Johnny Casanova
Höfundur og leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson. Tónlist: Francois Evans og Cucular. Lýsing: Jón Þorgeir Kristjánsson. Leikendur: Ástríður Viðarsdóttir, Birna Dröfn Jónasdóttir, Elín Ósk Gísladóttir, Heiða Björk Árnadóttir, Hildur Friðriksdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jakob Ómarsson, Jón Þorgeir Kristjánsson, Pétur Eggertsson, Pétur Kristófer Oddsson og Valgerður Pétursdóttir. 23. júlí 2002.
Á útleið
Í JOHNNY Casanova birtast aftur stíleinkenni þau sem Ofleikur og Jón Gunnar sýndu í síðasta verki sínu, E. Mikið hugarflug, hraði og sjálfstraust. Aftur er öllum meðulum leikhússins beitt: raunsæislegum samtölum, skopstælingu, ljóðrænum eintölum, tónlist, ljósum, sprengingum, dansi. Og aftur er spjótum beint að einu samfélagsböli, að þessu sinni stöðu samkynhneigðra og erfiðleikum þeim sem fylgja því að koma út í samfélagi sem er í besta falli fordómafullt en því versta fjandsamlegt.
Verkið hverfist um tvo drengi í fjögurra manna vinahóp. Annar hefur lengi gert sér grein fyrir kynhneigð sinni en leynt henni, hinn er að vakna til vitundar um sína. Þeir ná saman en umhverfið er þeim eins fjandsamlegt og hugsast getur, annar glímir við ofbeldisfullan föður, hinn við bókstafstrú fjölskyldu sinnar. Þessi ástarsaga er einföld og sterk og í látlausum meðförum Jakobs Ómarssonar og Péturs Eggertsonar áhrifaríkasti þáttur sýningarinnar.
Það umhverfi sem Jón Gunnar kýs að láta söguna gerast í, ofstækisfullt trúarsamfélag, dregur hins vegar að mínu mati úr áhrifamætti sögunnar. Allt umhverfi strákanna er svo gegnsýrt af hræsni, þröngsýni, heimsku, óheiðarleika og illvilja að það verður nánast snertipunktalaust við raunveruleikann. Og sú mynd sem dregin er upp af trúarsamfélaginu í verkinu kveikir frekar á hugleiðingum um fordóma gagnvart slíkum söfnuðum en því andstreymi sem samkynhneigðir sannarlega búa við í hversdagslegum íslenskum nútímaraunveruleika. Það er sú tilfinning sem fyrrnefndar senur strákanna skila, en andstreymið sem þeir mæta er síðan svo yfirgengilegt að það verður nánast skoplegt, sem ég held ekki að hafi verið ætlunin.
Sýningin er eins og áður sagði hröð og viðburðarík. Leikhópurinn jafn og sterkur, enda að þessu sinni fámennari en áður og valinn maður í hverju rúmi. Jón Gunnar stýrir gangi mála af allnokkru öryggi, þó stundum hefði verið hægt að leggja skýrari áherslu á aðalatriðin og draga þau betur fram, einangra mikilvæg augnablik í sögunni. Þetta á ekki síst við um samtalssenur vinahópsins og fjölskyldunnar, sem voru vel leiknar en liðu fyrir linnulausa og frekar flatneskjulega tónlist sem var látin hljóma undir þeim nánast öllum og stóð í vegi fyrir áhrifamikilli vinnu leikarans með hraða og ris. Annars staðar, í senum sem snertu ekki hina raunsæislegu aðalsögu, naut tónlistin sín ágætlega.
Þau atriði sem tínd hafa verið til og fundið að draga í raun lítt úr aðdáun þeirri sem Ofleikur á skilið fyrir djörfung sína og sköpunargleði. Hópnum er mikið niðri fyrir og trúir greinilega á áhrifamátt leikhússins til að koma boðskap á framfæri og hreyfa við fólki. Það er ekki lítils virði og auðvelt að hrífast með, eins þegar skotið er yfir markið.