þriðjudagur, janúar 25, 2005

Náttúran kallar

Leikfélag Selfoss
Leikhúsinu við Sigtún, Selfossi, 25. Janúar 2005.

Spunaverk unnið af leikhóp og leikstjóra, Sigrúnu Sól Ólafsdóttur.

Troddu þér nú inn í tjaldið...

LEIKFÉLAG Selfoss hefur á sinni löngu starfsæfi glímt við ýmis stórvirki úr leikbókmenntunum, en líka lagt sig eftir að skemmta bæjarbúum og öðrum með hreinræktuðu gríni, gjarnan úr smiðju heimamanna. Náttúran kallar er sýning sem má líta á sem nokkurskonar bræðing úr þessum hefðum. Hér er hreinræktað skop á ferðinni, en alvaran sem felst í leiðinni, hinni krefjandi aðferð sem beitt var við gerð sýningarinnar, mun efla og styrkja leikhópinn svo um munar.

Hér er sem sagt um sýningu unna í spuna að ræða. Langur aðdragandi og æfingaferill þar sem leikararnir, lífsreynsla þeirra ekki síður en leikreynsla, eru virkjuð sem sköpunarafl. Viðfangsefnið er tjaldmenning landans í öllum sínum óhugnanlega mikilfengleik, og um leið auðvitað ýmis einkenni fjölskyldu- og mannlífs sem birtast við þessar aðstæður í skýru ljósi eins og tjaldsvæðið sé einhverskonar tilraunastofa þar sem samfélagið er skoðað í smækkaðri mynd og helstu klisjur viðraðar. Afraksturinn er alveg stórskemmtileg sýning hjá leikfélaginu og þarf afar staðfastan og sannfærðan fýlupoka til að njóta hennar ekki.

Rót skemmtilegheitanna er, eins og gjarnan þegar spunavinna er annars vegar, í persónunum og einföldum samskiptum þeirra. Því miður hefur hópurinn leiðst út í það að reyna að smíða gamanleiksfléttu utan um efni sitt, og þar bregst þeim stundum illa bogalistin. Atburðarásin er enda að mestu óþörf þar sem lífið sem kviknar á sviðinu stendur algerlega fyrir sínu án farsabrellna. Eins heppnast illa nokkrar tilraunir til að klófesta alvöruna innan um galgopalegt og ýkjuskotið grínið.

Allir leikendur ná að skapa sannfærandi og skemmtilegar persónur. Margir þátttakendur eru lítt reyndir og má reikna með að vinnan við þessa sýningu skili þeim dýrmætum höfuðstóli til frekari afreka. Þrátt fyrir þennan almenna góða árangur er ómögulegt annað en að tilgreina nokkra sem koma sýningunni á sérstakt flug með innlifun sinni og sköpun. Bjarni Stefánsson og Íris Árný Magnúsdóttir eru algerlega dásamleg sem nýríku hjónin Lárus og Guðfinna. Líkamstjáning og raddbeiting beggja óviðjafnanlega skýr og hlægileg. Líka sögu er að segja af þeim Stefáni Ólafssyni og Erlu Dan Jónsdóttur sem yngra parið. Sérstakt hrós á Erla skilið fyrir stórskostlega frammistöðu í því sem samkvæmt leikskrá er frumraun hennar.

Leikmyndin er snjöll, litlu tjöldin frábær hugmynd og vel útfærð, og hljóðmynd Eyjólfs Pálmarssonar skemmtilegt krydd, sérstaklega áhrifshljóðin, sönglögin hefðu að mínum smekk mátt missa sín.

Náttúran kallar er metnaðarfulllt skemmtiverk, alvörugefin tilraun til að búa til galgopalegt listaverk. Sigrún Sól Ólafsdóttir sýnir enn og aftur að hún er með öflugustu listrænu stjórnendum sem íslenskum áhugaleikhúsum standa til boða. Það má reikna með að árangur þessarar sýningar verði ekki einungis fjöldi ánægðra áhorfenda heldur eldmóður og sjálfstraust í röðum félagsmanna. Segiði svo að græskulaus grínleikrit skilji ekkert eftir sig!