laugardagur, janúar 21, 2006

Naglinn

540 Gólf og Borgarleikhúsið. Höfundur: Jón Gnarr. Leikstjórn: Valgeir Skagfjörð. Leikmynd: Þórarinn Blöndal. Búningar og gervi: Helga Rún Pálsdóttir. Lýsing: Skúli Gautason. Kvikmyndun: Sveinn M. Sveinsson. Myndvinnsla: Sigurþór Heimisson. Leikendur: Gunnar Sigurðsson og Jón St. Kristjánsson. Borgarleikhúsið 21. janúar 2006.

Maður eins og ég? 


Í LEIKSKRÁ Naglans má ráða það af greinum höfundar og leikstjóra að nokkur alvara búi að baki verkinu, hér eigi að ganga á hólm við karlmennskuna og leita að kjarna hennar og stöðu í nútímasamfélaginu. Og öðrum þræði er alvöru þessa að finna í verkinu sjálfu. Eða kannski er „alvara“ ekki alveg rétta orðið. „Einlægni“ gæti verið réttari lýsing á efnistökunum.

En svo veit maður aldrei með Jón Gnarr, sem er sá listamaður íslenskur sem hefur gengið lengst í að gera yfirborðseinlægni að skopaðferð. Það er tvíeggjað sverð, því hvað ef svoleiðis mann langar allt í einu að segja eitthvað í alvöru? Hver trúir honum? Ég hef meira að segja heyrt því haldið fram að Fréttablaðspistlar Jóns og önnur tjáning á trúarreynslu hans séu ein risastór grínsýning í anda hins ameríska Andy Kaufman. Hvað veit ég?

Svo er auðvitað ekkert sjálfkrafa útilokað að segja mikilvæga og alvarlega hluti með aðferð gamanleiksins. Öðru nær reyndar. Hirðfíflið má eitt segja kónginum sannleikann. Vandinn er sá að grín byggist á því sem flytjendur og áhorfendur eiga sameiginlegt – lífsafl hlátursins er þegar nýstárlegri sýn er brugðið á sameiginlega reynslu, eða einfaldlega að hlutir eru orðaðir sem ekki hefur mátt eða þótt viðeigandi að tala um. Þá er stutt í klisjurnar.

Það er flókinn galdur að skrifa innihaldsríkt grín í alvöru. Það hefur Jóni ekki tekist að þessu sinni. Til þess er Naglinn of fastur í hjólförum klisjunnar sem nú um stundir er viðtekin sýn leikhúss og skemmtanaiðnaðarins á karlmenn. Jóni tekst ekki að bæta neinu áhugaverðu við myndina af ropandi, tilfinningaheftu, lokuðu, bjórþambandi, fótboltaglápandi, skrúfvélarveifandi, klámglápandi og ráðvilltu ístrubelgjunum og vinnuölkunum sem okkur er sífellt sagt að við séum. Myndin af konunum er síðan jafn fyrirsjáanleg. Vissulega er víða komist vel að orði og margar samtalssenurnar eru hnyttilega skrifaðar inn í þessa „hellisbúahefð“. Það örlar sums staðar á nýjum flötum, kannski sterkast þegar formúlukenndu samtali þar sem kona segir manni upp er snúið upp á föður og son. En það er of lítið af slíku nýjabrumi – búið að segja þetta of oft til að maður geti trúað því.

Bygging sýningarinnar er heldur ekki nógu markviss. Frá höfundarins hendi vantar stígandi í afhjúpun aðalpersónunnar og sjálfsskoðun. Og ramminn, ristilspeglunin sem bíður hans, er illa nýttur til að gefa sýningunni heildarsvip. Hvað sviðsetninguna varðar hafa of margar hugmyndir fengið að komast alla leið; myndbönd, ljósmyndir, skuggaleikhús, talandi klósett, álitsgjafar um karlmennskuna. Valgeir hefði þurft að ydda sýninguna betur.

Það ánægjulega er að sýningin hefur ekki á sér kaldhæðnislega gróðavonarslikjuna sem svona efnistök gefa í skyn og sveif yfir vötnum í Bless Fress í Loftkastalanum fyrir nokkrum árum og loddi við Typpatal í fyrra. Það er eins og Jóni, Gunnari, Valgeiri og félögum finnist þeir í alvöru vera að segja eitthvað merkilegt og mikilvægt. Aftur: það er einlægni og hlýja í sýningunni. Þessir eiginleikar birtast ekki síst í framgöngu Gunnars Sigurðssonar. Gunnar hefur að sumu leyti sambærilegan hæfileika og höfundurinn, að virðast algerlega hversdagslegur í fasi og framgöngu við jafn skringilegar aðstæður og standa upp á sviði og afhjúpa sig. Að túlka hinn algera meðaljón án þess að gera hann annaðhvort fullkomlega óáhugaverðan eða þannig að „tækni“ eða „skólun“ leikarans fari í forgrunn er ekki á allra færi, kannski síst þeirra sem við myndum kalla „stórleikara“.

En Gunnar hefur þetta. Maður trúir á hann, myndi treysta honum til að reisa hjá sér millivegg eða losa stíflu úr klósetti. Mótleikara Gunnars gefst ekki kostur á að reyna við einlægnina. Verkefni Jóns St. Kristjánssonar er að bregða sér í ótal gervi eiginkvenna, föður, barna, lækna, sálfræðinga og annarra samferðamanna Naglans. Sumar voru sannfærandi, aðrar eins og þær væru enn á skissustiginu frá leikarans hendi, nokkuð sem vel má vera að setjist betur með tímanum.

Það var mikið hlegið á frumsýningunni. Kannski er enn áhugi fyrir léttmeti um „karlmanninn“ og vandræði hans í samfélagi sem gerir aðrar kröfur til hans en feður hans bjuggu hann undir. Kannski réttlætir kátínan vankantana sem leikhúsrýnir staldrar við. Má vera, en kannski stendur sú geðhreinsun sem hláturinn er á endanum í vegi fyrir að meinin sem Naglinn þó tæpir á séu skoðuð í alvöru. „Svona erum við, en sniðugt“, gætum við sagt á leiðinni út í bílinn og hlammað okkur svo þegjandi og prumpandi í sófann með bjórinn og leikinn. Hvað veit ég?


fimmtudagur, janúar 12, 2006

Glæpur gegn diskóinu

Steypibaðsfélagið Stútur
Laugardaginn 12. janúar, 2006


Ferðadiskó Kalla Klikk


Höfundur: Gary Owen
Þýðing: Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Friðrik Friðriksson og Álfrún Helga Örnólfsdóttir
Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Aðstoðarleikstjóri: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann.
Tónlist: Hallur Ingólfsson
Leikmynd: Þórarinn Blöndal
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Leikendur: Friðrik Friðriksson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Ólafur Darri Ólafsson. Ω

EITT af mikilvægustu sérkennum leikhússins sem greinir það frá stóra keppinautnum, kvikmyndinni, er sambandið við áhorfendur. Ekki bara nálægðin, ekki bara að það sem við sjáum er að gerast hér og nú, heldur sá möguleiki að persónurnar tali hreinlega við okkur. Deili hugsunum sínum, afhjúpi sinn innri mann. Eða þá reyni að ljúga að okkur. Í einleik er þetta hreinlega grundvöllur formsins, áhorfendur eru mótleikarinn. Þegar vel tekst til eru slíkar sýningar einhver sterkasta leikhúsupplifunin og enn magnaðri fyrir þá sök að ekkert annað listform hefur þessa nálgun á valdi sínu. Í einleiknum er leikhúsið á heimavelli.

Glæpur gegn diskóinu samanstendur af þremur eintölum. Þrír karlmenn bjóða okkur með sér inn í líf sitt, fylgja okkur í gegnum eitt afdrifaríkt kvöld og sýna okkur hvernig fortíðin, sem smám saman skýrist, leiðir að atburðunum sem verða. Þeir hafa allir beðið skipbrot, eru strand í tilverunni. Ofbeldi er miðlægt í lífi þeirra allra, örlagavaldur jafnt gerenda sem þolenda.

Þetta er fantalega vel skrifað verk. Gary Owen hefur greinilega á valdi sínu að skrifa raunsæislega en jafnframt skáldlega, að yrkja fyrir leiksvið. Hver þáttur er persónulýsing en jafnframt spennandi saga og fram á síðustu stundu eru sífellt að bætast við upplýsingar um hvernig þær tengjast og hvers vegna verið er að segja okkur þær í sömu sýningunni. Jafnvægið milli framvindu og sálfræðilegrar afhjúpunar, og svo hvernig heildarfléttan skýrist smátt og smátt er frábærlega unnið hjá höfundinum, sem þykir einn eftirtektarverðasti höfundurinn á Bretlandseyjum, ekki síst á grundvelli þessa magnaða verks. Þýðingin hefur tekist ágætlega hjá þríeykinu sem ber ábyrgð á henni. Einstöku sinnum verður málfarið óþjált en án samanburðar verður ekki fullyrt um hvort þar sé um að ræða stílbragð höfundar eða vandræði þýðendanna. Og aldrei þessu vant truflaði mig ekki að staðfærslan gengur strangt tekið ekki upp, til þess er menningin sem mótar líf persónanna of útlensk. Það breytir engu, við samþykkjum þann heim sem okkur er sýndur á sviðinu, þó hann sé hvorki almennilega velskur né íslenskur.

Raunar er það sem ég hef út á sýninguna að setja eintóm smáatriði. Íslenska nafnið pirrar mig, svo og hin táknræna lukkuskífa sem Þórarinn Blöndal hefur kosið að gera að brennidepli annars þénugrar leikmyndar sinnar. Þegar leikrit er fullfært um að koma merkingu sinni til skila er alger óþarfi að reyna að mata mig á kjarna þess í umgjörðinni.

Í byrjun fannst mér líka eins og hljóðmynd Halls Ingólfssonar væri ein af þessum hugmyndum sem er góð sem hugmynd en virkar ekki í raun. En þó ekki sé hann flinkasti trommuleikari sem ég hef heyrt spreyta sig á svona verkefni þá hætti áslátturinn fljótlega að trufla, og fór smám saman að virka.

Agnar Jón Egilsson eflist sem leikstjóri með hverju verki. Vonandi er hann ekki hættur sinni frjóu og mikilvægu vinnu með leikfélögum framhaldsskólanna þó svo hann sé óðum að hasla sér völl á "stóra" sviðinu, en óneitanlega er meiri agi yfir framsetningu hans í þessari sýningu en mörgum hinum galgopalegu og anarkísku uppsetningum með skólunum. Það er eins og hann hafi tekið sitt óstýriláta leikræna ímyndunarafl og komið því fyrir inni í leikurunum sjálfum, þar sem það á best heima í þetta sinn. Flott vinna.

Annars er Glæpur gegn diskóinu sýning leikaranna. Þeir ná allir að skapa sterkar og eftirminnilegar persónur, standa með þeim og skila þeim til okkar.

Fyrstu mínúturnar hélt ég reyndar að þrjú korter með Kalla Klikk í meðförum Friðriks Friðrikssonar yrðu hreinræktuð kvöl. Einstaklega ógeðfelldur ofbeldismaður, og óáhugaverður með öllu. Eða hvað? Nei, Friðrik og Owen sáu til þess að við fengjum fljótlega áhuga á þessum stórhættulega en jafnframt aumkunarverða óþokka. Veruleg vel teiknuð mynd af manngerð sem allir sem sótt hafa sveitaböll og aðrar slíkar skemmtanir þekkja, en eðli málsins samkvæmt er ekki á allra færi að kynnast svona náið. Friðrik nýtur sín afar vel í svona samleik með áhorfendum, hefur gott lag á tímasetningum og var flinkur í að draga upp skyndimyndir af öðrum persónum sem urðu á vegi Kalla.

Af þeim þremenningum hefur kannski minnst sést til Guðmundar Inga, og það er því þeim mun ánægjulegra að tilkynna að hann átti sannkallaðan stjörnuleik í hlutverki karaokekappans Hjartar R. Hjartaknús. Það sem stefndi hraðbyri í að verða dálítið klisjukennd skopsaga um einrænan, ofsatrúaðan og kúgaðan mömmustrák fékk fljótlega á sig sérlega mannlegan og innlifaðan blæ (og varð auðvitað hálfu fyndnara fyrir vikið). Líkamsmálið var mjög skemmtilega notað hjá Guðmundi og rímaði flott við kostulegt málsnið persónunnar.

Ólafur Darri fékk það verkefni að vera "venjulegi maðurinn" í þessu galleríi. Sú persóna sem býður upp á minnst tilþrif, eða allavega er það sú leið sem er farin hér. Aftur var framan af eins og ekkert væri að gerast og lítið sem fangaði hugann. En innlifun Darra í hlutskipti Rúnars og svo hin listilega hnýtti endahnútur gefa sýningunni merkingu sína,

Glæpur gegn diskóinu er í stórum dráttum leikhús eins og ég vil hafa það. Fyrst og fremst krefst ég þess að verða hugfanginn í bókstaflegri merkingu þess orðs. Ekki endilega að "gleyma stund og stað", heldur verða algerlega upptekinn af því sem verið er að tjá mér. Það er gaman að hrífast af hæfni listamannanna, en enn betra ef hún leiðir mig að því að sökkva mér í innihaldið. Og þegar ég kem upp á ný er ekki verra ef ég kemst að því að mér hafi verið sagt eitthvað nýtt, eða allavega bent á nýjan flöt.

Fullt hús hjá Steypibaðsfélaginu Stút.