mánudagur, febrúar 18, 2002

Slappaðu af!

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands
Borgarleikhúsinu mánudaginn 18. febrúar 2002

Höfundur: Felix Bergsson
Leikstjóri: Gunnar Helgason
Danshöfundur: Guðfinna Björnsdóttir
Tónlistarstjóri: Jón Ólafsson
Leikmynd og lýsing: Sigurður Keiser

Líf og sál

ÆTLI Baz Luhrman hafi séð sýningar Verzlunarskólans áður en hann réðst í að gera Moulin Rouge? Hugmyndin er alltént sú sama, að safna saman vinsælum popplögum og þræða þau eins og glerperlur upp á einfaldan söguþráð og krydda síðan með gríni og dansi. Slappaðu af sver sig í þessa ætt, enda lítil ástæða til að hringla með formúlu sem virkar.

Að þessu sinni er það gömul Soul-tónlist sem er lögð til grundvallar, og sögusviðið sjöundi áratugurinn, kalda stríðið og önnur umbrot þess tíma. Í ágætu handriti Felix Bergssonar er þungamiðjan minni sem kenna má við Rómeó og Júlíu. Drengur úr röðum vinstrisinna og unnusta foringja hægrimanna verða ástfangin og þurfa að yfirstíga jafnt eigin hindranir og utanaðkomanti áður en þau geta fallist endanlega í faðma í lokin. Raunar eru það ekki andstæður kommúnisma og kapítalisma sem myndar mestu spennuna í verkinu, þær deilur hljóma dálítið eins og þras aðdáenda Liverpool og Manchester United, Duran Duran og Wham! Frelsisbarátta kvenna reynist miklu sterkari spennugjafi í sýningunni, enda er þar eitthvað áþreifanlegt í húfi fyrir alla aðila.

Slappaðu af er, eins og Verslinga er von og vísa, mikið og skrautlegt sjónar- og heyrnarspil. Ekkert hefur verið til sparað til að gera hana glæsilega úr garði. Að vanda eru tónlistar- og dansatriði óaðfinnanlega útfærð. Raunar held ég að dansnúmerin hér séu þroskaðra verk en undanfarið, þeim er oftar gert að fleyta sögunni áfram, og eru sjaldnar eingöngu innantóm sýning á fimi dansaranna. Númerið á heimili hægriforingjans þar sem hann reynir að fá kærustuna til að slappa af í kynhlutverki sínu er dæmi um þetta, frábær lítill leikþáttur. Hins vegar þykir mér ekki hafa tekist nógu vel að græða lögin inn í fléttuna, of mörg þeirra virðast bara koma þegar tíminn kallar á næsta lag. Í góðum söngleik þurfa persónurnar að bresta í söng af tjáningarþörf þegar hversdagslegt talað mál dugar ekki til. Þetta tekst stundum í slappaðu af, en ekki nógu oft.

Leikmynd Sigurðar Keiser er afburðasnjöll, einföld og nýtist til að skapa ótrúlega fjölbreyttan bakgrunn, hráslagalega bragga jafnt sem Hótel Borg í sparifötunum. En ljósadýrðin sem Sigurður varpar á myndina og leikhópinn keyrir stundum fram úr tilgangi sínum og fer að virka truflandi. Það er jú fyrst og síðast fólkið á sviðinu sem við höfum áhuga á.

Gunnar Hrafn Gunnarsson og María Þórðardóttir í hlutverkum elskendanna Kjartans og Tinnu eru prýðileg bæði til leiks og söngs. Af öðrum eftirminnilegum verður að nefna Andreu Ídu Jónsdóttur sem var unaðsleg í skemmtilegu hlutverki bráluðu eldhúsvísindakonunnar Evu og Jón Ragnar Jónsson sem var eins og ofvaxinn fermingardrengur sem hægriforinginn og kom því heldur betur á óvart þegar hann reyndist vera fremstur meðal jafningja í Soul-söng. Hægristelpnagerið, vinstristúlknafylkingin og hinar ráðvilltu löggur voru líka skemmtilegir hópar. Í heild tekst leikhópnum vel að skila sögunni þó erfiður hljómburður stóra sviðsins og ofvirknislegur leikstíllinn sem Gunnar Helgason hefur lagt upp með hafi verið farinn að taka sinn toll af raddböndunum hjá sumum. Þessi ýkjustíll og létt stílfærðar hreyfingar hjálpa þó lítt vönum leikurunum að ná tilætluðum áhrifum án þess að þurfa að kafa dýpra í persónur sínar.

Hröð leikaravelta er eitt helsta einkenni framhaldsskólaleikfélaga. Það hvað gæðin haldast jöfn og góð hjá þeim fremstu þeirra sýnir mátt hefðarinnar og hvert metnaður studdur hæfilegri samkeppnistilfinningu getur leitt. Nemendamótssýning Verzlunarskólans í ár er hefðinni trú, jafnt að efnistökum, gæðum og skemmtilegheitum. Til hamingju.

laugardagur, febrúar 16, 2002

Gauragangur

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum
Valaskjálf laugardaginn 16. febrúar 2002

Höfundur: Óalfur Haukur Símonarson
Tónlist: Ný Dönsk
Leikstjóri: Unnar Geir Unnarsson
Tónlistarstjóri: Hafþór Snjólfur Helgason
Danshöfundur: Steinunn Ingvarsdóttir

Vaxtarverkir

SUMT breytist hratt í unglingaheimum, annað alls ekki. Gauragangur er góðu heilli að mestu um aðalpersónuna, snillinginn og gallagripinn Orm Óðinsson, sem opnar vart svo kjaftinn án þess að einhvern svíði, og áhorfendur hlægi.

Gauragangur sver sig í ætt við margar leikgerðir skáldsagna í því að atriði eru mörg og stutt og styttast ef eitthvað er eftir því sem verkinu vindur fram. Þetta gerir uppfærslu verksins á hefðbundnu félagsheimilissviði að torleystu verkefni, og leggur leikurum erfiða þraut á herðar að flytja orku og innlifun frá einni senu til annarar. Grundvallarlausn Unnars Geirs Unnarssonar í þessari uppfærslu er býsna snjöll. Stór pallur á hjólum er heimili Orms, en myndar einnig bakvegg fyrir aðrar senur. Skiptingar ganga enda rösklega fyrir sig og staðsetningar mynda skýrar og oft sterkar myndir. Gott dæmi eru hvernig upphafs- og lokamynd sýningarinnar, ímyndaður dauði Orms og raunveruleg jarðarför Hreiðars, kallast á. Þessi skýrleiki ásamt kraftmiklum og fagmannlegum tónlistarflutningi eru sterkustu þættir sýningarinnar. Á hinn bóginn verður hún á köflum óþarflega kyrrstæð, jafnvel í hópatriðum sem ættu að vera kjörið tækifæri til að láta mikið ganga á. Nokkur tónlistaratriðanna voru skemmtilega útfærð í dansi, til dæmis gullgerðarsöngurinn, en óþarflega mörg þeirra fólust einfaldlega í að lögin voru sungin án nokkurrar sviðsetningar. Ég saknaði kraftsins sem meiri hreyfing hefði leyst úr læðingi hjá leikhópnum.

Í menntaskólauppfærslum á Gauragangi eru hlutverk eldri kynslóðarinnar stundum vandamál, en svo er ekki hér. Unnar fer þá leið að ýkja nokkuð persónueinkenni eldra fólksins. Það er svolítið eins og við sjáum þau í gegnum ofurraunsæisgleraugu Orms, og þetta gefur leikurunum tækifæri til að teikna skýrar skopmyndir. Mörgum tekst þetta ágætlega, til að mynda Hálfdáni Helga Helgasyni sem var kennarablókin Arnór, Sigurði Borgari Arnaldssyni sem gerði skólastjórann ljóðelska að ótrúlegum eftirleguhippa og Steinunni Ingvarsdóttur í hlutverki móður draumadísarinnar Lindu. Engri hreyfingu var ofaukið hjá Steinunni og kuldinn streymdi um salinn.

En það eru auðvitað krakkarnir sem mest mæðir á. Andri Bergmann Þórhallsson og Ragnar Sigurmundsson eru hæfilega slöttólfslegir sem þeir fóstbræður Ormur og Ranúr. Andri fer áreynslulaust með hlutverk sitt, syngur vel og skilar fyndni Orms prýðilega. Þá er framabrautarbeibið Linda trúverðug hjá Elísabetu Öglu Stefánsdóttur.

Hljómsveitin fór örugglega í gegnum tónlistina og sama er að segja um velflesta söngvara. Ánægjulegt er hvað textaframburður var skýr í söngvunum, nokkuð sem oft verður fórnarlamb hljóðnema og hávaða. Hér voru bæði hljóðnemar og nægur hávaði en samt mátti skilja það sem sagt var.

Heildaryfirbragð Gauragangs Menntaskólans á Egilsstöðum er einfalt og skýrt. Með meiri krafti og fjöri hefði sýningin náð meiri hæðum, en skilaboðin komast samt í gegn; allir verða að finna sinn þroskaveg, ekki í einrúmi heldur í slagtogi við hina sauðina.

miðvikudagur, febrúar 13, 2002

Milljónamærin snýr aftur

Á Herranótt
Tjarnarbíói miðvikudaginn 13. febrúar 2002
Höfundur: Friedrich Dürrenmatt
Þýðandi: Gísli Rúnar Jónsson
Leikstjóri: Magnús Geir Þórðarson
Leikmynd og búningar: Halla Gunnarsdóttir
Lýsing: Kári Gíslason
Tónlist: Medectophobia

Réttlæti á sanngjörnu verði

ÆTLI það sé tilviljun að þau leikskáld, sem hafa skrifað af mestri skarpskyggni um siðferðisábyrgð þess sem stendur hjá þegar illvirki eru framin, eru svissnesk? Fyrir nokkrum árum var meistaraverk Max Frisch, Andorra, sýnt á Herranótt og nú er röðin komin að hinum Svisslendingnum, Friedrich Dürrenmatt, og meistaraverki hans, Der Besuch der alten Dame, sem kallast Milljónamærin snýr aftur í skemmtilegri þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar.

Ung stúlka er hrakin úr heimabæ sínum eftir að barnsfaðir hennar hefur svarið fyrir faðernið og fengið félaga sína til að segjast hafa sofið hjá henni líka. Mörgum árum síðar snýr stúlkan aftur, illa útleikin af lífinu en ”ógeðslega rík”. Bærinn er á vonarvöl, hún ein getur bjargað honum og er reiðubúin til þess með einu skilyrði; réttlæti, hefnd. Eru bæjarbúar tilbúnir að taka barnsföðurinn af lífi í skiptum fyrir endurreisn þorpsins? Hinir sómakæru íbúar Kamrahlíðingar fyllast hneykslun, en á undraverðan hátt fara hjól efnahagslífsins að snúast, og verðmiðinn sem settur er á samviskuna verður að sama skapi sanngjarnari. Eins og allar góðar dæmisögur þá hefur þessi víða skírskotun, og þó helför nasista sé nærtæk sem kveikja verksins þá leiðir það hugann víða, frá umhverfismálum að vanda þriðja heimsins og lýðskrumi og stríðsæsingum skammsýnna stjórnmálamanna. Milljónamærin snýr aftur er stórt leikrit.

Sýning Herranætur og Magnúsar Geirs er firnavel sviðsett. Hinn mikli fjöldi sem á sviðinu stendur nær að vera agaður og fullur af kraftmiklu lífi samtímis og sýningin úir og grúir af snjöllum lausnum og smáskrítnum hugdettum sem krydda hana. Svo eitt dæmi sé nefnt þá bendi ég væntanlegum áhorfendum á að horfa á tærnar á skólameistaranum meðan hann talar í símann snemma í verkinu. Snjöll leikmynd, stemmningsrík lýsing og skemmtileg tónlist styðja við sýninguna, þó sumt af textanum drukkni í músík eins og gengur.

Magnús hefur valið sýningunni nokkuð ýkjukenndan stíl í leik og útliti sem fellur að mestu skemmtilega að efninu og hentar leikhópnum vel. Þó má velta því fyrir sér hvort ekki sé verið að fórna nokkru af áhrifamætti verksins á kostnað skemmtilegheitanna. Eftir því sem ýkjurnar magnast verður erfiðara að setja sig í spor bæjarbúa, sem er þó mergurinn málsins að áhorfendur geri. Í lokin var eins og Illugi barnsfaðir væri staddur í martröð - í barnaleikriti sem farið hefði af sporinu. Ef ósköp venjulegir, raunsæir og “góðir” smáborgarar eins og hann hefðu komið í stað fábjánanna í gulu skónum hefði gæsahúð áhorfenda eflaust orðið þéttari. En líklega hefði skemmtigildið rýrnað, og vissulega skyldi lokamyndin eftir sig allnokkra gæsahúð. Og útfærsla leiðarinnar sem valin er tekst allt að því fullkomlega.

Þetta er sýning fyrir allan hópinn til að vera stoltan af. Mikið mæðir vissulega á aðalleikurunum, Árna Agli Örnólfssyni í hlutverki Illuga elskhuga og Sunnu Maríu Schram sem túlkar hina einfættu refsinorn Kamillu Trumpgates (Dýrðlegt nafn hjá Gísla). Þau standa sig vonum framar, og Sunna fer hreinlega á kostum í sinni stjörnurullu. Árni á erfiðara verkefni, að vera venjulegur maður í martröðinni, en rósemd og innlifun hans í lokaatriðum verksins var sterk og sönn. Margir aðrir verðskulda að vera nefndir á nafn, of margir til að hægt sé að byrja á því í stuttum pistli. Látum nægja að taka ofan fyrir hinni fornfrægu og síungu Herranótt, sem leysir hér erfitt verkefni á framúrskarandi hátt.

föstudagur, febrúar 08, 2002

Fiðlarinn á þakinu

Leiklistarhópur Umf. Eflingar
Breiðumýri í Reykjadal föstudaginn 8. febrúar 2002.

Höfundar: Joseph Stein, Jerry Bock og Sheldon Harnick byggt á sögum eftir Sholem Aleichem.
Þýðandi: Þórarinn Hjartarson
Leikstjóri: Arnór Benónýsson
Tónlistarstjórn: Jaan Alavere og Valmar Väljaots

Trúir þú á kraftaverk?

ÞAÐ er auðséð í hverju smáatriði í sýningu leiklistarhóps Umf. Eflingar á Fiðlaranum á Þakinu að fólkið í þessum afskekkta íslenska dal stendur nærri fólkinu í Anatevka sem eru yrkisefni verksins. Svo eðlileg og áreynslulaus var persónusköpun flestra og svo innileg mörg atriðin að það mátti næstum trúa að einmitt þarna hafi þetta þorp staðið rétt fyrir byltingu og þrjóskir og íhaldssamir kallarnir verið þingeyskir bændur en ekki rússneskir gyðingar. Þessi tilfinning er hinn stóri styrkur sýningarinnar og á stærsta þáttinn í að gera hana að ákaflega áhrifamikilli leikhúsupplifun.

Það spillir auðvitað ekki fyrir að verkið er frábær smíð, einhver elskulegasti söngleikur sem Broadwaymaskínan hefur getið af sér. Og hjarta verksins slær í Tevye, mjólkurpóstinum með lærdómsdraumana sem getur ekki frekar en aðrir stöðvað tímans þunga nið og verður að læra að bogna til að brotna ekki þegar dætur hans hver af annari brýtur aldagamlar hefðir við val á maka. Tvær gildrur gapa við hverjum leikara sem glímir við Tevye; að gera hann fyndinn með því að undirstrika einfeldni hans og að beita afli við að gera hann aðlaðandi, nokkuð sem er lenska í söngleikjauppfærslum um allan heim. Jón Friðrik Benónýsson fellur í hvoruga gryfjuna og uppsker ríkulega. Hann er algerlega trúverðugur sem þessi erfiðismaður sem reynir að glíma við vandamálin með eigin brjóstviti og er þess vegna nógu stór til að brjóta hefðir sem nágrannarnir og forfeðurnir gátu ekki. Og af því Jón er trúverðugur er Tevye auðvitað aðlaðandi - og fyndinn. Við hlægjum að honum og grátum með honum.

Fleiri eiga stjörnuleik. Jóhanna M. Stefánsdóttir er Jóni verðugur mótleikari sem eiginkonan Golda. Motel klæðskeri verður hlægilegt grey hjá Karli Ingólfssyni og ekki minnist ég þess að hafa heyrt “kraftaverkasönginn” betur sunginn. Aðalbjörg Pálsdóttir er óborganleg sem hjúskaparmiðlarinn Yenta og besta dæmið um það sem ég sagði í upphafi um hvernig Reykdælir hafa gert verkið að sínu.

En þrátt fyrir þessi einstaklingsframlög er sýningin sigur hópsins og leiðtoga hans, galdrakarlanna þriggja, Arnórs Benónýssonar, Jans Alavere og Valmars Väljaots. Arnór hefur laðað fram styrkleika hvers einasta leikara. Helst saknaði ég skýrari meðhöndlun á hinni dökku hlið verksins, samskiptum söguhetjanna við rússneska kúgarann. Og halinn sem hefur verið prjónaður á verkið þótti mér ekki góð hugmynd. Vissulega mátti finna hnökra á sumum tónlistaratriðunum, en vegna þess að sýningin er einlæg og raunsæisleg og áherslan er ekki á “sjó” verður það ekki til að spilla ánægjunni til neinna muna. Og sum þeirra eru hreint frábær, svo sem fyrrnefndur söngur Motels, kveðjusöngur Hodel hjá Hönnu Þórsteinsdóttur, ástarjátning Goldu og Tevyes og tvö erfiðustu stórnúmerin, upphafssöngurinn og draumur Tevyes. Fjórði stórmeistarinn er svo Þórarinn Hjartarson, en þýðing hans er snilldarverk og hljómar auðvitað best með norðlenskum hreim.

Með sýningunni á Fiðlaranum eru tekin af öll tvímæli um að leiklistarhópur Umf. Eflingar er um þessar mundir eitt sterkasta áhugaleikfélag landsins. Þau hafa tekist á við vandasamt og viðkvæmt verk og skila því með hjartanu beint í hjarta áhorfenda. Það er mikið á sig leggjandi til að sjá þessa sýningu.