laugardagur, desember 04, 2021

Jólaboðið

Handritið skrifuðu Gísli Örn Garðarsson og Melkorka Tekla Ólafsdóttir en það er byggt á verki Tyru Tønnessen, Julemiddag, sem er innblásið af leikritinu The Long Christmas Dinner eftir Thornton Wilder. Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlist: Salka Sól Eyfeld og Tómas Jónsson. Hljóðhönnun: Kristinn Sigmundur Einarsson. Dramatúrg: Melkorka Tekla Ólafsdóttir. Leikarar: Baldur Trausti Hreinsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Gunnar S. Jóhannesson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ragnheiður K. Steindórsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 19. nóvember 2021.

Af tímans þunga nið


Thornton Wilder er flestum gleymdur. Kannski að ósekju, en hjól tímans stjórnast ekki af réttlæti, er ekki knúið af meðaumkun með mönnunum. Og hjól tímans var helsta viðfangsefni helstu verka hans; verðlaunaleikritunum Our Town og The Skin of Our Teeth. Og ekki síst einþáttungsins The Long Christmas Dinner frá 1931, sem liggur til grundvallar Jólaboði Gísla Arnar Garðarssonar og Melkorku Teklu Ólafsdóttur í Kassa þjóðleikhússins.
Hjól tímans var Wilder hugleikið, en kannski ekki síður hið sérkennilega meðvitundarleysi okkar um núið og hversdaginn sem myndar megnið af útsýninu við braut hjólsins. Hugsun sem er kjörnuð svo eftirminnilega í Beautiful Boy eftir John Lennon (þó línan sé reyndar ekki upprunnin hjá honum): Lífið er það sem gengur á meðan við erum upptekin við að gera önnur plön. 
Wilder var tilraunagjarnt leikskáld og hafði að því er virðist ekki síður áhuga á að ögra forminu en miðla djúpum hugleiðingum um hlutskipti mannsins. Og það er fyrst og fremst formið sem stendur eftir af einþáttungnum hans í Jólaboðinu. Verkið rekur fjölskyldusögu í rúma öld í gegnum samfellt borðhald fjölskyldunnar á aðfangadagskvöld („Jólaboðið“ er örlítið villandi heiti). Kynslóðir koma, kynslóðir fara, eins og segir í „Fögur er foldin“; börn, vonbiðlar og tengdabörn bætast í hópinn, eldri kynslóðin víkur af sviðinu. Tímarnir breytast, hamborgarhryggur leysir kjötsúpuna af hólmi, hagur fjölskyldunnar rís og hnígur í takt við hagsveiflur og gæftir, konurnar taka sér rödd, hátíðleikinn og friður frelsarans lætur á sjá og virðist endanlega fjúka út í veður og vind með athyglisbrostnum og snjalltækjaháðum nútímanum.
Og við erum alltaf við borðið. Á þessari hátíðlegu stund þegar við, aldrei þessu vant, leiðum hugann að gangverki lífsins og tilgangi. Rifjum upp hvaðan við komum og þökkum fyrir það sem við höfum. Horfum angurvær á börnin og barnabörnin og heyrum þungan niðinn í hjóli tímans. 
Jólaboðið fer yfir þessa ættarsögu á um einum og hálfum tíma, sem er bæði langur tími og skammur. Kannski hreinlega bæði of langur og of skammur. Hinn klóki Wilder fór hraðar yfir sögu, handrit hans helmingi styttra og upplifunin því fyrst og fremst af framvindu tímans þar sem hvergi er staldrað við til að fylla verulega út í myndina af persónum og samfélagi. Heildarmyndin verður aðalatriðið. Um leið og ákveðið er að „þrívíðarvæða“ fjölskyldumyndina, fara nær með myndavélina, gefa fólki og atburðum meiri fyllingu, er hætt við að bæði sé reynt að sleppa og halda.
það reyndist raunin. Þó svo það „lofti“ um atburðarásina í heilskvöldsútgáfunni þarf sýningin engu að síður að láta sér staðalmyndir nægja – stíft formið gefur ekki færi á raunsæislegri persónusköpun eða verulega óvæntum vendingum. Þannig gefst ekki tími til að segja neitt um fólk og samfélag í upphafi 20. aldarinnar annað en að þar ríkti óskorað karlveldi. Hipparnir hafa ekki pláss til að sýna okkur neitt nema hvað þeir eru miklir hippar og á móti kapítalisma og Víetnamstríði. Nútímabörnin eru stjórnlaus skjáskrímsli og ekkert annað. Foreldrar þeirra eru vegan.

Afleiðingin er sú að Jólaboðið heppnast fyrst og fremst sem revíukenndur skemmtunarleikur, þó augljóst sé að höfundar ætli sér ekki síður að ná til vitsmuna og tilfinninga áhorfenda. Sem verður til þess að alltaf þarf að koma taumhaldi á galskapinn inn á milli, þó það sé hann sem heldur áhorfendum fyrst og fremst við efnið.
En það er ástæðulaust að kvarta hástöfum yfir því sem skemmtir manni og það gerir eitt og annað í þessari sýningu. Ekki síst framgangur leikhópsins, en segja má að öll eigi þau glansnúmer. Umbúnaður sýningarinnar er óhlutundinn og naumhyggjulegur hjá Berki Jónssyni (leikmynd) og Halldóri Erni Óskarssyni (lýsing). Búningar Helgu I. Stefánsdóttur eru á hinn bóginn rækilega raunsæislegir, eða vísa alla vega mjög afgerandi til tímans þegar viðkomandi persónur eru kynntar til sögunnar. Það verður stundum innlifun áhorfenda fjötur um fót, sérstaklega í síðari hlutanum þar sem byltingar nútímans skella á ein af annarri en eftir standa persónurnar í múnderingu fortíðarinnar. Barnaklæðnaður afvegaleiðir líka ímyndunaraflið eftir að persónurnar vaxa úr grasi. 
Áhrif sýningarinnar eru nánast alfarið á ábyrgð leikhópsins, sem öll utan eitt leika tvö hlutverk. 
Ólafía Hrönn Jónsdóttir setur mögulega Íslandsmet í að leika ungabarn, eftir að hafa verið aldeilis trúverðug ættmóðir undir feðraveldishæl í byrjun sýningar. Gunnar S. Jóhannesson er sannfærandi útgerðarmógúll og Ragnheiður K. Steindórsdóttir fer létt með að vera hans unga brúður. Þröstur Leó Gunnarsson er á heimavelli að leika samanbitna harðjaxla í athafnalífinu og Ebba Katrín Finnsdóttir glæsileg og aðsópsmikil sem nýjasta tengdadóttirin undir lok sýningar, með fulla stjórn á öllu nema börnunum sínum. Og sennilega fellur annað Íslandsmet í týpugerð þegar Guðjón Davíð Karlsson birtist sem erkihippinn ógurlegi og setur jólahald betri borgaranna í enn eitt uppnámið. 

Það kemur í hlut Nínu Daggar Filippusdóttur og Baldurs Trausta Hreinssonar  að vera dramatísk ballest sýningarinnar. Hinn langlífi frumburður fyrstu kynslóðarinnar, sem „lendir í ástandinu“, gerist róttæk en mildast með aldrinum, sinnir börnum systur sinnar en giftist aldrei sjálf, á sér bitastæðustu söguna, sem fær varla á sig fullnægjandi mynd vegna gangverks og aðferðar sýningarinnar. Nína gerir hvað hún getur til að ljá henni vigt og dýpt, fer jafnvel offari stundum í dramatíkinni, en kemst eins langt og hægt er að fara fram á í lokaatriðinu fallega með Baldri Trausta. Hann fer eins og oft áður ákaflega vel með persónur sem ekki er gott að átta sig á hvort eru hversdagslegar, dularfullar eða jafnvel dularfullar í krafti hversdagsleika síns. Þau eru líka í forgrunni í bitastæðasta og best skrifaða atriði sýningarinnar, þar sem dramatískt uppgjör á aðfangadag er rifjað upp á næstu (og þarnæstu) jólum með vaxandi tilbrigðum í boði hins óáreiðanlega sameiginlega fjölskylduminnis.
Í leikmunalausri sýningu reynir talsvert á færni í látbragðsleik og kannski hefði mátt búast við meiri lipurð í þeirri list undir stjórn hins mjög svo „líkamsmiðaða“ Gísla Arnar. Þegar á heildina er litið er þessu lipurlega stýrt í höfn af leikstjóranum þaulvana. Þó Jólaboðið reyni að gera aðeins of margt og takist fyrir vikið ekkert af því til hlítar er kvöldstundin ánægjuleg. Eins og í góðu jólaboði er flest fyrirsjáanlegt. Talsvert hlegið, ekki síst að frekar ódýrum bröndurum enda mikið af pöbbum á öllum aldri í boðinu. Nokkur uppþot vissulega, en flest jafnar sig hratt. Áhorfendur fara heim hugheilir.