Risaeðlurnar
Eftir Ragnar Bragason í leikstjórn höfundar. Leikmynd: Halfdan Pedersen. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Tónlist: Mugison. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Leikarar: Edda Björgvinsdóttir, Pálmi Gestsson, Guðjón Davíð Karlsson, Birgitta Birgisdóttir, Hallgrímur Ólafsson og María Thelma Smáradóttir. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins 20. október 2017, skrifað um 3. sýningu 27. október 2017.
Það er nú meira pakkið sem er fulltrúar okkar í Washington. Elliði sendiherra er graðkall af gamla skólanum, og hefur tekist að halda þjóðrembuárunni ótrúlega hreinni þrátt fyrir að hafa eytt starfsævinni í stórborgum heimsins, með Jónas og Einar Ben sem sínar stoðir og styttur. Frú Ágústa gefur honum lítið eftir í þröngsýni og hefur fyrir löngu stirðnað í innantómum hirðsiðum atvinnugestgjafans og andlausu hannyrðabjástri. Svo eru þau auðvitað drykkfelld. Segir sig sjálft.
Ung og sjálfhverf listakona snapar sér kvöldverð í sendiherrabústaðnum, enda bætir hún það upp sem hana skortir af hæfileikum og erindi með skarpri innsýn í hvernig kaupin gerast á eyrinni. Í eftirdragi er kærastinn Albert, ósköp venjulegur strákur sem elskar hana Bríeti sína Ísold „ekki viturlega, en hóflaust“, en á að öðru leyti lítið sameiginlegt með Óþelló.
Í eldhúsinu puðar hin asíska Lí Na, eins og móðir hennar áður. Hana hafa sendiherrahjónin alið upp og „íslenskað“ þó líklega hafi hún aldrei fengið að koma „heim“. Þriðja kynslóð mun fæðast eftir fjóra mánuði. Og í garðhýsinu býr sonurinn Sveinn Elliði, sem ber syndir fjölskyldunnar.
Viss form- og efnisleg togstreita einkennir verkið og stendur áhrifamætti þess talsvert fyrir þrifum. Annars vegar er hér grimmilegur svartur gamanleikur þar sem ýmsir lestir (sjálfselska, þjóðhverfa, losti og græðgi) eru ýktir og þeir sem þá bera dregnir sundur og saman í háði. Hins vegar er drifkraftur Risaeðlanna af ætt fjölskyldu- og stofudramans, þar sem leyndarmál afhjúpast og fornar syndir kalla á uppgjör og yfirbót.
Þetta hristist ekki sérlega vel saman. Það stendur groddalegu gríninu fyrir þrifum hvað höfundi virðist liggja mikið á hjarta um spillt hugarfar þessa fólks, hvað honum virðist þrátt fyrir allt liggja mikið á hjarta. Og það ómerkir dramað hvað persónurnar eru undarlega einvíðar í þjónustu hlátursins, og hvað byggingin – framvindan – er veik og fyrirsjáanleg. Verst er samt tilfinningin að Ragnari þyki þetta fólk svo fyrirlitlegt það sé eiginlega ekki áhugavert. Það er að segja sendiherrahjónin og listakonan. Sambýlismaðurinn, húshjálpin og sonurinn eru ekki jafn mikið pakk, en fara fyrir vikið undir radar höfundarins og hverfa manni einkennalaus úr minni.
Eða myndu gera það ef leikhópurinn væri ekki svona ágætur, og leikstjórinn Ragnar yfirvegaður, ef kannski ekki beinlínis innblásinn, í útfærslu sinni á gölluðum afrakstri höfundarins Ragnars. Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson hafa náttúrulega hátt í ævistarf að baki við að lenda hláturreplikkum í hraðsoðnum grínhandritum og klikka aldrei hér, ekki frekar en í Gervahverfi eða Spaugstofunni. Pálmi gæti sennilega leikið svona hrokakallpung sofandi, og þá Edda svona hégómlega, laundrukkna sjálfsblekkingarkellingu. Þessi hlutverk gera engar merkilegar kröfur á þessa þaulreyndu kómíkera, enda klikkuðu þau aldrei. Ágústa að hringja eftir þjónustustúlkunni er einn af hápunktum sýningarinnar. Eða þá Elliði langfullur að gráta það að vera ekki sendiherra stærra lands, þegar kyngetan bregst honum á ögurstund.
Öllu eftirtektarverðara er afrek Birgittu Birgisdóttur, sem nær að sýna okkur merkilega heilsteypta sjálfhverfuprinsessu. Það eru vissulega fáir drættir í Bríet Ísold en þeir eru hér dregnir skarpt og skýrt. Bjóðandi fleðulætin gagnvart sendiherranum eru hrollvekjandi yndisleg, sem og útreiknaður kuldinn í garð unnustans sem Hallgrímur Ólafsson ljær sannfærandi hversdagsmannsþokka. María Thelma Smáradóttir fær vonandi fljótlega bitastæðara tækifæri en hina óskýru Lí Nu, því hún gerir það litla sem hún þarf að gera ákaflega vel. Hlutverk Sveins Elliða er að sönnu ákaflega vannært en Guðjón Davíð Karlsson nær samt að minna leikhúsgesti á það sem við sáum í Húsinu í fyrra, að hann ræður alveg yfir alvarlegri nærveru.
Umgjörðin öll er fagmannleg. Leikmynd Halfdans Pedersen sérlega þénug og falleg og möguleikar hringsviðstækninnar nýttir af hófstilltri fimi. Búningar sendiherrahjónanna sannfærandi hjá Filippíu I. Elísdóttur, en myndi ung og djörf listakona mæta í svona boð í svona ljótum og gamaldags kjól? Hvað veit ég? Ég veit allavega að það er bannað að láta persónur í svona raunsæislegum leikheimi fara að heiman með augljóslega tóma ferðatösku eins og hér gerist.
Að flestu öðru leyti er þessu verki sýndur allur sá fagmennskusómi sem Þjóðleikhús verður að gera. Um hitt má deila, hvaða erindi Risaeðlurnar eiga upp á stóra svið hússins. Sem gamanleikur er það ágætt en ekki leiftrandi. Sem greining á ástandi fólks og samfélags er verkið því miður einstaklega klisjulegt, einfeldningslegt og grunnt. Skotmörkin eru of auðveld, framvindan of formúlukennd, leikslokin allt of fyrirsjáanleg. Það er augljóst að Ragnari Bragasyni liggur fleira á hjarta en þörf fyrir að kitla hláturtaugarnar. En þurfum við í alvörunni allt þetta batterí til að segja okkur að langfullir þjóðrembdir kallar eru ömurlegir, konurnar sem kóa þá brjóstumkennanlegar og hæfileikasnauðir listamenn fyrirlitlegir?
Er það ekki svona sirka eins gamaldags, þunglamalegt og óhagkvæmt og, tjah, utanríkisþjónustan?
Fulltrúar lands og þjóðar
Þessa dagana ómar stjórnmálaþras í eyrum okkar og höfði. Þá rifjast upp að þegar frambjóðendur sem vilja breyta forgangsröðinni eru krafðir svara um hvað megi skera niður í ríkisútgjöldum er utanríkisþjónustan næstum alltaf það fyrsta sem nefnt er. Sem er ekkert skrítið. Sendiráðin í huga okkar, sem þekkjum þar ekkert til, eru ekki svo frábrugðin þeim sem Ragnar Bragason hefur hugsað upp og sett á svið í Þjóðleikhúsinu núna í haust. Auðvitað ekki alveg svona gegndarlaust glórulaus, en samt.Það er nú meira pakkið sem er fulltrúar okkar í Washington. Elliði sendiherra er graðkall af gamla skólanum, og hefur tekist að halda þjóðrembuárunni ótrúlega hreinni þrátt fyrir að hafa eytt starfsævinni í stórborgum heimsins, með Jónas og Einar Ben sem sínar stoðir og styttur. Frú Ágústa gefur honum lítið eftir í þröngsýni og hefur fyrir löngu stirðnað í innantómum hirðsiðum atvinnugestgjafans og andlausu hannyrðabjástri. Svo eru þau auðvitað drykkfelld. Segir sig sjálft.
Ung og sjálfhverf listakona snapar sér kvöldverð í sendiherrabústaðnum, enda bætir hún það upp sem hana skortir af hæfileikum og erindi með skarpri innsýn í hvernig kaupin gerast á eyrinni. Í eftirdragi er kærastinn Albert, ósköp venjulegur strákur sem elskar hana Bríeti sína Ísold „ekki viturlega, en hóflaust“, en á að öðru leyti lítið sameiginlegt með Óþelló.
Í eldhúsinu puðar hin asíska Lí Na, eins og móðir hennar áður. Hana hafa sendiherrahjónin alið upp og „íslenskað“ þó líklega hafi hún aldrei fengið að koma „heim“. Þriðja kynslóð mun fæðast eftir fjóra mánuði. Og í garðhýsinu býr sonurinn Sveinn Elliði, sem ber syndir fjölskyldunnar.
Viss form- og efnisleg togstreita einkennir verkið og stendur áhrifamætti þess talsvert fyrir þrifum. Annars vegar er hér grimmilegur svartur gamanleikur þar sem ýmsir lestir (sjálfselska, þjóðhverfa, losti og græðgi) eru ýktir og þeir sem þá bera dregnir sundur og saman í háði. Hins vegar er drifkraftur Risaeðlanna af ætt fjölskyldu- og stofudramans, þar sem leyndarmál afhjúpast og fornar syndir kalla á uppgjör og yfirbót.
Þetta hristist ekki sérlega vel saman. Það stendur groddalegu gríninu fyrir þrifum hvað höfundi virðist liggja mikið á hjarta um spillt hugarfar þessa fólks, hvað honum virðist þrátt fyrir allt liggja mikið á hjarta. Og það ómerkir dramað hvað persónurnar eru undarlega einvíðar í þjónustu hlátursins, og hvað byggingin – framvindan – er veik og fyrirsjáanleg. Verst er samt tilfinningin að Ragnari þyki þetta fólk svo fyrirlitlegt það sé eiginlega ekki áhugavert. Það er að segja sendiherrahjónin og listakonan. Sambýlismaðurinn, húshjálpin og sonurinn eru ekki jafn mikið pakk, en fara fyrir vikið undir radar höfundarins og hverfa manni einkennalaus úr minni.
Eða myndu gera það ef leikhópurinn væri ekki svona ágætur, og leikstjórinn Ragnar yfirvegaður, ef kannski ekki beinlínis innblásinn, í útfærslu sinni á gölluðum afrakstri höfundarins Ragnars. Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson hafa náttúrulega hátt í ævistarf að baki við að lenda hláturreplikkum í hraðsoðnum grínhandritum og klikka aldrei hér, ekki frekar en í Gervahverfi eða Spaugstofunni. Pálmi gæti sennilega leikið svona hrokakallpung sofandi, og þá Edda svona hégómlega, laundrukkna sjálfsblekkingarkellingu. Þessi hlutverk gera engar merkilegar kröfur á þessa þaulreyndu kómíkera, enda klikkuðu þau aldrei. Ágústa að hringja eftir þjónustustúlkunni er einn af hápunktum sýningarinnar. Eða þá Elliði langfullur að gráta það að vera ekki sendiherra stærra lands, þegar kyngetan bregst honum á ögurstund.
Öllu eftirtektarverðara er afrek Birgittu Birgisdóttur, sem nær að sýna okkur merkilega heilsteypta sjálfhverfuprinsessu. Það eru vissulega fáir drættir í Bríet Ísold en þeir eru hér dregnir skarpt og skýrt. Bjóðandi fleðulætin gagnvart sendiherranum eru hrollvekjandi yndisleg, sem og útreiknaður kuldinn í garð unnustans sem Hallgrímur Ólafsson ljær sannfærandi hversdagsmannsþokka. María Thelma Smáradóttir fær vonandi fljótlega bitastæðara tækifæri en hina óskýru Lí Nu, því hún gerir það litla sem hún þarf að gera ákaflega vel. Hlutverk Sveins Elliða er að sönnu ákaflega vannært en Guðjón Davíð Karlsson nær samt að minna leikhúsgesti á það sem við sáum í Húsinu í fyrra, að hann ræður alveg yfir alvarlegri nærveru.
Umgjörðin öll er fagmannleg. Leikmynd Halfdans Pedersen sérlega þénug og falleg og möguleikar hringsviðstækninnar nýttir af hófstilltri fimi. Búningar sendiherrahjónanna sannfærandi hjá Filippíu I. Elísdóttur, en myndi ung og djörf listakona mæta í svona boð í svona ljótum og gamaldags kjól? Hvað veit ég? Ég veit allavega að það er bannað að láta persónur í svona raunsæislegum leikheimi fara að heiman með augljóslega tóma ferðatösku eins og hér gerist.
Að flestu öðru leyti er þessu verki sýndur allur sá fagmennskusómi sem Þjóðleikhús verður að gera. Um hitt má deila, hvaða erindi Risaeðlurnar eiga upp á stóra svið hússins. Sem gamanleikur er það ágætt en ekki leiftrandi. Sem greining á ástandi fólks og samfélags er verkið því miður einstaklega klisjulegt, einfeldningslegt og grunnt. Skotmörkin eru of auðveld, framvindan of formúlukennd, leikslokin allt of fyrirsjáanleg. Það er augljóst að Ragnari Bragasyni liggur fleira á hjarta en þörf fyrir að kitla hláturtaugarnar. En þurfum við í alvörunni allt þetta batterí til að segja okkur að langfullir þjóðrembdir kallar eru ömurlegir, konurnar sem kóa þá brjóstumkennanlegar og hæfileikasnauðir listamenn fyrirlitlegir?
Er það ekki svona sirka eins gamaldags, þunglamalegt og óhagkvæmt og, tjah, utanríkisþjónustan?