mánudagur, maí 01, 2000

Bylting - Animal Farm

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýnir í Samkomuhúsinu á Akureyri
Mánudagurinn 1. maí 2000

Eftir George Orwell í leikgerð Sir Peters Hall
Þýðandi: Melkorka Tekla Ólafsdóttir
Þýðandi bundins máls: Kristján Þórður Hrafnsson
Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Tónlistarstjórn: Elín Björk Jónasdóttir og Helgi Hreiðar Stefánsson

Raunsæissvín

DÝRABÆR Orwells er alveg sérstaklega gott dæmi um sígilt listaverk. Fáar skáldsögur eru jafn kirfilega tengdar ákveðnum tíma og sögulegum viðburðum. Saga rússnesku byltingarinnar og grimm örlög þeirra miklu hugsjóna er sviðsett á enskum bóndabæ í ótrúlega nákvæmum smáatriðum. En jafnframt segir sagan sammannleg sannindi, óháð söguþekkingu og -áhuga, hvað þá stjórnmálaskoðunum. Maðurinn þrífst ekki við stjórnleysi fremur en önnur hjarðdýr, fljótlega grípur einhver taumana, veitir hópnum öryggistilfinningu og stefnu, en – vald spillir. Dýrabær er því kominn til að vera í hugmyndaheimi okkar, þörf ádrepa á öllum tímum, jafnvel á baráttudegi verkalýðsins.
Leikgerð Peters Hall, fyrrum þjóðleikhússtjóra Breta, flytur söguna lipurlega til áhorfenda en nokkra furðu vekur sú ákvörðun hans að nota barn fyrir sögumann. Dýrabær er hreint ekki barnabók og torvelt að skilja tilganginn með þessu. Sögumennskan væri að mínu viti miklu betur komin hjá leikhópnum öllum, dýrunum sjálfum, þannig hefði hinn kaldi háðstónn sögunnar skilað sér mun sterkar og ísmeygilegar til okkar.
Sýning LMA er fjörug og kraftmikil, kannski jafnvel of fjörug. Sú leið leikstjórans að draga fram hið skoplega í sögunni og skapa jafnvel töluvert grín til viðbótar orkar að mínu mati tvímælis. Verkið stendur varla undir gamninu, stíllinn og innihaldið vinna hvort gegn öðru og eftir því sem tónninn þyngist í sögunni og draumurinn ummyndast í martröð verður erfiðara að hlægja að fyndninni en jafnframt torvelt að finna hrollinn sem óhjákvæmilegur harmleikurinn á að framkalla.
Leikhópurinn stendur sig vel, vinnur saman sem einn maður þegar það á við, en jafnframt ná margir að blómstra og Agnari hefur tekist prýðilega að skapa dýrsleg einkenni með leikurunum án þess að kæfa persónuleikana.
Ásdís Ármannsdóttir gerði einræðisgeltinum Napóleoni fantagóð skil, geislaði af sjálfsöryggi og hafði allan þann myndugleika sem þurfti til að gera tilkall til valdanna. Strithetjan og einfeldningurinn Jaki varð trúverðugur og átakanlegur hjá Tinnu Smáradóttur og Margrét Stefánsdóttir var skemmtileg sem puntudúkkan og mannagælan Lóló. Alls eru um tuttugu leikarar á sviðinu og skila sínu með sóma. Þar að auki leikur þétt og góð þriggja manna hljómsveit undir í flóknum og greinilega firnaerfiðum söngvum sem leikararnir áttu á köflum fullt í fangi með að skila, en tókst þó, kom einna helst niður á kraftinum.
Bylting er skemmtileg sýning þó hún veigri sér við að glíma í alvöru við Orwell og byltinguna. Agnari hefur tekist að virkja hæfileika og sköpunarkraft menntskælinganna og hugmyndaauðgin og fjörið eru ósvikin. Þessum hópi er greinilega treystandi í frekari átök að ári., grunnurinn er greinilega til staðar.