þriðjudagur, apríl 23, 2013

Karma fyrir fugla

Höfundar: Kari Ósk Grétudóttir, Kristín Eiríksdóttir
Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir
Leikmynd og búningar: Anna Rún Tryggvadóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Leikarar
Herdís Þorvaldsdóttir, Hilmir Jensson, Kristbjörg Kjeld, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Þórunn Arna Kristjánsdóttir.

Þjóðleikhúsið,  apríl 2013 – birtist fyrst í Spássíunni.

Tvíeggjað sverð dystópíunnar


Eftir að Kristín Jóhannesdóttir fór að helga leikhúsinu krafta sína á kostnað kvikmyndanna hefur hún fengið mikið af krefjandi verkefnum og alla jafnan skilað þeim með miklum sóma. Frá endurmatssýningum hennar á helstu leikritum Jökuls Jakobssonar í Borgarleikhúsinu um rómaðar uppfærslur hennar á nýjum verkum Sigurðar Pálssonar að nýjabrumssýningum ungra leikskáldkvenna í Þjóðleikhúsinu hefur orðið til sviðsleikstjóri með skýran stíl, einn fárra slíkra sem við eigum.

Ekki hef ég séð allt sem Kristín hefur sett upp og að mörgu leyti fer smekkur okkar ekki saman. Engu að síður kann ég að meta margt sem hún gerir og þori að fullyrða að Karma fyrir fugla er hennar besta verk. Hún dregur að mér virðist allt það sterkasta fram úr skáldlegum textanum, fínstillir óhugnaðinn af smekkvísi þannig að enginn missir af neinu með því að loka augunum og dregur fram hjá leikurum sínum framúrskarandi persónusköpun.

Eitt af því sem skilur á milli í leikhússmekk okkar Kristínar er að ég hef ekki eins mikla trú og mér virðist hún hafa á gildi tákna í umgjörð og möguleikum stílfærðra hreyfinga og dans til að miðla merkingu. Hér eru þessi atriði í bakgrunni. Leikmyndin er falleg og þénug og hverjum og einum áhorfanda frjálst að lesa úr henni eða í hana það sem honum lystir.
Leikararnir þóttu mér hreint afbragð heilt yfir. Þó Þorsteinn Bachmann, Ólafía Hrönn og Kristbjörg Kjeld væru að mörgu leyti að vinna á heimavelli í hlutverkunum sínum var einhver ferskleikablær yfir því sem þau gerðu. Maríönnu Clöru hefur maður ekki séð alveg eins mikið og hún var stórfín. Til Hilmis Jenssonar hef ég lítið séð áður, en hann var skuggalega sannfærandi í sínum ofbeldismannarullum.

Það gladdi mig svo sérstaklega að sjá Þórunni Örnu fást við bitastæðara verkefni en í Jónsmessunótt og standa fyllilega undir því með fallega innlifaðri túlkun á stúlkunni sem verður hið óhjákvæmilega fórnarlamb heimsins sem leikritið lýsir.

Innkoma Herdísar í lokin var bæði fögur og snjöll. Blessuð sé minning hennar.

Það er kraftur og lýrík í verki leikskáldanna, textanum og atburðarásinni. Tilsvör og ástandslýsingar persónannar lifa með manni. Formið er frjálslegt og að einhverju leyti ó-leikhúslegt. Ekki til neinna vandræða samt. Enginn mun heldur fara í grafgötur með hvaða erindi þær eiga við gesti sína.
Af hverju finnst mér þá þetta ekki alveg hafa tekist?

Mögulega vegna þess að þær hafa kosið að koma boðskap sínum um mansal og feðraveldi með aðferðum dystópíunnar. Það er vissulega sjokkerandi að sjá hvíta efri-millistéttarmenn (og konur þeirra) selja ofbeldismönnum dætur sínar, og svo þegar það gengur ekki í hendur kynlífsþrælahaldara. En viðbrögðin eru náttúrulega bæði "djöfull er þetta ógeðslegt" (sem það er) og "hjúkkitt að þetta sé ekki svona hjá okkur" (sem er líka rétt).

Ég er ekki viss um að þetta sé sérlega áhugaverður eða árangursríkur tónn að tala í við það meðvitaða millistéttarfólk sem kaupir sér miða á sýningar sem heita „Karma fyrir fugla“ og fjalla um mansal og kynlífsþrælkun. Það þarf ekkert að sannfæra okkur um þá martröð sem þessi heimur er með því að einfalda hann niður á stig boðskapsþrunginna barnaleikrita. Það er hreinlega pínu niðurlægjandi.

Það sem bjargaði sýningunni frá því að fá a.m.k. þennan áhorfanda upp á móti sér var annarsvegar hversu frábærlega hún er unnin og leikin og hins vegar senurnar með fórnarlömbunum þremur. Þar nýtur ótvíræð skáldgáfa höfundanna sín best, hún lýsir upp fyrir okkur sálarangistina og vonleysið sem hefur brotið niður og endurbygg í afskræmdu formi persónurnar sem Ólafía og Kristbjörg túlka svo vel og við sjáum hvert stefnir með þá ungu sem Þórunn sýnir okkur.

Karma fyrir fugla breytti ekki sýn minni á heiminn en það er firnagott leikhús. Það er nóg fyrir mig.


föstudagur, apríl 05, 2013

Blam!

Höfundar: Kristján Ingimarsson og Jesper Pedersen
Leikstjórn: Kristján Ingimarsson, Simon Boberg
Lýsing: Edward Lloyd Pierce
Leikmynd: Kristian Knudsen
Hljóðmynd: Svend E. Kristensen, Peter Kyed

Leikarar
Kristján Ingimarsson, Lars Gregersen, Didier Oberlé og Joen Højerslev

Borgarleikhúsið 5. apríl 2013 – birtist fyrst í Spássíunni

„… ef kitlar mig forstjórinn“


Ég hef aldrei séð áhorfendahóp í viðlíka ástandi og þann sem ruddist út úr stóra sal Borgarleikhússins 5. apríl síðastliðinn. Fólk er oft glatt eftir góða og skemmtilega sýningu, stundum augljóslega slegið, stundum dauðfegið og jafnvel nývaknað þegar verulega illa hefur tekist til.

En þetta var eitthvað allt annað. Þessi háhorfendahópur talaði (of) hátt og (of) hratt, allir búnir að týna háttvísibremsunum. Fólk strunsaði, ruddist jafnvel, ekki af því að það gæti ekki beðið eftir að komast út úr „þessu hræðilega húsi“ heldur eins og (of) kátir krakkar eftir afmælisveislu þar sem (of) mikill sykur var á boðstólum.

Það var engu líkara en fólk hefði fengið aukaskammt af adrenalíni. Sem var náttúrulega tilfellið. Það ágæta efni skilar sér nefnilega milli manna með osmósu sköpunarkraftsins.

Blam! sver sig í ætt við aðrar sýningar sem ég hef séð úr hinni einstöku smiðju Kristjáns Ingimarssonar. Grunnurinn er líkamstjáning á mörkum leiklistar, látbragðsleiks og dans og skapandi rannsókn á samskiptum við „dauða“ og gjarnan hversdagslega hluti. Þriðja víddin er síðan hin bernska sýn trúðsins. Útkoman er ævinlega heillandi og það er hún svo sannarlega hér.

Þrír skrifstofumenn láta sér leiðast í vinnunni. Eða ekki, því þeir bregða á leik í hvert sinn sem skrifstofustjórinn/forstjórinn lítur af þeim. Og þá verður skrifstofan vígvöllur í  anda helstu hasarmynda, áhöld og húsgögn ummyndast í vopn og verjur, hetjudáðir og hetjudauði yfirskyggja allt. Viggó viðutan mætir Rambó.

Næst þegar bossinn lítur upp er allt fallið í ljúfa löð. Þangað til hann stendur undirsátana að verki og ákveður/fær að vera með. Þá riðlast reglurnar aðeins, frelsið eykst en hættan um leið. Það þarf að kenna nýja manninum ævintýrareglurnar, en hann mun líka hafa óafturkræf áhrif á hvernig leikurinn er leikinn.

Veikasti hlekkur sýningarinnar er hvernig þessari framvindu, þessari þróun er miðlað. Þar rekast höfundar sýningarinnar á þann vegg sem þögult leikhús kemst ekki yfir. Áhorfandinn sá bókstaflega leikarana/persónurnar engjast yfir að geta ekki leitt mál til lykta með orðum. En það leyfir formið ekki.  Fyrir það líður sagan. En sjónarspilið græðir.

Og hvílíkt sjónarspi! Hin ævintýralega hugmyndaauðgi í að umbreyta hversdagslegustu hlutum (skjalamöppum, vatnskæli, borðlömpum) í vopn, verjur og vélmenni. Stórkostleg fimi leikaranna, sem birtist bæði í furðulegum áhættuatriðum og ótrúlegum líkamlegum aga. Og svo þessi hættulega stóri skammtur af þriðja kryddi leikhússins, hinni stórvarasömu leikgleði.

Þetta er allt með ólíkindum vel gert. Velflest atriðin eru reyndar þannig að það væri beinlínis lífshættulegt að þau væru ekki með ólíkindum vel gerð.

Það er lítið um frammistöðu leikaranna að segja anna en að við hneygjum okkur í lotningu yfir að þeir skuli geta gert þetta kvöld eftir kvöld. En það er heldur ekki bara átthagahroki að taka sérstaklega ofan fyrir höfuðpaurnum að norðan, Kristjáni Ingimarssyni. Þetta er hans list, hans stíll. Og þó allir séu þeir framúrskarandi flinkir þá er nú trúðablikið í auganu óneitanlega skærast hjá honum.

Blam! er óskaplega skemmtileg sýning. Hún er líka áminning um mikilvægi þess að leika sér, nauðsyn þess að leika sér MEÐ þeim sem eru líka að leika sér og síðast en ekki síst um allar þær óræðu hættur sem okkur stafa af því ef vatnskælar öðlast sjálfsvitund.

Kannski var það sá óljósi ótti sem fékk áhorfendurna til að tala svona hátt og flýta sér svona mikið þarna um kvöldið.