þriðjudagur, desember 31, 2013

Englar alheimsins

Leikgerð Símonar Birgissonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar á skáldsögu Einars Más Guðmundssonar.

Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson
Leikmynd: Vytautas Narbutas
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Tónlist: Hjaltalín
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Leikarar
Atli Rafn Sigurðarson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Högni Egilsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Ólafur Egill Egilsson, Rúnar Freyr Gíslason, Saga Garðarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Sólveig Arnarsdóttir og Ævar Þór Benediktsson.


Þjóðleikhúsið, desember 2013 – birtist fyrst í Spássíunni.

ÉG ER LILLI KLIFURMÚS!


Fátt pirrar mig meira í leikhúsumræðunni en þegar fólk kvartar yfir að íslenskt leikhús leggi alltof mikið upp úr leikgerðum skáldsagna. Það eina sem ég man í svipinn að fari álíka mikið í taugarnar á mér er þegar fólk gerir lítið úr Jóni Viðari Jónssyni út frá því að hann sé „alltaf svo fúll“ og finnist allt leiðinlegt.

Í þriðja sæti er svo sú staðreynd að verk höfunda sem frumflutt eru af áhugamönnum teljast vera eðlisólík hinum sem atvinnumenn sýna, þó þau séu stundum eftir sama fólkið. En það er allt önnur saga.

Aftur að leikgerðum. Besta íslenska leikrit sem sést hefur í sjónvarpinu í háa herrans tíð er Grímuverðlaunaleikritið Fólkið í kjallaranum. Segi ekki að leikhandrit þeirra Þorleifs Arnar Arnarssonar og Símonar Birgissonar sé alveg jafn skothelt, en eitursnjallt er það. Óvenju fullt líka af hugvitsamlegum og óvæntum sjónarhornum á samband sýningarinnar við bókina og ekki síður við hina rómuðu kvikmyndagerð. Atriðið þar sem bíómyndin verður hluti af sturlun aðalpersónurnar er eitt af snjöllustu og áhrifamestu andartökum sem ég man eftir í leikhúsinu. Þá er nú aldeilis betur af stað farið en heima setið.

Og nú er rétt að staldra við og velta fyrir sér af hverju svo lítið er vælt yfir því að skáldsögur séu notaðar sem efniviður í bíómyndir. Líka í Hollywood, sko. Hefur ekkert með hina sögufjötruðu Íslensku þjóð að gera. Og þegiði.

Aftur að Jóni Viðari. Hann var ekki hrifinn af Englum alheimsins. Eða kannski frekar: Jón var svo heillaður af Englum alheimsins að hann firrtist við þegar leikgerð Þorleifs og Símonar stemmdi ekki við skilning hans á bókinni. Þar greinir okkur á, mig og Jón. Ekki í fyrsta sinn svo sem. Skárra væri það. Ég er reyndar ekki í hópi einörðustu aðdáenda bókarinnar, þó prýðileg sé. Mér þykir leið sýningar Þjóðleikhússins að efniviðnum og í gegnum framvinduna ganga fullkomlega upp. Það fannst mér t.d. ekki um kvikmyndina, sem lifir á frábærri frammistöðu leikhópsins alls. Ekki feilnóta slegin þar og túlkun Theodórs Júlíussonar á föðurnum er trúlega mín eftirlætisframmistaða í minna hlutverki í íslenskri bíómynd. En tímaóreiðan í heimi myndarinnar blandast óþægilega við ranghugmyndir aðalpersónunnar og handritið virðist gera ástarsorg Páls að „stóra áfallinu“ sem orsakar geðveikina. Það gengur ekki.

Það forvitnilegasta sem skrifað var um sýningu Þjóðleikhússins á Englum alheimsins var reyndar birt fyrir frumsýningu. Gunnar Smári Egilsson tók upp á því sl. vor að birta nokkurskonar væntingaryfirlýsingar um yfirvofandi menningarviðburði í Fréttatímanum. Gott ef heitið „fordómar“ var ekki sett á þessar frábærlega vel ígrunduðu vangaveltur í hálfkæringi. Gunnar Smári dregur í efa dramatíska möguleika viðfangsefnisins en vonar að sönnu hið besta:

„Gallinn við söguna í Englum alheimsins er sá sami og er gallinn við flestar sögur sem fjalla um alvarlega geðveikar persónur. Drifkraftur sögunnar er í raun utan hennar. Alvarlega geðveikt fólk veikist ekki af neinum sýnilegum ástæðum og því versnar sjaldnast vegna tiltekinna atburða. Sögumönnum hættir því til að lesa inn í sögur þeirra einhverjar forsendur fyrir framþróun sögunnar sem ef til vill voru aldrei til staðar. [...] Ef við trúum því að schizophrenía sé sjúkdómur sem ekki kviknar af áföllum eða ytri áreiti þá eru Englar alheimsins saga af ungum manni sem verður geðveikur og deyr; saga sem er eins og lína frekar en bogi.“

Sýningin held ég leysi bísna vel úr þessari þraut. Í túlkun höfunda hennar er engin skýring, bara afleiðingar. Afleiðingar fyrir Pál og alla í kringum hann, alla sem neyðast til að leika hlutverk gagnvart ofsanum sem brjálsemin blæs honum í brjóst. Það á jafnt við um fjölskyldu, vini, starfsmenn kerfisins og okkur sem er búið að loka inni í þessu tiltekna rými með klepparanum, á hans yfirráðasvæði. Höfundar sýningarinnar fara mjög hugvitsamlega með það vald, merkingu þess og áhrif.

Engin skýring og heldur ekkert um meðferð geðsjúkra. Það er líka til stakra bóta upp á áhrifamátt sýningarinnar. Hún er ekki þjóðfélagsleg ádeila um veröld sem var heldur opið hús í hugarheimi stjórnlauss anda.

Stjórnleysið þýðir reyndar að við vitum ekki alltaf hvað er í gangi, og þar treysta þeir Þ & S dálítið rækilega á þekkingu gesta sinna á bók og mynd. Það traust er held ég að mestu verðskuldað, og í raun mikilvægur þáttur í sýningunni allri. Hún hefði þurft að vera talsvert öðruvísi ef þeir hefðu viljað tryggja aðgengi þeirra að framvindunni sem hvorki hefa lesið bókina né séð myndina. Sennilega fá svoleiðis gestir talsvert fyrir sinn snúð, en ruglaðir hljóta þeir að koma út.

Þar munar auðvitað mikið um glæsilegan stjörnuleik Atla Rafns Sigurðssonar í aðalhlutverkinu. Burðarhlutverkinu. Á honum hvílir algerlega sú skylda að hafa ofan af fyrir okkur, að halda okkur við efnið. Við erum þarna í boði hans. Án frammistöðu af þessari stærðargráðu hefði þetta nú verið heldur þungbært, og verstu fordómar Gunnars Smára staðfestir.

En svo fór ekki. Sýningin er bæði feiknasterk og frumleg – snýr vanda efnisins í styrkleika og leikur sér á óvenju djarfan en áhrifaríkan hátt með leikhúsið sjálft, Þjóðleikhúsið sjálft, leikarana sjálfa.

Og af því að það gleymist stundum: Það að listaverk sé samtímis sterkt og frumlegt, bæði tilraunakennt og áhrifaríkt er undantekning en ekki regla. Þess meiri er heiður listamannanna sem unnu þetta afrek.