þriðjudagur, maí 01, 2012

Óraland

Listrænir stjórnendur: Egill Ingibergsson, Jón Atli Jónasson, Magnús Þór Þorbergsson og Una Þorleifsdóttir.

Nemendaleikhúsið í Smiðjunni við Sölvhólsgötu vorið 1212 – birtist fyrst í Spássíunni


Spontant og örugg


Allt bendir til að Óraland, síðasta sýning nýjasta leiklistarútskriftarhóps Listaháskólans, verði síðasta sýning Nemdendaleikhússins. Vafalaust kemur eitthvað í staðin, einhver vettvangur fyrir ný- og hálfbakaða atvinnuleikara að láta ljós sitt skína framan í óbreytta áhorfendur, en hvað  það verður er ekki vitað þegar þetta er ritað og því maklegt að flétta umsögn um þessa lokasýningu saman við einhverskonar minningargrein um þetta merka leikhús.

Best að byrja þá á því að lýsa því yfir að Óraland er verðugur endapunktur, ein sterkasta sýning sem ég man eftir frá því ég fór í fyrsta sinn í Nemendaleikhúsið, nýfluttur til borgarinnar. Það var 1990 og Baltasar og Ingvar voru Óþelló og Jagó. Ekki fer hún á listann yfir þær allrabestu, en það gerir hins vegar lokaverkefni sama hóps, Glataðir snillingar, sem mér fannst hreint afbragð og þykir enn.

Í makalausu lokaeintali Óralands, í endalausu flóði af sambærilegum andstæðupörum, lýsir ein persónan því yfir að hún vilji svo gjarnan vera „spontant“ en samt „örugg“. Einhvernvegin stendur þetta eftir sem ágætis lýsing á góðu Nemendaleikhúsi. Innan þess er allt leyfilegt, tilraunir, áhætta, ungæðisleg klikkun. En allt þetta er hægt af því  að umgjörðin veitir öryggi. Nemendaleikhús er verndaður vinnustaður.

Og í Óralandi er svo sannarlega tekin áhætta. Verkið er unnið af leikhópnum, og því trúlega lagt af stað með algerlega óskrifað blað, leikararnir að grúska í hugmyndaflugi sínu, mögulega minningum og athugunum á samfélaginu. Úr verður svipmynd af þeim og okkur hinum sem þau hafa verið að horfa á. Skemmtilega kaldhæðin, ekki sérlega „flatterandi“, en greinilega einlæg og oft fyndin af því hún er sönn. Fyndnust náttúrulega í óborganlegum endurteknum brandara um dramatískar sviðsetningar þess að koma út úr skápnum.
Fyrsta sýning af skyldu tagi sem ég sá í Nemendaleikhúsinu var hin fullkomlega óborganlega sýning „Trúðar“ árið 1994, sem er þá trú(ð)lega fæðingarár hinna nafnkunnu trúða Barböru og Úlfars. Þar var öryggisnetið eins gisið og það gerist í leikhúsinu, allt komið undir uppátækjum þeirra rauðnefjuðu hverju sinni. Ég sá hana tvisvar, á gjörólíkum kvöldum, og það er til marks um galdurinn að önnur þeirra var með því stórkostlegra sem ég hef séð í leikhúsi en hin, ja bara alls ekki.

En Óraland er öllu formaðri sýning, ekki alveg laus við möguleika á að hlaupa útundan sér, en hér liggur engu að síður handrit til grundvallar þó í sketsaformi sé, samið af hópnum en með ritara/leikskáld úti í sal. Það virkar vafalaust eins og skammhrós en ég vona að Jón Atli fyrirgefi mér samt þegar ég segi að mér þyki sterkustu skrifkaflarnir í Óralandi eitthvað það besta sem frá honum hefur komið. Fyrrnefnt eintal er frábært, martraðarkenndar innkomur grímuklæddrar veru með skilaboð úr undirmeðvitundinni voru skáldlegar mjög og svo sá ég ekki betur en þarna væru drög að fullburða „skrifuðu“ leikverki í hefðbundnu formi. Þar á ég við feðgana sem glíma við nauðgunarkæruna sem sonurinn þarf að svara og faðirinn ákveður að hrekja með aðferðum leikhússins. Það er mikið efni þarna og þarf ekkert endilega að taka á því með þeim súrrealíska lokahnykk og hér er gert, snjall sem hann þó er.  Þá má ekki vanmeta þátt leikstjórans í svona vinnu, en ég myndi ætla að Una Þorleifsdóttir hafi unnið talsvert afrek með þessari sýningu.

Samvinna Nemendaleikhússins við íslensk leikskáld, sem nær aftur til stofnunar þess, hefur getið af sér fjölmörg verk og ekki öll frábær. Að skrifa verk með hæfilegum og nokkuð jafnstórum hlutverkum fyrir fimm til tíu leikara á sama aldri hefur stundum reynst meiri snóker en innblástur. Mér þykir alltaf svolítið vænt um Peysufatadaginn sem Kjartan Ragnarsson skrifaði fyrir útskriftarhópinn 1980-1981, sá það reyndar ekki en lék í því sjálfur í menntaskóla og finnst það glúrið. En Maríusögur Þorvaldar Þorsteinssonar (1995) þykja mér framúrskarandi, eitt hans besta verk og er þá mikið sagt.

Það er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér á sýningum Nemendaleikhúsins (og eftir að heim er komið) hvað verði þú um þessa ungu listamenn. Hverjir verði áberandi, hverjir minna, hverjir hverfi til annarra starfa innan leikhúss og utan. Þessi samkvæmisleikur á ekkert erindi á prent, bæði er það ómaklegt gagnvart nýútskrifuðu fólki, en ekki síður er ekki hollt að gefa þannig höggstað á sér, því þetta er hættuspil. Ein albesta sýning Nemendaleikhússins í mínu minni er uppfærsla Guðjóns Pedersen á Draumi á Jónsmessunótt 1993 (hans besti Shakespeare). Ég hefði nú ekki spáð því að hinn gjörsamlega óborganlegi Spóli vefari, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, yrði tólf árum síðar orðin staðarhaldari í Viðey, eða að Þórhallur Gunnarsson myndi snúa sér að þáttastjórnun í sjónvarpi.

Það er því best að vera ekki að velta opinberlega fyrir sér mögulegum framgangi eða stefnu ríkisborgaranna í Óralandi. Þau mæta ansi berskjölduð til leiks í þessari sýningu og ná mörg að blómstra, þó ljóst sé að þau njóta sín misvel í þessari nálgun.

En við þökkum þeim Hirti Jóhanni Jónssyni, Kolbeini Arnbjörnssyni, Olgu Sonju Thorarensen, Ólöfu Haraldsdóttur, Pétri Ármannssyni, Sögu Garðarsdóttur, Söru Margréti Nordahl, Sigurði Þór Óskarssyni, Snorra Engilbertssyni og Tinnu Sverrisdóttur kærlega fyrir þennan örláta, innblásna, snjalla, skemmtilega, og áleitna endapunkt á glæsta sögu Nemendaleikhússins.