miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Fear/Nana Del Caballo

Dan Kai Teatro
Mánudaginn 22. ágúst, 2005

Höfundar og leikstjórar: Eyrún Ósk Jónsdóttir og Gemma Rowan

Óttaleysi



FYRIR réttu ári kom þessi sami hópur, reyndar með annan sér til fulltingis, og sýndi verkið Beauty í leikstjórn höfundar, Eyrúnar Óskar Jónsdóttur. Sú sýning þótti mér ekki heppnast sem skyldi þó svo ástríða aðstandenda væri ótvíræð, bæði gagnvart leikhúsinu og því erindi sem þau áttu við áhorfendur sína. Það er því sem því nemur ánægjulegra verkefni að geta sagt að sýningarnar núna eru prýðilega unnar og hugsaðar og ágætis skemmtun til viðbótar við þann boðskap sem enn er rótin að því sem gert er. Greinilegt að síðasta ár í Rose Bruford-skólanum hefur skilað hópnum og forsprökkum hans bæði marktækt meiri getu og þó fyrst og fremst meira valdi á meðulum leikhússins. Til hamingju með það.
Að þessu sinni eru sýningarnar tvær, ólíkar að innihaldi og að sumu leyti hvað varðar aðferð, þótt samkennin séu líka skýr. Í báðum eru tilraunir með raddbeitingu áberandi og eftirtektarverðar, einnig stílfærðar hreyfingar á einstiginu milli leikhúss og dans. Grundvallaratriði í báðum, og lykillinn að árangrinum, er þó einfaldleikinn. Einfaldleiki í sviðsetningu, skýrleiki í afstöðu, ögun í efnisvali. Í þessu liggur stóri munurinn milli ára.

Fyrra verkið, Fear, ku vera lokaverkefni Eyrúnar Óskar. Það er skrifað undir áhrifum þjóðsagna, innblásið af stærstu ógnum samtímans og óttanum sem knýr menn til voðaverka. Óttanum við hið óþekkta, fjarlæga og framandi. Meginþráðurinn snýst um mann sem steypir heiminum í glötun þegar hann telur tunglið vera helsta óvin mannkynsins, öxul hins illa mætti segja. Sagan sú hefur yfirbragð hreinræktaðrar þjóðsögu í dæmisagnarkenndum einfaldleik sínum, og ef til vill hefði áhrifamætti hennar verið enn betur skilað með enn meiri tryggð við lögmál frásagnarinnar. En val Eyrúnar er líka fær leið, að segja söguna í stílfærðum og sterkum brotum, með innskotum úr öðrum áttum. Ekki hefði ég viljað sjá á bak atriðinu með hermannakonunum tveimur sem færði hina alheimslegu ógn af geimstríðinu inn í eldhús í öllum sínum hryllingi. Í Fear tekst Eyrúnu og hennar fólki að miðla því sem þau vilja segja með aðferðum leikhússins á kröftugan og eftirtektarverðan hátt.

Nana Del Caballo
Allt annar tónn er sleginn í Nana Del Caballo, sem leikstjórinn Gemma Rowan byggir á smáverki eftir García Lorca, El Publico. Ekki þekki ég það verk, en viðeigandi að frumsýninguna á Íslandi bar upp á dánardægur skáldsins. Hins vegar grunar mig að frjálslega sé farið með uppleggið í þessari sýningu.
Grunnurinn var Rómeó og Júlía og staða þeirra sem leikpersóna gagnvart áhorfendum, höfundi og leikstjóra. Sýningin var mun óræðari en hin fyrri, en aftur var skýrleiki og nákvæmni í fyrirrúmi þannig að hvert atriði og andartak lifði burtséð frá hvort saga eða samhengi væri til staðar. Viðfangsefnið virtist mér vera afhelgun. Afhelgun rómantískrar ástar, skáldskapar og karllegrar myndar af konum sem viðfangi. Afhelgun sambands áhorfenda og leikenda var þarna líka. Skemmtilega gróteskt líkamsmál leikkvennanna myndaði skemmtilega og sterka andstæðu við bleiku kjólana, og illkvittnisleg uppátækjasemi vakti tíðum hlátur í óþarflega þunnskipuðum salnum. Nana Del Caballo er sterk og hugsunarvekjandi mynd þar sem öryggisnet framvindu og persónusköpunar eru víðs fjarri en samt tekst hópnum að svífa og miðla.

Það er gaman að sjá ný andlit á sviðinu, gaman að vita hvað ungt leiklistarfólk er að fást við. Það er síðan enn meira gaman þegar tilraunir heppnast, áræðið borgar sig og erfiðið við að ná tökum á leklistinni skilar sér. Allt þetta var til staðar í þessari ágætu sýningu Dan Kai Teatro.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Rósinkrans og Gullinstjarna eru dauðir

Fátæka leikhúsið
Tónlistarþróunarmiðstöðin sunnudaginn 14. ágúst 2005.

Höfundur: Tom Stoppard
Þýðandi: Snorri Hergill.
Leikstjóri: Karl Ágúst Þorbergsson.

Leikendur: Hannes Óli Ágústsson, Friðgeir Einarsson, Snorri Hergill, Hinrik ÞórSvavarsson, Bjartur Guðmundsson, Ástbjörg Rut Jónsdittur, Þorbjörg, Helga Dýrfjörð, Atli Sigurjónsson, Jón Stefán Kristjánsson, Halldór Marteinsson, Hjalti Kristjánsson og Leifur Þorvaldsson.

Leikarar: andstæðan við fólk


VIRTUR breskur leikstjóri og nýráðinn leikhússtjóri Globe-leikhússins í London lýsti verkinu sem hér er til umfjöllunar sem “ljótu bíslagi utan í snilldarverkinu Beðið eftir Godot”. Og vissulega eru samkenni með verkunum. Tveir trúðslegir fáráðar eyða tíma sínum í bið í báðum verkunum og eru næsta óvissir um stöðu sína í heiminum og tilganginn með þessu jarðlífi. Reyndar kemur á daginn að tilvist Rósinkranz og Gullinstjarna hefur svo sannarlega tilgang, þó ekki sé hann af því taginu sem blæs mönnum eldmóð í brjóst. Þeir eru nefnilega aukapersónur í annarra manna lífsdrama. Kannski erum við það öll. Merking verksins er ekki meira á hreinu en svo að þegar höfundurinn var spurður um hvað það væri skömmu eftir frumflutning þess svaraði hann: “Um... það bil að gera mig forríkan”, sem reyndist rétt vera.

Sú staðreynd á sér náttúrulega rætur í að verkið er bráðskemmtilegt á svolítið menntaskólalegan hátt, blandar saman vitsmunum og fíflalátum í góðan kokkteil sem bæði er hægt að hugsa um og flissa yfir. Báðum þáttunum er svo haldið til skila í sýningu Fátæka leikhússins. Fyrri hluta sýningarinnar er slagsíðan heldur gríninu í hag, stundum svo að fíflalætin bera lífið á sviðinu ofurliði. En í síðari hlutanum ná aðalleikararnir, þeir Hannes Óli Ágústsson og Friðgeir Einarsson, í skottið á sönnum tilfinningum og mæta örlögum sínum fallega. Leikarar eru heilt yfir ágætir, en auk tvímenningana má nefna Snorra Hergil sem hafði mikinn myndugleika sem stórleikarinn, auk þess að þýða verkið lipurlega og stundum ánægjulega frjálslega.

Sýningin er víst unnin á skömmum tíma, sem skilar henni áreiðanlega þeim ferskleika og krafti sem í henni býr. En svoleiðis vinnubrögð kosta líka. Hér koma þau niður á samleik og þróun persónanna, en þó sérstaklega í því hvað flausturslega er unnið með skemmtilega grunnhugmynd sýningarinnar, að nota mismunandi leikstíl til að draga fram muninn á “lífi” tvímenninganna og “hlutverki” þeirra í verkinu um Hamlet danaprins. Nákvæmari og betur útffærð skopstæling á óhemjuleik hefði bætt heilmiklu við áhrifin, þó oft væri gaman að fyrirganginum í aðalsmönnunum á Helsingjaeyri og tilraunum Rósa og Gulla til að halda í við þau. Eins saknaði ég að þriðji stíllin, stíll farandleikaranna, væri útfærður þannig að hann varpaði enn einu ljósinu á hugmyndina.

Annað sem verður dálítil lýti á sýningunni er hve rýmisnotkunin er ómarkviss. Umgjörðin býður upp á skemmtilega hluti í einfaldleik sínum, en of margir möguleikar nýttust ekki og má trúlega kenna þar um fyrrnefndu tímahraki og mögulega reynsluleysi leikstjórans.

En hvað um það: þetta er skemmtileg sýning hjá Fátæka leikhúsinu, sköpunarfjörið er ósvikið og svo eiga þau heiður skilinn fyrir að standa fyrir einni af alltof fáum tækifærum sem við höfum hér til að sjá verk þessa galgopalega alvörumanns.