur Eiríksson, Maiken Bernth, Margrét Kaaber, Oliver Burns, Sean McGlynn og Sólveig Guðmundsdóttir/María Heba Þorkelsdóttir.


Hvunndagshetjur

VIÐTALSTÆKNI er algeng aðferð við smíði leikverka sem ekki styðjast við höfundarverk leikskálds þó hún hafi ekki verið mikið notuð hér frekar en aðrar “óhefðbundnar” leiðir í leiklistarsköpun. Nú hefur hinn fjölþjóðlegi Thalamus-hópur sett saman sýningu sem byggir á viðtölum við fólk með það fyrir augum að varpa ljósi á kynslóðamun, tíðarandabreytingar og ólíka lífsreynslu dreifbýlis- og borgarbúa, ef marka má pistil leikstjóra í leikskrá.

Þessi aðferð til efnisöflunar segir næsta lítið um það hvernig úrvinnslan verður, þar eru vitaskuld ótal leiðir að fara og áherslur að leggja. Í þessari sýningu virðist sem svör og frásagnir viðmælendanna séu uppistaðan í texta leikaranna, og lítil sem engin tilraun er gerð til að umskapa efnið á dramatískan hátt. Þannig eru samskipti persónanna í lágmarki, en frásögnum þeirra fléttað saman þannig að andstæður og hliðstæður í viðhorfum og lífsreynslu birtast.

Það sem vinnst við það að fá efnið svona “ómengað”er natúralísk nálægð við raunverulegt líf. Á hinn bóginn tapast sú spenna sem átök og samskipti leikpersóna skapar. In Transit líður nokkuð fyrir þetta átakaleysi, áhrifamáttur hennar er algerlega undir því komin hvort textinn, efnið sé áhugavert í sjálfu sér. Sem vitaskuld er nokkuð misjafnt. Í fyrri hlutanum sem fjallar um yngra fólk var gráthlægilegt mynd af ungum drykkkjusjúklingi og sambandi hans við pólska fiskverkakonu einna eftirminnilegast, svo og kostulega hamingjusamur norskur starfsmaður í rækjuvinnslu. Síðari hlutinn, sem fjallar um eldra fólk og þar er meira kjöt á beinunum, frá meiru að segja. Einnig virtist mér sem hinir ungu ættu auðveldar með að blómstra í þessum hlutverkum þar sem brúa þurfti fjarlægðina milli kynslóðar þeirra og persónanna með látbragði og leiktilþrifum. Þessi fjarlægð, þessi gríma, virtist gefa þeim sköpunarfrelsi sem jafnaldrar þeirra í fyrri hlutanum gerðu ekki.

Heilt yfir er sýningin samt einkennilega hófstillt. Það vantar í hana tilfinninguna fyrir að leikurunum liggi eitthvað á hjarta, sem er skrítið þar sem hún er þeirra sköpun frá upphafi til enda. Á tveimur stöðum eru stutt atriði í frásögn persónanna sviðsett og aðrir leikarar taka þátt í að sviðsetja atriðin með látbragði - nokkuð sem vel hefði mátt sjá sem gegnumgangandi aðferð, en nær hér alls ekki tilgangi sínum, bæði vegna þess að um uppbrot á ríkjandi raunsæisstíl er að ræða, og því að atriðin eru hvorki útfærð af nægilegu hugmyndaflugi né skilað af þeirri leikgleði sem þessi leið útheimtir.

Leikhópurinn er að því er best verður séð þríþjóðlegur, og eiga allir sín eftirminnilegu númer. Birna Hafstein var kostuleg í fyrirlestri sínum um þýðingarvillur í Agöthu Christie, Erlendur Eiríksson ógnvekjandi sem eiginmaður pólsku konunnar og Maiken Ulrike Bernth fór fallega með lokaatriði sýningarinnar. Margrét Kaaber var hæfilega óþolandi fyrrverandi söngstjarna Sean McGlynn bjó til sterkan karakter í fyrri hlutanum og Sólveig Guðmundsdóttir og Oliver Burns voru eftirminnileg eldri hjón í þeim síðari.

In transit er á leið í leikferð um Skandinavíu og Bretland, og er leikið á ensku. Fyrir Íslendinga er sá framandleiki sem fæst við að lýsa íslensku hverdagsfólki á ensku stór hluti af upplifuninni og uppspretta stórs hluta hlátursins á frumsýningu. Það verður forvitnilegt að frétta hvernig þessar sögur virka á leikhúsgesti annarsstaðar.

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Sólstingur

Nemendamót Verslunarskólans Höfundur: Þorsteinn Guðmundsson, leikstjóri: Jóhann G. Jóhannsson, danshöfundur: Helena Jónsdóttir, tónlistarstjóri: Jón Ólafsson, útlit: Sigurður Kaiser. Loftkastalanum 4. febrúar 2004

Sólstingur


ÚTSKRIFTARFERÐALAG Verslunarskólanema er vitaskuld kjörið efni í söngleik af því taginu sem Nemendamót Verslunarskólans hefur sérhæft sig í á undanförnum árum. Það býður upp á endalausa möguleika á gríni, fjöri, dansi og tónlist, ást og afbrýði, gleði og glappaskotum og það hjálpar lítt reyndum leikhópnum hvað persónurnar eru nálægt þeim. 

Að vanda er það samt frammistaðan á dansog söngsviðinu sem skín skærast, leikurinn heilt yfir ágætur en stenst ekki samanburð við afdráttarlausa fagmennskuna á hinum sviðunum. Nýr höfundur hefur verið kallaður til leiks, Þorsteinn Guðmundsson. Hann á nokkur leikrit skrifuð og hefur mótað mjög persónulegan grínstíl sem birtist bæði í skrifum hans, sjónvarpsþáttum og uppistandi, en á því sviði er hann að mínu mati fremstur meðal íslenskra jafningja. Þessi stíll er nokkuð áberandi í Sólsting, og mögulega er hann of persónulegur til að hann henti öðrum en Þorsteini sjálfum að flytja. Hópnum gekk betur með yfirborðsraunsæja íróníu Jóns Gnarr í fyrra. 

Annað sem stendur Sólsting fyrir þrifum er byggingin. Verkið hverfist um fjóra krakka og gerist að mestu í íbúð þeirra á Benidorm, en að forminu til er það uppbyggt af sketsum, laustengdum nokkuð. Kannski hefði verið vænlegra að brjóta verkið enn meira upp og nálgast revíuformið meira. Allavega ná þau tvö mál sem einhver framvinda er í, samband tveggja krakkanna og sambúðarvandi fararstjórahjónanna ekki að mynda heillega fléttu. 

Tónlistaratriðin eru hápunktur sýningarinnar, og gerir þá ekkert til þó stundum bresti þau á af ansi bláþráðóttum ástæðum. Þó er ég ekki frá því að textaframburður hafi verið með óskýrara móti þetta árið. Dansarnir eru á hinn bóginn skemmtilegir mjög, engir betri þó en karlmannlegur stríðsdans hommans og fylgdarsveina hans. Fjórmenningarnir eru leiknir af þeim Ernu Sigmundsdóttur, Jóni Ragnari Jónssyni, Hönnu Borg Jónsdóttur og Kristjáni Sturlu Bjarnasyni. Hlutverk Jóns og Ernu eru sýnu bitastæðari og gerðu þau þeim ágæt skil. Fararstjórahjónin voru bráðhlægileg í meðförum Davíðs Gill Jónssonar og Svandísar Dóru Einarsdóttur. Af öðrum leikurum verður ekki komist hjá að nefna Rúnar Inga Einarsson sem var tvímælalaust fyndnasti maður kvöldsins sem hinn óþolandi Magnús. 

Sólstingur er ekki jafn augljós stórsigur og Nemendamótssýningar undanfarinna ára, en stendur þó fyrir sínu, enda færni og kraftur í réttum hlutföllum orðin algerlega viðtekin lágmarkskrafa í þessu þroskaða söngleikjabatteríi. Aðdáendur Verslósýninganna munu skemmta sér vel í Loftkastalanum.