sunnudagur, maí 01, 2005

Davíð Oddsson - Súperstar

Leikklúbburinn Saga
Útihúsinu, Akureyri 1. maí 2005

Höfundar: Leikstjóri og leikhópurinn
Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson

Þegar við útskrifumst verður búið að selja allt

JÓN Páll Eyjólfsson gerir það ekki endasleppt við okkur. Eftir hina stórkostlegu sýningu Stúdentaleikhússins, Þú veist hvernig þetta er, fer hann norður og leiðir Leikklúbbinn Sögu sömu leið í átt að samfélagslegu ádeiluleikhúsi. Greinilegt er að sama aðferð hefur verið viðhöfð og útkoman er önnur, nútímaleg, fyndin og flugbeitt pólitísk revía.

Afrek Jóns Páls er stórt. Það er engin hefð fyrir svona leiksýningum á Íslandi. Hafi þær einhverntíma tíðkast, sem ég efast um, þá er það fyrir löngu síðan og öllum gleymt nema leiklistarsagnfræðingum og engin list er eins mikið í augnablikinu og þessi. Það er samtíminn sem verið er að öskra á, við erum bæði áhorfendur og viðfangsefni Davíðs Oddssonar - Súperstar. Það er hin stóra snilldin í þessum sýningum. Hér er nefnilega ekki bara kastað ódýrum skítabombum að yfirvöldum heima og heiman, heldur kastljósinu líka beint að okkur. "Ég er ekki pólitísk, ég er bara kjósandi," segir einn leikarinn í sýningunni og hinir samsinna brosandi. Við berum ábyrgð á ástandinu, við látum okkur tvískinnung stjórnmálamannanna lynda, við tökum þátt í neysluæðinu, skuldafylleríinu og klámvæðingunni. Við erum meðal viljugra pyntingameistara í Írak. Á allt þetta er brugðið leifturljósi í kaldranalegu Útihúsinu á Akureyri þar sem Leikklúbburinn Saga hefur hreiðrað um sig til að segja sannleikann.

Þetta er fantavelgerð sýning á öllum póstum. Þó svo leikhópurinn sé greinilega ekki hokinn af reynslu skilar hann erindi sínu skýrt og af krafti sannfæringarinnar. Og þegar atriðin kalla á innlifaðan tilfinningaleik þá er hann þarna líka, eins og stúlkurnar í súludanskeppni ófrískra sýndu á áhrifaríkan hátt. En þó öllum sé mikið niðri fyrir er grunntónninn kómískur, þetta er jú revía og hlátrarsköllin voru mörg og innileg.

Sýningin er full af snjöllum lausnum og skýrum hugmyndum. Atriðið með hinum óþolandi sjónvarpsstubbum var bæði skelfilegt og skelfilega fyndið og skírnarathöfn nýbúa einfalt en algerlega afhjúpandi um landlæga afstöðu til þeirra sem hingað koma. Svona mætti í sjálfu sér lengi telja, en nær væri að hvetja Eyfirðinga og aðra sem eiga leið um að koma við í Hafnarstrætinu og hlusta eftir því sem Leikklúbburinn Saga hefur fram að færa. Davíð Oddsson - Súperstar er afbragðsgóð sýning og Jón Páll Eyjólfsson er maður ársins í íslensku leikhúsi.