Óvinur fólksins
Eftir Henrik Ibsen í leikgerð og íslenskri þýðingu Unu Þorleifsdóttur og Grétu Kristínar Ómarsdóttur. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson og Gísli Galdur Þorgeirsson. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Leikarar: Björn Hlynur Haraldsson, Sólveig Arnarsdóttir, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Snæfríður Ingvarsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Guðrún S. Gísladóttir, Snorri Engilbertsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Vera Stefánsdóttir, Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir, Árni Arnarson og Júlía Guðrún Lovisa Henje. Frumsýning á stóra sviði Þjóðleikhússins 22. september 2017.
Ætli hafi liðið það ár á þessari öld að leikárshönnuðum hafi ekki dottið í hug að nú, einmitt nú, sé tímabært að sýna En folkefiende? Tilefnin gefast ótt og títt. Við búum jú í vanþroskuðu samfélagi sem slegið er af meðvitaðri blindu gagnvart afleiðingum pólitískra gjörða. Um slíkt ástand hverfist Þjóðníðingur, Fjandmaður fólksins, Óvinur fólksins. En þetta er einkum og sér í lagi sígilt verk vegna þess að sambúð pólitíkur, sannleika og hagsmuna er og verður alltaf óstöðug. Ekki síst í ungu lýðræðisríki. Ekki síst í litlum bæ þar sem öll tengsl eru náin og flókin. Við búum öll í svoleiðis bæ.
En folkefiende er líka ódrepandi skáldskapur vegna þess að Tómas Stokkmann er ekki bara óspjallaður riddari á hvítum hesti vísindalegs sannleika og þess réttlætis sem hann telur óhjákvæmilega leiða af honum. Við vitum ekki hversu náið Ibsen „stendur með“ Tómasi á borgarafundinum og undir lokin, þar sem óþolandi aðstæðurnar þrengjast stöðugt utan um hann. Fyrirlitinn af öllum, nema kannski sínum helstu óvinum sem hafa öðlast á honum nýtt álit á röngum og óbærilegum forsendum. Heyrði Ibsen fasíska undirtónana í orðræðu hetjunnar sinnar? Þótti honum það fallegt eða ljótt lag? Við vitum ekkert um það, það skiptir ekki öllu máli. Við heyrum þá (þegar þeir eru ekki strikaðir út eins og stundum er gert, ekki hér samt), þeir trufla okkur. Þeir hræra aftur upp í grautnum.
Og svo má auðvitað hafa í huga að tveimur árum síðar skrifaði Ibsen eitt sitt allrameistaralegasta stykki um harmrænar afleiðingar ósveigjanlegrar sannleikskröfu. Óvinur fólksins hefur ekki dramatískan slagkraft Villiandarinnar eða Brúðuheimilis. Ekki sálræna dýpt Heddu Gabler eða Sólness byggingameistara. En það á alltaf erindi. Því við erum eins og við erum. Svona hefur þetta alltaf verið. Og þú veist hvernig þetta er.
Öll tengsl eru náin og flókin í smábænum þar sem allt virðist loksins brosa við bæjarbúum. Hreyfiafl atburðanna – upplýsingar um mengun í heilsusamlega baðvatninu og fjárhagslegar afleiðingar þess að gera ráðstafanir – er vissulega eins og klípusaga í inngangskúrsi í siðfræði eða stjórnmálaheimspeki. En stefnan sem málið tekur, allar vendingarnar sem hreyfa fólkið í verkinu, ráðast ekki síður, eða kannski fyrst og fremst, af þéttriðnu hagsmuna- og tilfinninganeti fjölskyldutengsla, samskiptasögu, ástar, öfundar, fjármála, þjóðfélagsstöðu og metnaðar.
Sú róttæka stytting og „eimun“ í leit að kjarna verksins sem er grundvallarákvörðun listrænna stjórnenda sýningar Þjóðleikhússins er skiljanleg, virðingarverð. En hún kostar. Aðallega gerir hún leikurunum í stærri og „þrívíðari“ hlutverkunum erfitt fyrir að vera trúverðugir í samleik, þó að hver um sig skapi þeir skýrar persónur að gefnum forsendum, og hafi jafnvel til þess aukið svigrúm, meira frelsi, eftir því sem efnið rýrnar.
Þannig teiknar Sólveig Arnarsdóttir afar sannfærandi mynd af sjálfsöruggri, þaulreyndri og tæknilega flinkri stjórnmálakonu á nútímavísu úr Petru Stokkmann. Ekki síst á borgarafundinum, í magnaðri ræðu sem má alveg kalla hápunkt sýningarinnar. Og er reyndar, að því mér sýnist í fljótu bragði, sá einstaki hluti leiktextans sem víkur lengst frá því sem Ibsen skrifaði. Einræni meinlætamaðurinn í En folkefiende er horfinn. Með honum hverfur líka hluti af persónulegri togstreitu systkinanna, ein af skýringunum á ógöngunum sem málið ratar í. Það er líka alveg á mörkunum að við náum að meðtaka þá þakkarskuld sem Tómas stendur í gagnvart systur sinni, eða hún telur að hann eigi að viðurkenna að standa í. Það skapast fyrir vikið óþarflega lítil spenna í samskiptum þeirra – þau snúast of einarðlega bara um „málið“. Of lítið annað undir.
Þetta stendur Birni Hlyni Haraldssyni líka fyrir þrifum í sinni persónusköpun. Hann verður eiginlega bara maðurinn með uppljóstrunina. Ekki lífsnautnamaðurinn sem loksins siglir lygnan fjárhagssjó og á bágt með að þola að það sé ekki bara honum að þakka. Ekki skemmtilegi og elskaði pabbinn. Varla einu sinni bláeygi vísindamaðurinn sem skilur ekki gangverk samfélagsins, eða heldur að hann standi utan við það í krafti þekkingar sinnar. Það er ekki alveg nægjanlegt til að fullnægja leikhúsgestinum þó að það sé vissulega kappnóg til umhugsunar fyrir pólitísku dýrin sem við erum öll, eða þurfum að vera. Aðallega urðu samskipti Tómasar við aðra, afstaða hans til fólksins í kringum hann og þeirra til hans, alltof óljós.
Verst leikur þetta Lilju Nótt Þórarinsdóttur í hlutverki eiginkonunnar, sem er hér nánast „úr sögunni“. Mér sýndist hún líka oftar en aðrar lykilpersónur fara illa út úr staðsetningarlausnum leikstjórans. Við vorum einfaldlega ekki alltaf í því sambandi við Katrínu sem nauðsynlegt er. Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir og Vera Stefánsdóttir fóru fumlaust með hlutverk Stokkmann-barnanna, sem eiga að erfa landið, ásamt með hugsjónum og beiskju föður síns.
Leikmynd Evu Signýjar Berger er tilkomumikið verk sem hægt er að leggja út fyrir sér hvort heldur er sem óklárað iðnaðarstórvirki eða niðurníddar rústir slíks. Nema hvort tveggja sé. Ekki reyndist það ýkja þénugt til sviðsetningar, heldur þröngvaði umferð og uppstillingum of oft í óheppilegar áttir í stað þess að styðja samband okkar við persónur og atburði verksins. Aðeins á borgarafundinum öðlaðist það sannfærandi merkingu og kraft, sem einhverskonar útileiksvið.
Nútímafærsla verksins er hógvær, vel heppnuð og skynsamlega gerð. Raunar má segja að hún felist fremur í að fjarlægja of augljósar vísanir í ritunartímann en að negla atburðina niður í núinu. Þannig er blaðið áfram blað en ekki vefur til dæmis, og þó einhverjir símar séu á lofti berast tíðindi milli manna með póstinum. Fórnarkostnaðurinn er einna helstur fyrir Guðrúnu S. Gísladóttur í hlutverki Ásláksen prentara, sem getur ekki verið jafn dásamlega hlægilegur hrygg- og frjálslyndisístöðuleysingi í þessum óræða heimi og hann er í meðförum Ibsens. Það er líka gerólík sögn í því að vera formaður félags atvinnurekenda eins og í sýningunni, en í forsvari fyrir húseigendur og bindindismenn eins og hinn gamli Ásláksen var. En Guðrún náði nú samt að vera skemmtileg.
Aðrir á „vinstri vængnum“ eru líka svolítið munaðarlausir í þessari túlkun. Lára Jóhanna Jónsdóttir hefur úr litlu að spila sem Billing, hefur líkt og Snæfríður Ingvarsdóttir sem Petra yngri eiginlega bara einn tón að leika. Þó verður að geta þess að Snæfríður sýndi hér myndugleika og kraft sem ég hef ekki séð til hennar fyrr og skilaði einurð Petru ágætlega á þessu þrönga tónsviði sem boðið er upp á. Snorri Engilbertsson hafði úr talsvert meiri vídd að spila í hlutverki ritstjórans Hofstad, sem heldur sennilega sjálfur að hann sé hugsjónamaður og tekur varla eftir því þegar það reynist rangt, og spilar afbragðsvel úr henni.
Um kynbreytingarnar er ekki annað að segja en að þær valda engum túlkunarvandræðum, en leiktextinn gefur heldur lítið svigrúm til að láta þær skipta verulegu máli. Sem betur fer er ekkert nýjabrum af því að konur stýri bæjum, prentsmiðjum eða læknisfrúr reki verslanir. Vera má að meiri alúð við hið persónulega hefði leitt í ljós áhugaverða fleti á hvernig samspil og valdatafl systkinana gæti verið ólíkt bræðrasambandi. En það er ekki verkefni þessarar sýningar.
Horster skipstjóri og erindi hans í leikritinu er mikið til horfið og lítið um túlkun Baldurs Trausta Hreinssonar að segja, og ekkert út á hana að setja. Það er meira lagt upp úr skringilegheitum Marteins Kíl en demónskum áhrifum hans, og gegnir gervið þar ekki síður hlutverki en túlkun Sigurðar Sigurjónssonar. Fyrir utan afdalalegan búning Marteins og tilkomumikinn pels bæjarstýrunnar eru búningar Evu Signýjar næsta hlutlausir, þröngva sér ekki inn í merkingu sýningarinnar eða stýra upplifun okkar og áliti á persónunum.
Una Þorleifsdóttir hefur í sviðsetningu sinni leitast við að vísa flutningi leiktextans fram í sal mun víðar en á fundinum mikla, sem er mjög viðeigandi að leikgerð hennar og Grétu Kristínar Ómarsdóttur gefinni. Allt kapp er lagt á að leggja málið í dóm okkar, og þá ekki síður er okkur ætlað að leggja mat á afvegaleiðingu þess í höndum hinna ráðandi afla. Lýðræðisþroski og virðing fyrir staðreyndum er svo sannarlega á dagskrá hjá okkur hér og nú, og vandræðalega brýnt að taka okkur ærlegt tak í þeim efnum, bæði í stétt stjórnmálamanna, stjórnsýslunni og á vettvangi umræðunnar. Það hvað 130 ára gamalt leikrit talar beint inn í umræðuna í dag er áfellisdómur yfir stjórnmálamenningunni frekar en til marks um óumræðilega og tímalausa snilligáfu Henriks Ibsens. En hún birtist líka ekki síst í þeim þáttum verksins sem fórnað er hér á altari erindisins. Hvernig hið persónulega og hið pólitíska fléttast saman, hvernig persónubrestir geta auðveldlega sent erfið mál í öngstræti. Hvernig hagsmunir villa okkur sýn.
Það er ekkert flókið að sjá utan úr sal hvað var óhjákvæmilegt að gera í málefnum heilsubaða Stokkmannssystkina. En það á að vera áhugavert og krefjandi að skoða af hverju það mistekst. Það verður aðeins of einfalt í uppfærslu Þjóðleikhússins, þó að viljinn til að leggja sitt af mörkum til umræðunnar sé augljós og virðingarverður.
Pólitísku ómöguleikarnir
Ætli hafi liðið það ár á þessari öld að leikárshönnuðum hafi ekki dottið í hug að nú, einmitt nú, sé tímabært að sýna En folkefiende? Tilefnin gefast ótt og títt. Við búum jú í vanþroskuðu samfélagi sem slegið er af meðvitaðri blindu gagnvart afleiðingum pólitískra gjörða. Um slíkt ástand hverfist Þjóðníðingur, Fjandmaður fólksins, Óvinur fólksins. En þetta er einkum og sér í lagi sígilt verk vegna þess að sambúð pólitíkur, sannleika og hagsmuna er og verður alltaf óstöðug. Ekki síst í ungu lýðræðisríki. Ekki síst í litlum bæ þar sem öll tengsl eru náin og flókin. Við búum öll í svoleiðis bæ.
En folkefiende er líka ódrepandi skáldskapur vegna þess að Tómas Stokkmann er ekki bara óspjallaður riddari á hvítum hesti vísindalegs sannleika og þess réttlætis sem hann telur óhjákvæmilega leiða af honum. Við vitum ekki hversu náið Ibsen „stendur með“ Tómasi á borgarafundinum og undir lokin, þar sem óþolandi aðstæðurnar þrengjast stöðugt utan um hann. Fyrirlitinn af öllum, nema kannski sínum helstu óvinum sem hafa öðlast á honum nýtt álit á röngum og óbærilegum forsendum. Heyrði Ibsen fasíska undirtónana í orðræðu hetjunnar sinnar? Þótti honum það fallegt eða ljótt lag? Við vitum ekkert um það, það skiptir ekki öllu máli. Við heyrum þá (þegar þeir eru ekki strikaðir út eins og stundum er gert, ekki hér samt), þeir trufla okkur. Þeir hræra aftur upp í grautnum.
Og svo má auðvitað hafa í huga að tveimur árum síðar skrifaði Ibsen eitt sitt allrameistaralegasta stykki um harmrænar afleiðingar ósveigjanlegrar sannleikskröfu. Óvinur fólksins hefur ekki dramatískan slagkraft Villiandarinnar eða Brúðuheimilis. Ekki sálræna dýpt Heddu Gabler eða Sólness byggingameistara. En það á alltaf erindi. Því við erum eins og við erum. Svona hefur þetta alltaf verið. Og þú veist hvernig þetta er.
Öll tengsl eru náin og flókin í smábænum þar sem allt virðist loksins brosa við bæjarbúum. Hreyfiafl atburðanna – upplýsingar um mengun í heilsusamlega baðvatninu og fjárhagslegar afleiðingar þess að gera ráðstafanir – er vissulega eins og klípusaga í inngangskúrsi í siðfræði eða stjórnmálaheimspeki. En stefnan sem málið tekur, allar vendingarnar sem hreyfa fólkið í verkinu, ráðast ekki síður, eða kannski fyrst og fremst, af þéttriðnu hagsmuna- og tilfinninganeti fjölskyldutengsla, samskiptasögu, ástar, öfundar, fjármála, þjóðfélagsstöðu og metnaðar.
Sú róttæka stytting og „eimun“ í leit að kjarna verksins sem er grundvallarákvörðun listrænna stjórnenda sýningar Þjóðleikhússins er skiljanleg, virðingarverð. En hún kostar. Aðallega gerir hún leikurunum í stærri og „þrívíðari“ hlutverkunum erfitt fyrir að vera trúverðugir í samleik, þó að hver um sig skapi þeir skýrar persónur að gefnum forsendum, og hafi jafnvel til þess aukið svigrúm, meira frelsi, eftir því sem efnið rýrnar.
Þannig teiknar Sólveig Arnarsdóttir afar sannfærandi mynd af sjálfsöruggri, þaulreyndri og tæknilega flinkri stjórnmálakonu á nútímavísu úr Petru Stokkmann. Ekki síst á borgarafundinum, í magnaðri ræðu sem má alveg kalla hápunkt sýningarinnar. Og er reyndar, að því mér sýnist í fljótu bragði, sá einstaki hluti leiktextans sem víkur lengst frá því sem Ibsen skrifaði. Einræni meinlætamaðurinn í En folkefiende er horfinn. Með honum hverfur líka hluti af persónulegri togstreitu systkinanna, ein af skýringunum á ógöngunum sem málið ratar í. Það er líka alveg á mörkunum að við náum að meðtaka þá þakkarskuld sem Tómas stendur í gagnvart systur sinni, eða hún telur að hann eigi að viðurkenna að standa í. Það skapast fyrir vikið óþarflega lítil spenna í samskiptum þeirra – þau snúast of einarðlega bara um „málið“. Of lítið annað undir.
Þetta stendur Birni Hlyni Haraldssyni líka fyrir þrifum í sinni persónusköpun. Hann verður eiginlega bara maðurinn með uppljóstrunina. Ekki lífsnautnamaðurinn sem loksins siglir lygnan fjárhagssjó og á bágt með að þola að það sé ekki bara honum að þakka. Ekki skemmtilegi og elskaði pabbinn. Varla einu sinni bláeygi vísindamaðurinn sem skilur ekki gangverk samfélagsins, eða heldur að hann standi utan við það í krafti þekkingar sinnar. Það er ekki alveg nægjanlegt til að fullnægja leikhúsgestinum þó að það sé vissulega kappnóg til umhugsunar fyrir pólitísku dýrin sem við erum öll, eða þurfum að vera. Aðallega urðu samskipti Tómasar við aðra, afstaða hans til fólksins í kringum hann og þeirra til hans, alltof óljós.
Verst leikur þetta Lilju Nótt Þórarinsdóttur í hlutverki eiginkonunnar, sem er hér nánast „úr sögunni“. Mér sýndist hún líka oftar en aðrar lykilpersónur fara illa út úr staðsetningarlausnum leikstjórans. Við vorum einfaldlega ekki alltaf í því sambandi við Katrínu sem nauðsynlegt er. Ragnheiður Eyja Ólafsdóttir og Vera Stefánsdóttir fóru fumlaust með hlutverk Stokkmann-barnanna, sem eiga að erfa landið, ásamt með hugsjónum og beiskju föður síns.
Leikmynd Evu Signýjar Berger er tilkomumikið verk sem hægt er að leggja út fyrir sér hvort heldur er sem óklárað iðnaðarstórvirki eða niðurníddar rústir slíks. Nema hvort tveggja sé. Ekki reyndist það ýkja þénugt til sviðsetningar, heldur þröngvaði umferð og uppstillingum of oft í óheppilegar áttir í stað þess að styðja samband okkar við persónur og atburði verksins. Aðeins á borgarafundinum öðlaðist það sannfærandi merkingu og kraft, sem einhverskonar útileiksvið.
Nútímafærsla verksins er hógvær, vel heppnuð og skynsamlega gerð. Raunar má segja að hún felist fremur í að fjarlægja of augljósar vísanir í ritunartímann en að negla atburðina niður í núinu. Þannig er blaðið áfram blað en ekki vefur til dæmis, og þó einhverjir símar séu á lofti berast tíðindi milli manna með póstinum. Fórnarkostnaðurinn er einna helstur fyrir Guðrúnu S. Gísladóttur í hlutverki Ásláksen prentara, sem getur ekki verið jafn dásamlega hlægilegur hrygg- og frjálslyndisístöðuleysingi í þessum óræða heimi og hann er í meðförum Ibsens. Það er líka gerólík sögn í því að vera formaður félags atvinnurekenda eins og í sýningunni, en í forsvari fyrir húseigendur og bindindismenn eins og hinn gamli Ásláksen var. En Guðrún náði nú samt að vera skemmtileg.
Aðrir á „vinstri vængnum“ eru líka svolítið munaðarlausir í þessari túlkun. Lára Jóhanna Jónsdóttir hefur úr litlu að spila sem Billing, hefur líkt og Snæfríður Ingvarsdóttir sem Petra yngri eiginlega bara einn tón að leika. Þó verður að geta þess að Snæfríður sýndi hér myndugleika og kraft sem ég hef ekki séð til hennar fyrr og skilaði einurð Petru ágætlega á þessu þrönga tónsviði sem boðið er upp á. Snorri Engilbertsson hafði úr talsvert meiri vídd að spila í hlutverki ritstjórans Hofstad, sem heldur sennilega sjálfur að hann sé hugsjónamaður og tekur varla eftir því þegar það reynist rangt, og spilar afbragðsvel úr henni.
Um kynbreytingarnar er ekki annað að segja en að þær valda engum túlkunarvandræðum, en leiktextinn gefur heldur lítið svigrúm til að láta þær skipta verulegu máli. Sem betur fer er ekkert nýjabrum af því að konur stýri bæjum, prentsmiðjum eða læknisfrúr reki verslanir. Vera má að meiri alúð við hið persónulega hefði leitt í ljós áhugaverða fleti á hvernig samspil og valdatafl systkinana gæti verið ólíkt bræðrasambandi. En það er ekki verkefni þessarar sýningar.
Horster skipstjóri og erindi hans í leikritinu er mikið til horfið og lítið um túlkun Baldurs Trausta Hreinssonar að segja, og ekkert út á hana að setja. Það er meira lagt upp úr skringilegheitum Marteins Kíl en demónskum áhrifum hans, og gegnir gervið þar ekki síður hlutverki en túlkun Sigurðar Sigurjónssonar. Fyrir utan afdalalegan búning Marteins og tilkomumikinn pels bæjarstýrunnar eru búningar Evu Signýjar næsta hlutlausir, þröngva sér ekki inn í merkingu sýningarinnar eða stýra upplifun okkar og áliti á persónunum.
Una Þorleifsdóttir hefur í sviðsetningu sinni leitast við að vísa flutningi leiktextans fram í sal mun víðar en á fundinum mikla, sem er mjög viðeigandi að leikgerð hennar og Grétu Kristínar Ómarsdóttur gefinni. Allt kapp er lagt á að leggja málið í dóm okkar, og þá ekki síður er okkur ætlað að leggja mat á afvegaleiðingu þess í höndum hinna ráðandi afla. Lýðræðisþroski og virðing fyrir staðreyndum er svo sannarlega á dagskrá hjá okkur hér og nú, og vandræðalega brýnt að taka okkur ærlegt tak í þeim efnum, bæði í stétt stjórnmálamanna, stjórnsýslunni og á vettvangi umræðunnar. Það hvað 130 ára gamalt leikrit talar beint inn í umræðuna í dag er áfellisdómur yfir stjórnmálamenningunni frekar en til marks um óumræðilega og tímalausa snilligáfu Henriks Ibsens. En hún birtist líka ekki síst í þeim þáttum verksins sem fórnað er hér á altari erindisins. Hvernig hið persónulega og hið pólitíska fléttast saman, hvernig persónubrestir geta auðveldlega sent erfið mál í öngstræti. Hvernig hagsmunir villa okkur sýn.
Það er ekkert flókið að sjá utan úr sal hvað var óhjákvæmilegt að gera í málefnum heilsubaða Stokkmannssystkina. En það á að vera áhugavert og krefjandi að skoða af hverju það mistekst. Það verður aðeins of einfalt í uppfærslu Þjóðleikhússins, þó að viljinn til að leggja sitt af mörkum til umræðunnar sé augljós og virðingarverður.