fimmtudagur, október 27, 2022

Síðustu dagar Sæunnar

eftir Matthías Tryggva Haraldsson. Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Leikmynd, búningar og myndbönd: Elín Hansdóttir. Lýsing: Pálmi Jónsson. Hljóðmynd: Þorbjörn Steingrímsson. Myndvinnsla: Elmar Þórarinsson. Leikgervi: Elín. S. Gísladóttir. Frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn. 27. október 2022.

Leið er mér hver ævistundin

„Ellin bíður, þung og hrörleg“, syngja glaðhlakkalegir stúdentar á þröskuldi fullorðinsáranna. Og svo reyna þeir að bægja hugsuninni frá sér, og öllu sem öldrun hefur í för með sér. Að missa fegurð og færni, að verða upp á aðra kominn, að þurfa að hýrast á stofnunum sem sífellt er í fréttum að séu að sligast undan álagi og ráði eiginlega ekki við að veita þá þjónustu sem þarf, og vitaskuld ekkert umfram það. 
En sumir hætta að bægja og byrja að skoða. Setja sig í spor gamlingjanna. Horfa fram á veginn og mæta augum fólksins sem þar stendur og horfir í gagnstæða átt og veltir fyrir sér hvað hafi orðið um lífið, og hvenær þau voru eiginlega hamingjusöm. Það hefur Matthías Tryggvi Haraldsson gert, og afraksturinn er Síðustu dagar Sæunnar. Ungs manns sýn á ógnir ellinnar.
Sæunn og Trausti eru komin á stofnun. Trausti er að mestu horfinn inn í þokuheim heilabilunarinnar og er jafnvel orðin konu sinni hættulegur en Sæunn þrjóskast við og harðneitar að láta koma honum fyrir annarsstaðar. Þess í stað drepur hún það sem eftir er af tímanum við að ráðstafa reytunum, skipuleggja útförina, rýna í gamlar myndir, reyna að lokka soninn Lárus í heimsókn og þreifa eftir leifunum af bónda sínum til að hjálpa honum á ráfinu um þokuna.
Þetta er ákaflega vel unnið verk hjá Matthíasi Tryggva. Eins og megnið af leikritum sem eru frumflutt þessi árin, nokkurnvegin sama hver það gerir, eru hér lærdómar frá leikhúsi fáránleikans nýttir til að gefa raunsæislegum efnivið og framvindu lyftingu. Gott ef ekki má rekja rætur þessa bræðings í íslensku leikhúsi allt aftur til Jökuls Jakobssonar. Hér má heyra enduróm af Samuel Beckett, þeim meistara hrörnunarinnar, í samtölum hjónanna og að sjálfsögðu í bjástri Sæunnar með kassettutækið, sem hún notar til að geyma nýjustu tilbrigði sín við útför og ráðstöfun eignanna. 
Öllu óvæntara, og sérlega gleðilegt, var þegar kostulegar einræður Sæunnar um dramatíska bálför og sonarson í lífsháska í Heiðmörkinni minntu einna helst á eintöl Dario Fo. Öllum þessum vopnum sveiflar Matthías Tryggvi fimlega og í þágu erindis síns. Textinn er skemmtilega skrifaður og skilar ótal hlátursköstum þó efnið sé ekkert léttmeti.
Óneitanlega býr samt absúrdtónninn til vissa fjarlægð á innihaldið. Hreinræktað raunsæisverk hefði til dæmis sagt okkur eitthvað um hvað bjátar á í sambandi Sæunnar við son sinn. Við hefðum fengið að vita meira um hvernig samlífi hjónin lifðu, hverskonar maður Trausti var áður en hugur hans veðraðist þannig að ekkert stóð eftir nema gamlar fylleríissögur úr Menntaskólanum á Laugarvatni. Við hefðum vitað hvað Sæunn fékkst við í lífinu, hvort hún vann úti og við hvað. Og hvað gerðist eiginlega í Borgarnesi?
Síðustu dagar Sæunnar einangrar viðfangsefni sitt við stöðu mála Trausta og Sæunnar hér og nú og hugleiðingar um lífsgönguna og hamingjuleitina sem svo auðveldlega getur misheppnast. Og reifar þau mál þannig að umhugsunarvert er. Nær semsagt markmiðum sínum. Sviðsetning Unu Þorleifsdóttur leiðir að því best verður séð fram eiginleika og kjarna verksins á sannfærandi hátt. Hún hefur einnig augljóslega unnið firnagott starf með leikurunum í mótun persónanna.
Guðrún S. Gísladóttir skapar verulega eftirminnilega persónu úr Sæunni, bæði sérkennilega og dæmigerða konu sem leitar með vaxandi örvæntingu að meiningu með lífi sínu og ummerkjum um hamingju. Hæst reis túlkunin í eintölunum fyrrnefndu, og ógleymanlegu atriði þar sem Sæunn ímyndar sér aðkomu starfsmanns að sér dáinni. 
Ég gæti síðan trúað að túlkun Jóhanns Sigurjónssonar á hinum næstum horfna Trausta verði með langlífari sköpunarverkum hans í mínu leikhúsminni. Ótrúlega fínleg, en jafnframt stór í sniðum. Trúverðug mynd af heilaglöpum, en jafnframt svipmyndir af þeim manni sem Trausti eitt sinn var. 
Snorri Engilbertsson var líka sannfærandi og nett-skopfærður sálfræðingur að reyna að hjálpa, eða rugla Sæunni, og hæfilega hlutlaus starfsmaður stofnunarinnar sem hýsir þau hjónin. Allur samleikur lipur og vel tímasettur, sem skapaði oft kátínu í salnum og er til marks um góða samvinnu Unu leiktjóra og þessa vel samsetta leikhóps.
Umgjörðin er verk Elínar Hansdóttur. Að mestu raunsæislega hugsuð og stofnanaleg eftir því. Háir bakveggirnir eru ekki síst ætlaðir til að varpa á þá myndböndum sem lífga óneitanlega upp á þá og skapa stemmingu. Sama er tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar ætlað að gera, en notkun hennar þótti mér ekki gera mikið gagn, þó stefin væru sum falleg, sérstaklega í lokamyndinni. Búningar Elínar eu vel hugsaðir, Sæunn í trúverðugum fötum eldri konu sem er annt um útlit sitt, en eiginmaðurinn í mun „leikbúningalegri“ múnderingu, enda komin lengra á veg út úr raunverulegu lífi.
Það eru góðir tímar í íslenskri leikritun þessi misserin. Áberandi mörg vel lukkuð leikverk litu dagsljósið, eða sviðsljósið öllu heldur, á síðasta leikári og það sem nú stendur yfir fer vel af stað. Í  síðustu dögum Sæunnar vinnur Matthías Tryggvi Haraldsson af miklu öryggi með form og texta, sem skilar sér í áhrifaríkri, umhugsunarverðri og skemmtilegri sýningu um áleitið efni.  








sunnudagur, október 16, 2022

Hríma

eftir Aldísi Davíðsdóttur, Ágústu Skúladóttur, Orra Huginn Ágústsson og Þóreyju Birgisdóttur. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir og Orri Huginn Ágústsson. Tónlist: Sævar Helgi Jóhannsson. Grímugerð: Aldís Davíðsdóttir. Leikmynd: Auður Ösp Guðmundsdóttir og Högni Sigurþórsson. Búningar: Auður Ösp Guðmundsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefásson. Leikendur Aldís Davíðsdóttir og Þórey Birgisdóttir. Frumsýnt í Tjarnarbíói sunnudaginn 16. október 2022.

Einveran 

Nýjabrumið er ekki farið af heilgrímulistinni, þó Hríma sé þriðja sýningin þar sem Aldís Davíðsdóttir og Ágústa Skúladóttir rannsaka tjáningarmögleika hinna frosnu andlita, að þessu sinni með Orra Hugin Ágústsson sem meðleikstjóra. Enn vekur þessi sérkennilegi angi leiklistarinnar furðu. Hvað verður sagt án orða og svipbrigða? Hvað leggja áhorfendur með sér í túlkun þess sem fram fer? Enn horfum við ekki síst eftir því hvað formið sjálft gengur út á, stundum á kostnað þess að láta viðfangsefnið eða söguna gagntaka okkur.
Við vitum þó, eftir reynsluna af Hjartaspöðum og Hetju, að gaman og harmur liggja álíka vel fyrir heilgrímum Aldísar. Þar hjálpar vitaskuld hin ljóðræna nákvæmni í hreyfingum og umgengni við leikmuni, sem einkennir gjarnan sýningar Ágústu, og Aldís sjálf nær sífellt þéttari en um leið mýkri tökum á, og mótleikarar hennar oftast líka. Tímasetning viðbragða og óvænt uppbrot endurtekningarinnar skilar hlátri, jafnvel þegar viðfangsefnið er jafnmyrkt og það er að þessu sinni.
Einbúinn Hríma hefur búið um sig fjarri mannheimum. Til að bæla eftirköstin af ofbeldi í fortíðinni. Um leið nærir hún og viðheldur skaðanum – getur ekki annað. Allt í lífi hennar er í föstum skorðum allt þar til óvæntur gestur birtist, sest að og hristir stoðirnar þannig að draugar fortíðarinnar sleppa úr fjötrum sínum. Dásamleg leikmynd – réttnefnd leiktjöld – Auðar Aspar Guðmundsdóttur og Högna Sigurþórssonar mynda skjólið sem Hríma hefur. Varnarvirki en jafnframt fangelsi. Veikburða himnur, og um leið og almennilega gustar í tilfinningarótinu halda þau auðvitað hvorki veðri né vindum. 
Sagan er dramatísk, en um leið dæmigerð. Hefur oft verið sögð áður. Þögult leikhús á borð við þetta ræður betur við hið almenna en hið einstaka. Dýpri skoðun kallar á smáatrið og sérstöðu í aðstæðum og atvikum, samhengi samfélags og menningar, sem illa komast til skila í þessu formi. Á móti kemur hið skáldlega afl tákna og líkinga sem skorður grímuleiksins kveikja hjá áhorfandanum. Það hættir ekki að vekja gleðiblandna lotningu hve lifandi grímurnar verða í gangi leiksins. Maður getur næstum svarið að víst sýni þær svipbrigði!
Að þess sinni leiddi atburðarásin athyglina að því hvað þessi svipbrigðasjónhverfing magnast mikið frá því að Hríma stendur ein á sviðinu með engan annan mótleik en frá kaffikönnu og þvotti á snúru, til þess sem gerist þegar hrakinn bréfberin álpast inn í hýði hennar. Þá fyrst byrja grímurnar að tala fyrir alvöru – sem endurspeglar auðvitað hvernig Hríma endurheimtir líf sitt í rótinu sem kemst á líf hennar við heimsóknina, við samneyti við annað fólk.
Aldís sjálf nær sífellt traustari tökum á að kveikja líf í grímunum, auk þess að vera sjálf hönnuður þeirra og höfundur. Að þessu sinni er Þórey Birgisdóttir mótleikarinn og skilar sínu með miklum sóma. Persónuleiki gestsins verður aldrei fyllilega heilsteyptur, en þetta er heldur ekki sagan af honum. 
Tónlist Sævars Helga Jóhannssonar er sérlega falleg og vel hugsuð, gegnir mikilvægu hlutverki í framvindu og mótun andrúmsloftsins. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar skilar einnig sínu til að magna heildaráhrifin. 
Það er ástæða til að hvetja áhugafólk um tjáningarmöguleika sviðslistanna til að sækja Hrímu heim í Tjarnarbíó og verða vitni að galdri sem er sér á parti í flórunni. Vonandi heldur vegferð Aldísar Davíðsdóttur í rannsókn á lífinu sem leynist í föstum andlitsdráttum heilgrímunnar áfram lengi enn.