Hamingjudagar
Eftir Samuel Beckett. Íslensk þýðing: Árni Ibsen. Þýðing yfirfarin: Hafliði Arngrímsson. Leikstjórn: Harpa Arnardóttir. Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir. Tónlist og hljóðmynd: Ísidór Jökull Bjarnason. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Myndbandshönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson, Ísidór Jökull Bjarnason og Brynja Björnsdóttir. Hár og gervi: Harpa Birgisdóttir. Leikarar: Edda Björg Eyjólfsdóttir og Árni Pétur Guðjónsson. Leikfélag Akureyrar frumsýndi í Svarta kassanum í Menningarhúsinu Hofi 2. september 2022, rýnir sá uppfærsluna þegar hún var tekin til sýninga á Nýja sviði Borgarleikhússins laugardaginn 5. nóvember 2022.
Ævi og ástir haugbúa
Íslenska orðið „leikskáld“ er eins og það hafi verið hannað með Samuel Beckett í huga. „Leikritahöfundur“ nær engan veginn yfir það sem gerðist þegar hann settist niður og hugsaði upp þessi makalausu verk. Framlag hans er langt í frá bundið við sköpun persóna og texta, sem þó væri nógu mikið afrek einn og sér; ljóðrænn, harmrænn, heimspekilegur og aulafyndinn eins og hann einatt er. Ekkert annað af helstu leikskáldum heims á í safni sínu verk án orða, og fá gefa eins nákvæm fyrirmæli um sviðsbúnað, hreyfingar og leiktæknileg atriði. Allt er þetta hluti þess listaverks sem Beckett sendir frá sér.
Svo sterk er sýn hans að einstaka myndir öðlast sjálfstætt líf, skapa merkingu í huga áhorfandans/lesandans, eða jafnvel þeirra sem bara heyra af þeim. Biðin endalausa eftir Godot. Gamla fólkið í öskutunnunum í Endatafli . Krapp og segulböndin hans. Og síðast en ekki síst hin káta og þrautseiga Winnie í Hamingjudögum , grafin upp að mitti og síðar enn dýpra. Þessu stórkostlega sviðsljóði um fráleita lífsbaráttuna, kraftinn sem rekur okkur áfram án sýnilegs tilgangs í skeytingarlausum og óskiljanlegum heimi.
Það er gaman að sjá hvernig Edda Björg Eyjólfsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson og leikstjórinn Harpa Arnardóttir mæta þessu heildstæða verki, þar sem hver hreyfing og hver þögn er fyrirskipuð af höfundi. Í fyrri hlutanum verður ekki betur séð en fyrirmælunum sé hlýtt út í ystu æsar. Í þeim síðari er skipt rækilega um gír og engu líkara en fyrirmæli Becketts úr Ekki ég , annarri og enn róttækari einræðu konu, séu heimfærð upp á síðustu ræðu Vinníar. Textinn verður að flaumi, öll afstaðan örvæntingarfyllri og myrkari, og bjallan sem vekur Vinní hvern morgun hringir aftur og aftur, líkt og tíminn standi í stað. Strangt tekið er ekki gert ráð fyrir listrænum ákvörðunum leikstjóra á borð við þessa í leikhúsi Becketts, en þetta er feikiáhrifaríkt hér.
Sem gildir um sýninguna alla. Stærsta heiðurinn af því á vitaskuld Edda Björg Eyjólfsdóttir sem Vinní. Það er virtúósabragur á textaflutningnum og þeim Hörpu hefur tekist að gæða fyrirskrifaðar athafnir Vinníar eðlilegu lífi. Tilfinningaleg innistæða, tímasetning og hrynjandi, allt óbrigðult. Það síðastnefnda gerir flauminn í síðari hlutanum að ógleymanlegum tuttugu mínútum. Þýðing Árna Ibsen hljómaði sönn og ljóðræn í frábærum flutningnum.
Eiginmanni Vinníar bregður nokkrum sinnum fyrir, stundum aðeins röddinni. Árni Pétur skilar þessu vel, er kostulegur þegar þess þarf og harmrænn ef það á við. Tvísæi sem einkennir mjög verk Becketts fyrir svið og bók, en ekki síst Hamingjudaga .
Hægt er að skoða leikmyndina sem tvö aðskilin verk: hauginn þar sem hjónin búa og bakgrunninn, sem hér er myndbandsverk. Brynja Björnsdóttir er höfundur leikmyndar en myndbandið samvinnuverkefni hennar, Ólafs Ágústs Stefánssonar lýsingarhönnuðar og Ísidórs Jökuls Bjarnasonar sem semur tónlistina.
Haugurinn er vel útfærður. Ekki beint raunsæislegur, en gefur þó tilfinningu fyrir að þetta sé jarðvegur. Enn sjást einhverjar gróðurtægjur. Efnið spilaði listavel á móti smartri stemmingslýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar, sem hefur látið fyrirmæli Becketts um skerandi birtu lönd og leið.
Myndbandsbakgrunnurinn fannst mér ekki eins góð hugmynd. Það truflaði að kornakurinn sem þar er sýndur er í kolröngum hlutföllum við leikarana. Þó ágætt sé að þau Brynja og samverkamenn hennar hafi ekki fallið í þann pytt að staðsetja Vinní og Villa í einhverjum náttúruvana „eftirhrunsheimi“ (e. Post-Apocalyptic), eins og svo oft er gert, þá skapaði þessi ofvaxni en þó natúralíski hveitiakur óraunveruleikatilfinningu sem þjónar ekki verkinu. Beckett talar um sviplausa sléttu svo langt sem augað eygir. Ekkert sem truflar eða blandar sér í túlkun verksins. Ég held að það sé best, nóg er nú samt um að hugsa varðandi hlutskipti og lífsviðhorf Vinníar. Og þó tónlist Ísidórs Jökuls sé verulega eftirtektarverð, dramatísk og stemmingsrík, þá þótti mér hún líka of plássfrek, setja of sterkt mark á stemninguna.
Þegar þessum atriðum er ýtt til hliðar í huganum stendur eftir frábærlega unnin leiksýning, borin uppi af framúrskarandi vinnu leikaranna í einlægu samtali við einhverja mögnuðustu rödd leikbókmenntanna.