föstudagur, mars 22, 2019

Súper – þar sem kjöt snýst um fólk


Eftir Jón Gnarr. Leikstjórn: Benedikt Erlingsson. Leikmynd: Gretar Reynisson. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson. Leikarar: Arnmundur Ernst Backman, Edda Björgvinsdóttir, Eggert Þorleifsson, Hallgrímur Ólafsson, Jón Gnarr, Snæfríður Ingvarsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Raddir: Freyja Maríanna Benediktsdóttir, Brynja Maja Benediktsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir. Frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 16. mars 2019.x

Geimveran


Auðvitað er Jón Gnarr rétti maðurinn til að hefja á loft fána fáránleikans í leikhúsinu, taka upp þráðinn þar sem Ionesco þraut erindið. Hvort sem hlutskipti utanveltumannsins, útlagans, geimverunnar, er Jóni áskapað eða áunnið þá hefur sýn hans á fólk á sér öll einkenni hins glögga gestsauga. Hann sér kannski ekki djúpt undir yfirborðið, kryfur ekki eða greinir. En hann heyrir það sem við erum hætt að heyra, fangar fullkomlega fáránleikann í hversdagshjalinu – hið fráleita, vanhugsaða og heimskulega – og skilar því gljáfægðu til okkar á ný. Það er ekki alltaf notalegt, en alla jafnan morðfyndið og sennilega meinhollt.

Þetta hafa áhorfendur Fóstbræðra og kannski enn fremur hlustendur Tvíhöfða löngu komið auga á og sjálfur hefur Jón í sínum einstöku og mögnuðu minningabókum að einhverju leyti hleypt okkur að gangverki huga síns og sköpunargáfu. Það er ýmislegt kunnuglegt við Súper, en líka einhver ferskleiki. Og annað álíka mikilvægt: öryggi í beitingu formsins og hefðarinnar sem hér er unnið með. Það er mögulega það sem kemur mest á óvart. Það er ekkert sem minnir á stolt kunnáttuleysi pönkarans í þessari yfirveguðu og þaulhugsuðu sýningu.

Það virðist fátt fást í kjörbúðinni Súper annað en kjöt. Íslenskt kjöt. Þaulunnar kjötvörur, marineraðar í þjóðarsálinni. Hér er ekkert vegan nema mögulega plastumbúðirnar. Og kannski kleinurnar sem hún Agnieszka frá Póllandi er með á tilboði. Nærvera hennar er eins og steinn í skónum hjá viðskiptavinunum, þessum sjálfsöruggu og sannfærðu Íslendingum með ranghugmyndagrunnaða sjálfsmyndina á hreinu. Eða það halda þau. Myndin sú reynist vera örlítið meira úr fókus en þau vilja viðurkenna, en það slær þau ekkert út af laginu. Í absúrdskólanum breytist ekki neitt. Godot lætur aldrei sjá sig. Það má kalla einn Akkilesarhæl formsins. Annar er skortur á sálrænu raunsæi, þrívíðri persónusköpun. Þannig er það líka í Súper. Hver persóna hverfist um eitthvað eitt. Það er erfiðara en það virðist að halda slíku efni áhugaverðu heilt kvöld. Margir af lærisveinum Ionescos hafa fallið á þessu prófi, sannfærðir um að svona efni skrifaði sig sjálft. Svo er ekki. Það þarf meira en tilvistarangist, menntaskólahúmor og sannfæringu um merkingarleysi lífsins.

Jóni tekst þetta að talsvert mörgu leyti. Súper er bráðfyndin og skörp stúdía í íslenskum sjálfsmyndarklisjum. Kannski ekki djúpskreið. Kannski ekki ýkja frumleg, við höfum heyrt þetta allt áður. En það er auðvitað mergurinn málsins.

Til hliðar við hina þjóðlegu og dálítið þjóðrembdu hlið sjálfsmyndarinnar eru kynhlutverkin. Þar er bæði margt að skoða í viðteknum og jafnvel klisjukenndum og sjálfvirkum hugmyndum okkar. Þarna er vettvangur fyrir bæði ærsl og usla. Sá vettvangur hefur lengi verið heimavöllur Jóns Gnarr, fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar, við útvarpshljóðnemann og eftirminnilega í hlutverki borgarstjórans í Reykjavík. Á glerhálum kynhlutverkavellinum spilar Jón gott mót í Súper.

Benedikt Erlingsson stenst allar freistingar í þá átt að hjálpa efninu með sjónhverfingum og tilþrifabrellum leikhússins. Hér ríkir einfaldleiki og nákvæmni. Þó að persónurnar séu einfaldar og flestar aðeins með eitt erindi að reka á sviðinu eru þær ekki ýktar eða stílfærðar. Leikstíllinn er raunsæislegur og afslappaður og ber hvergi skugga á í túlkun hópsins.

Sólveig Arnarsdóttir gefur hinni fyrrnefndu Agnieszku áreynslulausan virðuleika þar sem hún reynir að eigna sér rými í þjóðrembukælinum. Það dettur hvorki né drýpur af Elínu hennar Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur, í óþreyju hennar eftir áfengisóminni og einnar næturgamni, sama hversu yfirgengilega hluti hún lætur út úr sér. Nettur óhugnaður einkennir Einar og Guðrúnu, unga parið sem virkar svo samhent og keimlíkt en á svo illa saman, í meðförum Arnmundar Ernst Backman og Snæfríðar Ingvarsdóttur, sem ég er ekki frá því að ég hafi ekki séð gera betur en hér.

Höfundurinn sjálfur fer með hlutverk Kristjáns kjötborðskapteins og fellur ekki í þá gryfju að smíða einhvern „kall“ sem hann annars gerir svo skemmtilega. Það er öryggi og myndugleiki í framgöngu Jóns, og auðvitað hárrétt tilfinning fyrir skopmöguleikum texta og samleiks. Það er líka eitthvað sérlega „gnarrískt“ við bæði persónu Hannesar, sem hefur farið í föt föður síns í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, og meðferð Hallgríms Ólafssonar á henni. Algerlega hversdagslegur maður, úr þjóðardjúpinu ef svo mætti segja, en um leið næstum hrollvekjandi án þess beinlínis verði fest hönd á hvað veldur. Frábær frammistaða hjá Hallgrími, auk þess sem bæði búningur og gervi vinna sinn drjúga skerf af verkefninu við að skapa þennan mann.

Það er síðan eitthvað dýrðlegt við innkomu Eddu Björgvinsdóttur og Eggerts Þorleifssonar sem eru ómótstæðileg í gervum hinna erkitýpísku bóndahjóna Bjössa og Guggu. Svo samhent og hjartahrein að engin fórn Bjössa er of stór fyrir lífshamingju Guggu, eins og kemur í ljós í óvæntri uppljóstrun sem sendir verkið á örugga braut að marklínunni. Sjálfsmyndin reynist ekki vera jafn klöppuð í steininn og viðskiptavinir og starfsfólk Súper eru sammála um, en engu að síður eru þau öll jafn örugg með sig í sjálfgóðum klisjuhjúpnum. Það er kannski fáránleikinn sjálfur.

Leikmynd Gretars Reynissonar er verulega vel heppnað verk í einfaldleika sínum sem segir hæfilega mikið um verkið. Inni í einsleitum marmaragráum kassa er kjötkælir og verðskanni. Annað ekki, fyrir utan innkaupakerrur kúnnanna og vörukynningarborð kleinusölukonunnar. Plaststrimlar hanga úr lofti og ramma inn innra rými innan kassans. Gegnsæir þegar vel útfærð lýsing Jóhanns Friðriks Ágústssonar leyfir. En minnir sterklega á sig með megnri plastlykt. Þetta er áreiðanlega meinhollt íslenskt plast. Filippía I. Elísdóttir klæðir fólkið í algerlega viðeigandi klæði.

Súper – þar sem kjöt snýst um fólk er meðal skemmtilegustu sýninga sem ég hef séð það sem af er þessum leikvetri. Hún er óvænt, en það kemur líka á óvart hvað hún er óvænt, svo mjög sem hún ber stíl höfundar sínum vitni. Hún er líka enn eitt dæmið um að því er virðist áreynslulaust öryggi Benedikts Erlingssonar við að finna viðfangsefnum sínum nákvæmlega réttan tón, stíl og yfirbragð. Hún mun ekki breyta því hvernig við erum, en kannski mun hún stundum kalla fram smá kinnroða yfir því hvað við segjum.

miðvikudagur, mars 20, 2019

Matthildur

Eftir Roald Dahl í leikgerð Dennis Kelly. Tónlist og söngtextar: Tim Minchin. Útsetningar og önnur tónlist: Chris Nightingale. Þýðing: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson. Danshöfundur: Lee Proud. Tónlistarstjórn: Agnar Már Magnússon. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Myndband: Ingi Bekk. Hljóð: Garðar Borgþórsson og Þórður Gunnar Þorvaldsson. Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir. Hljómsveit: Agnar Már Magnússon, Andrés Þór Gunnlaugsson, Einar Jónsson, Haukur Gröndal, Ívar Guðmundsson, Kjartan Guðnason, Ólafur Hólm, Ólafur Jónsson, Snorri Sigurðarson, Vignir Þór Stefánsson, Þorgrímur Jónsson og Þórdís Gerður Jónsdóttir. Leikendur: Andrea Lapas, Arna Sif Gunnarsdóttir, Arnaldur Halldórsson, Arnar Dan Kristjánsson, Baldur Björn Arnarsson, Björgvin Franz Gíslason, Björn Stefánsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Guðnadóttir, Emil Björn Kárason, Erlen Ísabella Einarsdóttir, Erna Tómasdóttir, Gabríel Máni Kristjánsson, Guðmunda Pálmadóttir, Hilmar Máni Magnússon, Hlynur Atli Harðarson, Ísabel Dís Sheehan, Jón Arnór Pétursson, Linda Ýr Guðrúnardóttir, Lísbet Freyja Ýmisdóttir, María Pála Marcello, Patrik Nökkvi Pétursson, Rakel Björk Björnsdóttir, Salka Ýr Ómarsdóttir, Steve Lorenz, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Vala Frostadóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Viktoría Sigurðardóttir, Þorleifur Einarsson, Þóra Fanney Hreiðarsdóttir og Þórey Lilja Benjamínsdóttir Wheat. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins 15. mars 2019.

Pakkið mun sigrað


Matthildur er sérkennilegt barn og sérkennileg hetja, eins og hún birtist í söngleikjaaðlögun Dennis Kelly og Tim Minchin á klassískri sögu Roalds Dahl. Fyrir utan hefðbundna, við gætum jafnvel kalla þá „línulega“, eiginleika á borð við hugrekki, réttsýni og hugmyndaauðgi er hennar aðaleinkenni lestrar- og fróðleiksfýsn, knúin áfram af ofurgreind. Og svo, þegar mikið liggur við, getur hún hreyft hluti með hugarorkunni. Hún er samt frekar aðgerðalítil lengst af, fyrir utan smá skammarstrik, og lætur flest af sínum ömurlegu, eiginlega hættulegu, aðstæðum yfir sig ganga. Sem er kannski raunsæisgrunnurinn að ævintýralegum ólíkindunum: aðstæðurnar sem hún elst upp við eru það eina sem hún þekkir utan bókanna sem hún gleypir í sig. Pakkið í fjölskyldunni er heimurinn eins og hann hlýtur að vera. Þangað til hún hittir Fríðu Hugljúfu. Fyrsta faðmlag þeirra er einn af hápunktum sýningarinnar, og sker sig úr í þessari orkuríku stuðsprengju.

Það er reyndar eitt af því sem gerir þessa þriggja tíma setu í stóra sal Borgarleikhússins jafn áhrifaríka og raun ber vitni hvað vel tekst að varðveita mennsku og trúverðugleika persónanna þrátt fyrir að bæði persónusköpun og hegðunar- og hreyfingamynstur sé stílfært og einfaldað að ystu mörkum. Allur þessi stóri leikhópur, ungir sem aldnir, og Bergur Þór Ingólfsson auðvitað líka, eiga hrós skilið fyrir þetta.

Það er ekki alveg sjálfsagt að koma þessum mannlega tón í gegn um þetta mikla „sjó“, þennan iðandi og óstöðvandi flaum af tónlist og orðum, hreyfingu fólks og sviðs, þar sem dýpt og þróun persóna er aftarlega á forgangslista höfundanna. Annað sem þeir hafa ekki hugað nægilega að er framvinda sögunnar. Það er nánast engin spenna byggð inn í atburðarásina. Við vitum frá fyrstu stund að pabbi Matthildar ætlar sér að gabba grunsamlega vel klædda og moldríka Rússa í bílaviðskiptum, en síðan gerist ekkert í því fyrr en í blálokin þegar sú saga fær fullkomlega fyrirsjáanlegar lyktir. Fyrsta sena með samskiptum hinnar hroðalegu skólastýru við börnin gæti eins verið sú síðasta hvað varðar ofsa, grimmd og óréttlæti. Engin þróun, engin spenna. Og það er síðan eitthvað sérstaklega ófullnægjandi við hvernig og hvenær sagan sem endanlega hrindir uppgjöri við Karítas Mínherfu af stað er kynnt fyrir okkur. Síðan leysist allt hratt og vel og óþarflega auðveldlega.

Það er líka dálítið ójafnvægi í tónlistinni. Fram að hléi er Minchin í ómstríðu og nokkuð ólagrænu skapi, lögin heldur einsleit, dramatískt áhrifarík frekar en áheyrileg. Eyrnaormarnir koma síðan í röðum eftir hlé. Matthildur er skemmtilegt tónlistarverk, meira krefjandi en flestir nútímasöngleikir, en tónlistin skapar bæði stemminguna og ber oft líka uppi framvinduna, eins og vera ber. Gísli Rúnar Jónsson er hárréttur maður til að skila orðakæfunni, sem Minchin hefur svo gaman af að hræra saman, á skrautlegri og stundum ánægjulega óvæntri íslensku. Tónlistarflutningurinn var fágaður og öruggur undir stjórn Agnars Más Magnússonar þó ekki kæmist hvert einasta orð alla leið í gegnum hamaganginn.

En þó verkið sé sérkennilegt í laginu og dramatískt ófullnægjandi er skemmtigildið ómælt og tíminn líður hratt þrátt fyrir allt.

Margt kemur þar til. Það er ekki úr vegi að byrja á að tala um hreint stórkostlega leikmynd Ilmar Stefánsdóttur og þá meðferð sem hún fær í lýsingu Þórðar Orra Péturssonar. Möguleikarnir virðast endalausir, óregluleg formin og urmull smáatriða tryggja að það er alltaf eitthvað óvænt handan við næsta snúning hringsviðsins. Næstan má t.d. nefna Lee Proud og hans kröftugu og hugmyndaríku kóreógrafíu. Það er sérstaklega auðvelt að verða agndofa yfir frammistöðu barnahópsins í dansatriðum sínum. Þá eru búningar Maríu Th. Ólafsdóttur vel unnið verk sem smellhittir heim verksins. Eini veiki punkturinn í umgjörðinni þóttu mér töfrarnir sem Matthildur leysir úr læðingi á ögurstundu, of smáir í sniðum og týndust dálítið í sjónarspili umhverfisins.

Ísabel Dís Sheehan fór með titilhlutverkið á frumsýningunni og var framúrskarandi sannfærandi í leik, dansi og söng, ekki síst í stórum og krefjandi söngnúmerum sínum. Fyrir utan tæknikröfur hlutverksins, sem hún leysti afbragðsvel, er þetta þrælsnúið verkefni, sérstaklega vegna þess hve aðgerðalítil Matthildur er lengst af, en Ísabel nær að fanga athygli okkar og halda henni ævinlega þegar það átti við. Fjölskylda Matthildar er einnig vel skipuð. Það gustar af Birni Stefánssyni í hlutverki hins glórulausa pabba, Sölvi Viggósson Dýrfjörð var dásamlegur gleðigjafi þrátt fyrir algert aðgerðaleysi. Senuþjófurinn í fjölskyldunni er samt mamman yfirgengilega og Vala Kristín Eiríksdóttir fór á miklum og morðfyndnum kostum, ekki síst í glæstu dansatriði með Þorleifi Einarssyni.

Börnin voru hvert öðru betra og tókst öllum að skapa skýrar persónur sem skáru sig úr samstilltum hópnum. Það er óhjákvæmilegt að nefna sérstaklega Erlen Ísabellu Einarsdóttur (Mína) sem sýndi í upphafi seinni hálfleiks framúrskarandi vald yfir kómískum tímasetningum, og Baldur Björn Arnarsson (Lars) sem fór hetjulega með kökuátsatriðið mikla.

Karítas Mínherfa er vitaskuld stóra glansrullan. Gervi Björgvins Franz Gíslasonar í hlutverkinu er stórglæsilegt, gott ef kryppan kallast ekki á yfir annað yfirgengilegt illmenni sem stjáklar Stóra svið Borgarleikhússins þessa dagana. Söngur, dans og skýrleiki einkenna Karítas hans, en ég hefði ekki verið mótfallinn því að finna Björgvin njóta sín aðeins meira í hlutverkinu. Gefa sér lausari taum og smjatta á illfyglinu.

Athygli vekur að Borgarleikhúsið kallar til leiks leikkonu sem útskrifast núna í vor af leikarabraut LHÍ, til að fara með mikilvægt og veigamikið hlutverk Fríðu Hugljúfu. Það er engin ástæða til að amast við þessu, því Rakel Björk Björnsdóttir er algerlega heillandi í hlutverkinu. Stjörnuþokkinn streymir frá henni og söngröddin bræðir hvert hjarta, sem er nákvæmlega það sem þarf. Ebba Katrín Finnsdóttir er bráðskemmtileg sem hrifnæmur bókavörður og Arnar Dan Kristjánsson heldur áfram að skapa svipmiklar persónur í fáum dráttum, líkt og hann gerði í Ríkharði III. Þá er Viktoría Sigurðardóttir flott sem loftfimleikakonan í sögunni sem Matthildur segir á bókasafninu en flæðir síðan inn í meginatburðarás verksins.

Matthildur er þrekvirki af því taginu sem Borgarleikhúsið er komið með einstakt lag á að gera vel. Það er heitt hjarta í sýningunni sem hverfur ekki í hávaðanum, orðaflaumnum, tæknibrellunum og endalausri hugkvæminni og örlætinu við smáatriðanostrið. Verkið sjálft er hinsvegar gallagripur, það vantar í það meiri dramatískan skriðþunga, alvöru þroskabrautir fyrir helstu persónur og mögulega aðeins færri nótur og orð. Engu að síður mikil skemmtun og hrífandi kvöldstund.

fimmtudagur, mars 14, 2019

Jónsmessunæturdraumur

Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Þórarinn Eldjárn. Leikstjórn: Hilmar Jónsson. Leikmynd: Eva Signý Berger. Búningar: Karen Sonja Briem. Danshöfundur: Katrín Gunnarsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlist, tónlistarstjórn og útsetningar: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðmynd: Gísli Galdur Þorgeirsson og Kristján Sigmundur Einarsson. Þýðing söngtexta: Magnea J. Matthíasdóttir. Leikarar: Atli Rafn Sigurðarson, Birgitta Birgisdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Eygló Hilmarsdóttir, Þórey Birgisdóttir, Oddur Júlíusson, Hákon Jóhannesson, Pálmi Gestsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Bjarni Snæbjörnsson, Edda Arnljótsdóttir, Aron Steinn Ásbjarnarson, Hildur Ketilsdóttir, Hildur Jakobína Tryggvadóttir, Juliette Louste og Sindri Diego. Frumsýnt á Stóra sviði Þjóðleikhússins 1. mars 2019, skrifað um aðra sýningu 7. mars.

„Hrikalega er mannkyn tregt!“

Sennilega eiga gleðileikir Shakespeares erfiðara með að tala við samtímann en alvarlegri verk hans. Pólitískur refskapur, hræsni og grimmd hefur enn ekki verið betur krufin á sviði en í sögulegu leikritunum og varla að gangverk og drifkraftar mannssálarinnar hafi fengið dýpri greiningu en harmleikirnir bjóða upp á. Grínið á aðeins erfiðara uppdráttar. Fjórar aldir sjúga mesta safann úr jafnvel bestu bröndurum, fyrir nú utan að það snýst einatt um samskipti kynjanna og á því sviði höfum við nú blessunarlega þokast aðeins á veg og skilið þessar fjögur hundruð ára tilhugalífsraunir eftir án verulegs erindis. Það mesta sem skopverkin geta vænst er að stytta okkur stundir „milli matartíma og hátta“ eins og Þeseifur hertogi orðar það þegar hillir undir leikslok, í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns á Jónsmessunæturdraumi. Útlegging Þórarins er lipur, hnyttin og auðgrípanleg. Alvöru samanburður hennar við verk Helga Hálfdanarsonar, eða þá frumtextann, falla utan takmarkana blaðagagnrýni af þessu tagi. Mögulega lætur Þórarinn setningar oftar enda á rímorði en Helgi, en hæpið að fullyrða svoleiðis að óathuguðu máli. Hugsanlega tengist þessi upplifun líka óvenjumikilli hlýðni leikhópsins við hrynjandi bundna málsins. Fyndnin í óbundnum samtölum á leikæfingunum viðvaninganna er áberandi hittnari hjá Þórarni en hjá Helga, en á móti held ég að upphafin lágkúran í harmleiknum um Píramus og Þispu fljúgi hærra hjá þeim gamla. Þetta er samt auðvitað enginn stóridómur og það er mikil gæfa að eiga núna tvær aðgengilegar og leikvænar þýðingar á þessum vinsælasta og mest leikna gamanleik höfuðskálds heimsins.

Uppfærsla Hilmars Jónssonar og sýning Þjóðleikhússins er litrík, íburðarmikil jafnvel, og aldrei leiðinleg. Það væri enda dauðasynd: að láta áhorfendum leiðast á einu skemmtilegasta leikriti sem skrifað hefur verið, og best heppnaða verki Shakespeares sem endar alfarið vel. Spurningin er hvort við verðum ekki að gera harðari kröfur á þjóðleikhús sem tjaldar öllu til, en að vera ekki leiðinlegt með annan eins efnivið, að viðbættri hæfileikum og fagmennsku áhafnarinnar.

Þær aukakröfur uppfyllir sýningin ekki nema stund og stund, og alls ekki sem heild. Kannski er stóri vandinn sá að andstæður og samspil heimanna tveggja: mannheima og náttúru eða álfheima, borgar og skógar, eru ekki útfærðar á fullnægjandi hátt. Grunnhugmynd mannheimanna: að staðsetja brúðkaup Þeseifs og Hippólítu á gamaldags lúxushóteli með handverksmennina í starfsliðinu, er bráðsnjöll og einkar glæsilega útfærð af Evu Signýju Berger og flott lýst af Halldóri Erni Óskarssyni. En þegar flótti Hermíu og Lísanders, og eftirför Helenu og Demetríusar, brestur á, tekst hvorki að gera umbreytinguna spennandi né umgjörðina vettvang fyrir skapandi sviðsetningu skógarsenanna. Á stundum virkar miðhluti sýningarinnar og meginefni verksins eins og það eigi sér einnig stað á hótelinu, og þá í einhverri draumavídd innan þess. Hafi það verið hugmyndin er henni ekki fylgt nægilega vel eftir.

Þegar kemur að persónunum verða fyrir okkur þrír heimar en ekki tveir. Lágstéttin kemur best út úr þessari sýningu: hótelstaffið sem tekur að sér að skemmta brúðkaupsgestum af einstökum vanefnum er vel formað og undirbúningsatriði þeirra eru bráðfyndin, ekki síst fyrir hinn athyglisbrostna veltikall sem Ólafía Hrönn Jónsdóttir býr til úr forystusauðnum Bossa. Aðrir ná varla að skapa afgerandi persónuleika, en kómískar tímasetningar skila engu að síður hlátri fyrir Sigurð Sigurjónsson og Pálma Gestsson. Sjálf leiksýningin þeirra leysist upp í óskipulagt kaos sem kætti mig umtalsvert minna en þorra leikhúsgesta.

Einnig skorti nokkuð á afgerandi persónusköpun, skýra afstöðu, í túlkun elskendanna. Þessi burðarhlutverk eru sennilega sá hluti verksins sem þarfnast mestrar hjálpar frá leikstjóra og öðrum hugmyndasköpurum, svo einsleit og einsýn sem þessir ástsjúklingar eru. Það lánast ekki fyllilega hér. Þau Eygló Hilmarsdóttir, Hákon Jóhannesson, Oddur Júlíusson og Þórey Birgisdóttir skila sínu ágætlega, en það vantar upp á að hvert þeirra hafi sterkari og mikilvægari séreinkenni. Lengst þótti mér Eygló komast með sína Helenu, sem óneitanlega er með bitastæðasta ferðalagið í gegnum þessa örlaganótt. Sú hugmynd að „söngleikjavæða“ verkið með þekktum popplögum sem persónurnar bresta í við að tjá tilfinningar sínar reynist ófrjó eða ekki beitt á nógu snjallan eða afgerandi hátt til að réttlæta sig.

En það var ekki bara aðgreiningu unglinganna sem skorti. Sýningin gefur okkur heldur ekki skýra tilfinningu fyrir hvers konar samfélagi börnin tilheyra. Dauðadómur Þeseifs yfir Hermíu í upphafi stuðar engan í þessari sýningu, svo forneskja er hér rótgróin, en jafnframt er hertoganum engin sérstök virðing sýnd og unglingarnir nútímalega frjálslegir og hreint ekki prúðir. Úthugsuð afstaða er annaðhvort ekki til staðar eða skilar sér alla vega ekki yfir sviðsbrúnina. Búningar Karenar Briem hjálpa okkur heldur ekki að skilja hvaða fólk þetta er, mun betur gengur henni að gefa hótelstaffi og álfum skýra og merkingarbæra ásýnd.

Mest afgerandi andstæðan er, eins og vera ber, milli mannheima og álfheima. Hér hittir sýningin á „bragð dagsins“ með að gera lífsleiða úrkynjun og bdsm-fagurfræði að grunntóni við hirð Títaníu og Óberons, sem togast hér á um indverskan fósturson drottningar, sem hún hefur alið upp sem grímuklætt „gimp“. Þessi túlkunarleið er alveg fær, sérstaklega ef strikað er burt megnið af vísunum í djúp tengsl Óberons og Títaníu við náttúruna og hlutverk þeirra við að halda árstíðunum á braut sinni. En óneitanlega vaknar spurningin hvort jafn lífsreyndur kynsvallari og Títanía myndi nokkuð hrylla sig svona yfir Bossa þegar hún vaknar af ástarlyfjamókinu. Væri hún ekki bara harla ánægð með að hafa farið á asna líka? Og svo hitt: myndi þessi nautnasjúki og lifaði Óberon nokkuð fyllast rómantískri þrá eftir að greiða úr barnalegum gelgjuástarflækjum ókunnugra, þegar hann er önnum kafinn við að stela kynlífsþræl frá konu sinni? Því miður hjálpaði afstöðulaus og sérkennilega dauf frammistaða Atla Rafns Sigurðarsonar ekkert upp á að trúa á eða skilja hvað álfakóngnum gekk til. Það sama má segja um Þeseif hans, sérkennilegur skortur á sviðslegri nærveru einkenndi þá báða. Birgitta Birgisdóttir gerði sér öllu meiri mat úr Hippólítu en þó einkum Títaníu, sem varð sannfærandi innan takmarkana grunnhugmyndarinnar.

Áberandi áhrifaríkastur af álfastóðinu er Búkki Guðjóns Davíðs Karlssonar. Sterk nærvera og myndugleiki einkenndu þessa túlkun á skósveini Óberons, frekar en trúðsk hrekkjakætin sem oft er grunntónninn og verður auðveldlega þreytandi. Eins og oft er gert gegnir Búkki líka skyldustörfum skemmtanastjórans Fílóstratosar og kynningarræðan hans á undan skemmtiatriði hótelstaffsins er kómískur hápunktur sýningarinnar.

Þessi Jónsmessunæturdraumur líður talsvert fyrir skort á skýrri listrænni heildarhugsun. Fyrir vikið ná stakar snjallar hugmyndir og tilþrif ekki fullum áhrifum. Hann er ekkert sérstaklega kröftugur, ekki hugmyndaríkur í sviðsetningu og sviðsumferð, heimarnir sem sýningin leiðir saman ekki nægilega vel formaðir og árekstrar þeirra fara fyrir vikið of oft á mis. Þökk sé efniviðnum verður hún samt þrátt fyrir allt ásættanleg skemmtun þegar upp er staðið. Þessi ólíkindalega samsuða frá því herrans ári 1595 stendur enn fyrir sínu, hvað sem brölti hins hrikalega trega mannkyns líður.