Fyrrverandi
Handrit og leikstjórn: Valur Freyr Einarsson. Leikmynd og búningar: Ilmur Stefánsdóttir. Tónlist og hljóðheimur: Davíð Þór Jónsson og Salka Valsdóttir. Lýsing: Ingi Bekk. Myndband: Ingi Bekk og Elmar Þórarinsson. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir og Ilmur Stefánsdóttir. Sviðshreyfingar: Anna Kolfinna Kuran. Leikendur: Árni Þór Pálsson, Halldór Gylfason, Jörundur Ragnarsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Þorsteinn Bachmann og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhúsinu laugardaginn 9. apríl 2022, rýnir sá 2. sýningu, sunnudaginn 10. apríl.
Fortíðavandinn
Það eru líkin í lestinni sem knýja gamanleikina, með dyggri aðstoð frá beinagrindurnum í skápunum. Það eina sem þarf til að virkja eldsneytið er að láta eins og það sé ekki þarna, og ljúga ef einhver spyr. Svo skemmtilega vill til að þetta er ekki síður hagnýtur orkugjafi fyrir drama og harmleiki. Fyrir vikið er oft hægt að sleppa bæði og halda: láta glitta í grímu grátsins bak við fíflalæti hlátursgrímunnar. Verra auðvitað þegar það er á hinn veginn: að háalvarlegur harmleikur kveikir fliss yfir kjánagangnum sem býr að baki ógæfunni.
Þetta snýr allt rétt í Fyrrverandi. Skopið í forgrunni, harmurinn undir, og að mestu á ábyrgð áhorfenda að koma auga á hann og velta fyrir sér. Sýningin byggir á viðtölum og annarri rannsóknarvinnu handritshöfundar og leikstjóra, Vals Freys Einarssonar, sem hverfðist um hjónaskilnaði, eftirköst þeirra og áhrif á það líf sem tekur við. Tískustraumar leikhússins hafa á undanförnum árum skilað okkur sýningum þar sem rannsóknarvinnan sjálf er í forgrunni framsetningarinnar, jafnvel hreinlega umfjöllunarefnið. Vel hefði mátt ímynda sér þannig afrakstur, sérstaklega þar sem Common Nonsense hópurinn sem stendur að baki sýningarinnar hefur frá upphafi verið leitandi og óhræddur í verkefnum sínum. En kannski ber það einmitt vott um listrænt hugrekki að synda gegn „rannsóknarstraumnum“ og nýta forvinnuna sem efnivið í handrit sem fer ansi nærri því að vera einfaldlega formfastur, hefðbundinn og jafnvel pínu gamaldags gamanleikur.
Líklega er óhjákvæmilegt að árétta að þetta meina ég sem hreinræktað hrós. Því bæði er Fyrrverandi vel heppnað dæmi um slíkan gamanleik, leikandi létt og hæfilega fléttubundið, og um leið fullt af gráthlægilegum sannleika um þetta sjálfselska og grunnhyggna, en sérkennilega sjarmerandi dýr sem nútímamanneskjan er. Og það kemur í ljós að það er hægt að segja heilmikið um þetta allt í þessu langjaskaða og hálf-fyrirlitna formi þrátt fyrir allt. Veldur hver á heldur, greinilega.
Í klassískum gamanleikjaanda gerist Fyrrverandi i partíi. Vinahópur (þrenn pör) kemur saman á heimili eins parsins, mögulega í tilefni af yfirvofandi trúlofun gestgjafanna. Þær áætlanir fara fljótlega af teinunum, og þó ætlunin sé ekki endilega að helga kvöldið vangaveltum um fyrri maka og stöðu mála hvað þá varðar hjá pörunum í partíinu kemst á endanum fátt annað að. Óhjákvæmilega leysast allskyns vandamál og núningar úr læðingi, leyndarmál eru afhjúpuð og innistæðulaus sjálfsöryggi brenna yfir. Áhorfendur hlæja og flissa. En finna líka til og hugsa sitt. Allt eins og það á að vera.
þetta er kostulegur mannsöfnuður. Það er mestur raunsæisblær á húsfreyjunni Unu í flottum og öruggum meðförum Kötlu Margrétar Þorgeirsdóttur, sem er settleg og mögulega langþreytt á að reyna að stilla til friðar í borgarastyrjöldinni sem geisar milli barnanna hennar og þeim sem fylgdu nýja kærastanum, hálfmislukkaða jakkafatajógagúrúnum Togga, sem Þorsteinn Bachmann gerir sannfærandi og pínu hrollvekjandi skil. Óneitanlega skilur maður að syninum Bjarti, lítið hlutverk sem Árni Þór Pálsson leysir með prýði, lítist ekki meira en svo á ráðahaginn og setji fléttuna í gang með andmælum sínum. Þorsteinn er síðan á heimavelli í smámynd af fyrrverandi eiginmanni Unu, sem er greinilega skapaður til að skilja við hann. Annars kynnumst við þessum miklu örlagavöldum, fyrrverandi mökum, aðeins í lýsingum þeirra sem við mætum á sviðinu.
Gróteskan í persónugalleríinu rís mögulega hæst hjá Karli og Gígju, krabbameinslækninum og sjúklingnum sem hann læknaði og tók síðan saman við. Halldór Gylfason og Þórunn Arna Kristjánsdóttir eru flinkir týpusmiðir, sem er nákvæmlega það sem þarf til að skapa persónur eins og þau hjónin. Vala Kristín Eiríksdóttir er löngu búin að ná meistaratökum á sjálfhverfum einfeldningum eins og sjónvarpsstjörnunni Huldu og Jörundur Ragnarsson er manna flinkastur með nett-taugaveiklaða lúða í aðstæðum sem þeir ráða ekki við, en það er nákvæmlega staðan sem Bjarni er lentur í, í sínu opna sambandi við Huldu, sem ljóst er að nýtur sín betur í þannig fyrirkomulagi.
Eða hvað? Fyrir utan fyndnina og fáránleikann tekst Vali Frey að gefa öllum persónunum sínum sannfærandi fortíðarsár, eitthvað sem er dregið fram í dagsljósið í gangverki sýningarinnar. Sama hvað þetta er fráleitt fólk fer aldrei á milli mála að þetta er fólk. Meira segja hinir dýrðlega sundurgerðarlegu búningar Ilmar Stefánsdóttur ná ekki að gera þetta að hreinræktuðu skrípói, þó þeir ýti vissulega undir tilfinninguna fyrir að þetta sé leikhús en ekki hrár samtímaveruleiki sem hér er til sýnis. Sama með hina smekklegu en skemmtilega fortíðarlegu – og leikmyndalegu – stofu á heimili Unu og Togga. Tónlist og hljóðmynd Davíðs Þórs Jónssonar og Sölku Valsdóttur var ágæt og viðbót við stemminguna, að sjálfsögðu þarf að brjóta þetta hefðbundna drama upp með smá dansi, svona til að þetta verði ekki alveg eins og hefðbundið stofuleikrit. Besta uppbrotið er án efa dálítið groddaleg a cappella útgáfa af Mezzoforte-slagaranum Garden Party sem rímaði fullkomlega við áferð sýningarinnar.
Fyrrverandi er þrælskemmtilegur gamanleikur. Ekki djúprist greining eða djörf tilraun heldur smekklega þaulunnin sýning þar sem vel rannsakað efni er sett fram af gamalkunnri grínaðferð með ágætum árangri. Hreyfir við huganum og kætir um leið.