fimmtudagur, ágúst 20, 2020

Í dulitlu dragi

Það er einkenni hugmyndadrifinnar listar, „konsept-listar“ sem kölluð er, að oft bætir upplifun á listaverksinu sjálfu ekki svo miklu við áhrifin af því að heyra hugmyndina útlistaða. Þannig virkaði flutningur Malarastúlkuna fögru, ljóðasöngvabálks Schuberts við ljóð Wilhelms Müller á mig í flutningi tenórsöngvarans Sveins Dúa Hjörleifssonar við undirleik Tómasar Guðna Eggertssonar og dygga aðstoð Kristrúnar Hrafnsdóttur í Tjarnarbíói síðastliðinn laugardag. Ekki að það kæmi neitt að ráði að sök; hver er ekki til í að njóta þessarar undursamlegu tónlistar, sérstaklega þegar sjálfur flutningur hennar er jafn fágaður og sannfærandi og hér var raunin?


En semsagt, hugmyndin er fjári snjöll, sérstaklega á blaðinu. Söngvarinn, ljóðmælandinn, ástsjúki malaradrengurinn finnur malarastúlkuna ómótstæðilegu innra með sjálfum sér, og tekur smám saman á sig mynd hennar með hefðbundnum drag-drottningarmeðulum, meðan hann uppgötvar og veltir sér upp úr ást sinni á henni. Hugmynd sem umsvifalaust getur af sér allskyns frjóanga með þeim sem hana hugleiðir: um ást sem endursameiningu í anda ræðu Aristófanesar í Samdrykkju Platóns. Um taumlausa unga – og óendurgoldna ást sem markmið og nautn í sjálfu sér, eins og Shakespeare tekur óviðjafnanlega til umfjöllunar í Sem yður þóknast, og skopstælir í harmleiknum um Píramus og Þispu – Müller fer ansi nálægt þeim ósköpum með malaradrenginn sinn. Um samspil hins ytra gervis og þess sem undir því býr. Um sviðsetningu okkar á sjálfum okkur í lífinu sjálfu. 


Og svo auðvitað hefðbundna ljóðasöngstónleika sem sviðsetningu í sjálfum sér, með ströngum hefðum og ákveðinni stífni í framgöngu bæði listafólks og áhorfenda. Það opinberaðist strax í upphafi sýningarinnar: þó áhorfendur væru þess örugglega allir fullvissir að hér var sviðsett leiksýning að hefjast gengu þeir inn í hlutverk sín sem tónleikagestir og klöppuðu listamönnunum lof í lófa þegar þeir gengu inn á sviðið – nokkuð sem hefur ekki tíðkast í leikhúsi áratugum saman, en er ófrávíkjanlegt í tónleikasölum.


Smám saman byrjaði hinn leikræni þáttur sýningarinnar að kalla á athygli okkar, frá því að hugmyndin um kvengervið kviknar í samspili Sveins Dúa og nótnaflettarans Kristrúnar, þar til malarastúlka/dragdrottning stígur alsköpuð á svið upp úr miðbiki bálksins. Hinn leikræni hápunktur er þó aðeins fyrr, þegar Sveinn klæðist kvenskónum og heilsar ástmærinni í áttunda söng, Morgengruß. Þá finnum fyrir því að hún er mætt. 


Annar akkillesarhæll konseptdrifinna sviðsetninga er síðan hve sjaldgæft er að hugmyndirnar gangi fullkomlega upp í efniviðnum. Og óneitanlega er erfitt að finna samhljóm milli vegferðar malaradrengsins og hinnar innri/ytri kvenmyndar söngvarans eftir að keppinauturinn um ástir stúlkunnar birtist í ljóðunum. En þá er bara tímabært að segja skilið við vitsmunina og leyfa hinni heiðríku rödd Sveins að heilla sig með hinum dýrðlegu lögum, hvað sem öllum pallíettum og parrukkum líður. Það er vandalaust með öllu. 


Það er skynsamleg hófstilling í sviðssetningu Grétu Kristínar Ómarsdóttur á vegferð malaradrengs og stúlku. Enda setja tæknikröfur sönglistarinnar vafalaust ýmsar skorður, sem og leikfærni þátttakenda. Eftir á að hyggja sennilega hið besta mál að hugmyndinni er þrátt fyrir allt ekki gefið alræðisvald yfir flutningnum. Enda lifir hún sínu lífi í huga áhorfendans, og hefði mögulega gert það þó hún væri bara orð á blaði. Tónlistina þurfum við á hinn bóginn að heyra, það er fyrir öllu.