Double Nora
Theatre Office Natori Byggt á Brúðuheimili Henriks Ibsen. Handrit: Udea Kuniyoshi og Mori Mitsuya. Leikstjórn: Mori Mitsuya. Tónlist: Tsumura Reijiro. Flytjendur: Tsumura Reijiro, Mizuno Yu, Yasua Noburu, Murakami Hiroshi, Okura Shonosuke, Sakata Masahiro, Kuribayashi Yusuke, Nakasho Nobuo, Suzuki Keigo og Aoyagi Maiko. Þjóðleikhúsinu 3. september 2006.
Í HVERT skipti sem Brúðuheimili Ibsens er tekið til kostanna í leikhúsi nútímans þurfa aðstandendur sýningarinnar að svara spurningunni um erindi verksins nú á dögum. Þó svo að jafnrétti kynjanna sé ekki komið á í raun hvað sem öllum lagabókstöfum líður þá byggir Brúðuheimilið áhrifamátt sinn og innihald allt að miklu leyti á aðstæðum sem ekki eru til staðar lengur. Hreyfiaflið, alger fáfræði Nóru um lög samfélagsins sem hún býr í og staða hennar á heimili sínu, birtast okkur ekki lengur sem eðlilegt ástand sem allar kynsystur hennar búa við. Nóra verður sértilfelli og það sama gildir um Helmer, sem auðveldlega getur virkað eins og siðblindur óþokki úr lélegri amerískri spennumynd. Þar með hafa vígtennur gagnrýninnar verið dregnar úr verkinu, það er ekki lengur byltingarkennd þjóðfélagsádeila heldur harmleikur einstaklinga í skelfilegum aðstæðum sem verða fyrst og fremst til vegna persónulegra bresta þeirra. Það sem einu sinni var samfélagsleg sprengja verður dálítið áreynslukenndur sálfræðitryllir með menningarstimpli.
Freistandi leið til að gera verk af þessu tagi tæk til meðferðar er að einbeita sér að því sem stundum er kallað kjarninn. Hreinsa burt allan óþarfa, einfalda söguþráðinn, sleppa aukapersónum og leggja ofuráherslu á tilfinningar, grunnafstöðu persónanna hverrar til annarrar og það sem túlkendum finnst vera grundvallarsögn verksins. Í vissum skilningi er þetta það sem reynt er að gera í Double Nora. Vandinn við þessa nálgun á verk skrifuð í stíl aldamótaraunsæis er síðan sá að það er einmitt í vef smáatriða og hversdagsskrafs, í smásmyglislegri lýsingu þjóðfélagsaðstæðna og fortíðar sem merkinguna er að finna. Einföldun á efninu skilar oftar en ekki einfeldningslegri niðurstöðu, sjálfsögðum hlutum.
Þennan vanda leysir Natorileikhúsið ekki, eftir því sem best verður séð. Grunnhugmynd sýningarinnar er sú að tefla saman vestrænum leikmáta og hinu forna Noh-leikhúsi til að miðla kjarna verksins, stöðu Nóru í heiminum. Þannig er Nóra túlkuð af tveimur leikurum, leikkonu með bakgrunn í nútímaleikhúsi og karlleikara úr heimi Nohleikhússins. Helmer er leikinn af Noh-leikara en Krogstad og Rank koma úr heimi nútímans.
Meiningin virðist vera sú að hið stífa Noh-form tákni helsið sem Nóra býr við en leikkonan standi fyrir draum hennar um fulla þátttöku í samfélagi manna. Falleg hugmynd í sjálfu sér, og þau andartök þar sem heimarnir sköruðust tvímælalaust sterkustu augnablik sýningarinnar. En það er ekki hægt að leika hugtök. Eða kannski; það er hægt að leika hugtök, en það er ekki sérlega góð nýting á möguleikum og áhrifamætti leikhússins. Hugmynd á borð við þessa birtist í eitt skipti fyrir öll. Um leið og hún er orðin ljós er lítið meira fyrir áhorfandann að gera. Í þessu tilfelli skapaði framandleikinn okkur þó ærin verkefni.
Sýningin á Double Nora markar fyrstu kynni mín af Noh-leikhúsinu á sviði. Í fræðibókum og leiklistarsögudoðröntum er talað um uppruna formsins á 14. öld og hvernig lítið hafi breyst síðan, það er sagt frá hinum hægu hreyfingum, talsöng persónanna, tónlistinni og kórnum.
Fyrir utan allt þetta er það sem mætir vestrænum áhorfanda fyrst og fremst algjör og eindreginn framandleiki. Hin alvöruþrungna framganga þátttakenda gefur til kynna að allt hafi djúpa og mikla merkingu, hver einasta hreyfing leikarans, minnstu blæbrigði í raddbeitingu, hvert smáatriði í búningum, jafnvel það hvernig hljóðfæraleikarnir handleika trommur sínar og flautur. Allt virðist fyrirskipað. Allt er óskiljanlegt.
Það er einfaldlega engin leið inn í merkingarheim Noh-leikhússins fyrir vestrænan græningja. Hvað þá heldur möguleiki fyrir grænan gagnrýnanda að segja nokkuð af viti um það sem fyrir augu bar. Og þá auðvitað alls ekki hvort þetta var gott Noh eða slæmt. Ef skilningarvitin eru opnuð of vítt og allar tengingarnar í leikhúsminninu gerðar virkar er hætt við að seigfljótandi hátíðleikinn í bland við of síðu skálmarnar á buxum Helmers, ískrandi atónal flautuspilið og hin furðulegu vein trommuleikaranna veki hlátur öðru fremur.
En þetta er hámenning, stemmingin er upphafin og helgihljóð og auðvitað verðskuldar 700 ára gömul hefð virðingu. Verst að slíkar stellingar eru ekki sérlega heppilegar ef ætlunin er að njóta, hrífast eða skilja. Hvað varðar framgöngu hinna leikaranna er í sjálfu sér líka lítið að segja.
Í samhengi sýningarinnar var lítið út á túlkun Mizuno Yu að setja, en á hinn bóginn stóð of lítið eftir af þessu safaríka hlutverki til að sannfærandi ferðalag fyrir leikkonuna væri mögulegt. Murakami Hiroshi gerði tvo afgerandi ólíka menn úr Krogstad og Rank eins og vera ber.
Double Nora var forvitnileg upplifun. Hún sagði mér ekkert merkilegt eða nýstárlegt um leikrit Ibsens, en gaf okkur færi á að sjá í návígi merkilega og ævaforna leikhúshefð. En framandleikinn einn og sér er einhæft bragð og á endanum ætlast leikhúsáhorfandinn til þess að fá að vera með í sköpuninni. Hér var horft í gegnum glervegg og þegar ljósin voru slökkt stóð ég eftir undrandi, forvitinn en ósnortinn.
Týnt í þýðingu
Í HVERT skipti sem Brúðuheimili Ibsens er tekið til kostanna í leikhúsi nútímans þurfa aðstandendur sýningarinnar að svara spurningunni um erindi verksins nú á dögum. Þó svo að jafnrétti kynjanna sé ekki komið á í raun hvað sem öllum lagabókstöfum líður þá byggir Brúðuheimilið áhrifamátt sinn og innihald allt að miklu leyti á aðstæðum sem ekki eru til staðar lengur. Hreyfiaflið, alger fáfræði Nóru um lög samfélagsins sem hún býr í og staða hennar á heimili sínu, birtast okkur ekki lengur sem eðlilegt ástand sem allar kynsystur hennar búa við. Nóra verður sértilfelli og það sama gildir um Helmer, sem auðveldlega getur virkað eins og siðblindur óþokki úr lélegri amerískri spennumynd. Þar með hafa vígtennur gagnrýninnar verið dregnar úr verkinu, það er ekki lengur byltingarkennd þjóðfélagsádeila heldur harmleikur einstaklinga í skelfilegum aðstæðum sem verða fyrst og fremst til vegna persónulegra bresta þeirra. Það sem einu sinni var samfélagsleg sprengja verður dálítið áreynslukenndur sálfræðitryllir með menningarstimpli.
Freistandi leið til að gera verk af þessu tagi tæk til meðferðar er að einbeita sér að því sem stundum er kallað kjarninn. Hreinsa burt allan óþarfa, einfalda söguþráðinn, sleppa aukapersónum og leggja ofuráherslu á tilfinningar, grunnafstöðu persónanna hverrar til annarrar og það sem túlkendum finnst vera grundvallarsögn verksins. Í vissum skilningi er þetta það sem reynt er að gera í Double Nora. Vandinn við þessa nálgun á verk skrifuð í stíl aldamótaraunsæis er síðan sá að það er einmitt í vef smáatriða og hversdagsskrafs, í smásmyglislegri lýsingu þjóðfélagsaðstæðna og fortíðar sem merkinguna er að finna. Einföldun á efninu skilar oftar en ekki einfeldningslegri niðurstöðu, sjálfsögðum hlutum.
Þennan vanda leysir Natorileikhúsið ekki, eftir því sem best verður séð. Grunnhugmynd sýningarinnar er sú að tefla saman vestrænum leikmáta og hinu forna Noh-leikhúsi til að miðla kjarna verksins, stöðu Nóru í heiminum. Þannig er Nóra túlkuð af tveimur leikurum, leikkonu með bakgrunn í nútímaleikhúsi og karlleikara úr heimi Nohleikhússins. Helmer er leikinn af Noh-leikara en Krogstad og Rank koma úr heimi nútímans.
Meiningin virðist vera sú að hið stífa Noh-form tákni helsið sem Nóra býr við en leikkonan standi fyrir draum hennar um fulla þátttöku í samfélagi manna. Falleg hugmynd í sjálfu sér, og þau andartök þar sem heimarnir sköruðust tvímælalaust sterkustu augnablik sýningarinnar. En það er ekki hægt að leika hugtök. Eða kannski; það er hægt að leika hugtök, en það er ekki sérlega góð nýting á möguleikum og áhrifamætti leikhússins. Hugmynd á borð við þessa birtist í eitt skipti fyrir öll. Um leið og hún er orðin ljós er lítið meira fyrir áhorfandann að gera. Í þessu tilfelli skapaði framandleikinn okkur þó ærin verkefni.
Sýningin á Double Nora markar fyrstu kynni mín af Noh-leikhúsinu á sviði. Í fræðibókum og leiklistarsögudoðröntum er talað um uppruna formsins á 14. öld og hvernig lítið hafi breyst síðan, það er sagt frá hinum hægu hreyfingum, talsöng persónanna, tónlistinni og kórnum.
Fyrir utan allt þetta er það sem mætir vestrænum áhorfanda fyrst og fremst algjör og eindreginn framandleiki. Hin alvöruþrungna framganga þátttakenda gefur til kynna að allt hafi djúpa og mikla merkingu, hver einasta hreyfing leikarans, minnstu blæbrigði í raddbeitingu, hvert smáatriði í búningum, jafnvel það hvernig hljóðfæraleikarnir handleika trommur sínar og flautur. Allt virðist fyrirskipað. Allt er óskiljanlegt.
Það er einfaldlega engin leið inn í merkingarheim Noh-leikhússins fyrir vestrænan græningja. Hvað þá heldur möguleiki fyrir grænan gagnrýnanda að segja nokkuð af viti um það sem fyrir augu bar. Og þá auðvitað alls ekki hvort þetta var gott Noh eða slæmt. Ef skilningarvitin eru opnuð of vítt og allar tengingarnar í leikhúsminninu gerðar virkar er hætt við að seigfljótandi hátíðleikinn í bland við of síðu skálmarnar á buxum Helmers, ískrandi atónal flautuspilið og hin furðulegu vein trommuleikaranna veki hlátur öðru fremur.
En þetta er hámenning, stemmingin er upphafin og helgihljóð og auðvitað verðskuldar 700 ára gömul hefð virðingu. Verst að slíkar stellingar eru ekki sérlega heppilegar ef ætlunin er að njóta, hrífast eða skilja. Hvað varðar framgöngu hinna leikaranna er í sjálfu sér líka lítið að segja.
Í samhengi sýningarinnar var lítið út á túlkun Mizuno Yu að setja, en á hinn bóginn stóð of lítið eftir af þessu safaríka hlutverki til að sannfærandi ferðalag fyrir leikkonuna væri mögulegt. Murakami Hiroshi gerði tvo afgerandi ólíka menn úr Krogstad og Rank eins og vera ber.
Double Nora var forvitnileg upplifun. Hún sagði mér ekkert merkilegt eða nýstárlegt um leikrit Ibsens, en gaf okkur færi á að sjá í návígi merkilega og ævaforna leikhúshefð. En framandleikinn einn og sér er einhæft bragð og á endanum ætlast leikhúsáhorfandinn til þess að fá að vera með í sköpuninni. Hér var horft í gegnum glervegg og þegar ljósin voru slökkt stóð ég eftir undrandi, forvitinn en ósnortinn.