miðvikudagur, janúar 19, 2000

Hvenær kemurðu aftur rauðhærði riddari?

Leikfélag Hafnarfjarðar
Hafnarfjarðarleikhúsinu janúar 2000

Höfundur Mark Medoff
Þýðandi: Stefán Baldursson
Leikstjóri: Viðar Eggertsson


Öld siðleysisins

Það þarf að leita langt aftur í söguna til að finna tímabil þar sem fólk hefur verið jafn upptekið af tilgangslausu ofbeldi og við erum sem lifum núna á síðari hluta tuttugustu aldarinnar. Ofbeldi heillar okkur, en þó enn frekar siðleysi, ofbeldi án tilgangs, ofbeldismenn sem virðast ekki stjórnast af neinu nema eigin óbeisluðu hvötum.

Hvenær kemurðu aftur rauðhærði riddari? sýnir okkur ofbeldismann af þessu tagi, sem hefur sagt sig úr lögum við mannlegt samfélag.
Inn á afskekkta vegasjoppu í Nýju-Mexíkó kemur maður. Atvikin haga því svo að hann tekur starfsfólk og gesti í gíslingu og hefur ofan af fyrir sér með því að kvelja þau og ógna áður en hann getur haldið sína leið. Efnisþráð væri ósanngjarnt að rekja, en verkið sýnir okkur viðbrögð fólks sem lendir í skelfilegum og óskiljanlegum aðstæðum, hvernig það bregst við og hvernig það breytist við þessa reynslu.

Hvenær kemurðu aftur rauðhærði riddari? er skrifað í þeim raunsæisstíl sem einkennir verk margra helstu bandarískra leikskálda, og er þeirra aðalsmerki. Verk af þessum toga krefjast öðru fremur innlifunar og trúverðugleika af leikurum. Hér er því krefjandi verkefni á ferðinni, en jafnframt gefandi, standi leikhópurinn undir kröfunum og skili sannfærandi túlkun til áhorfenda. Sýning Leikfélags Hafnarfjarðar uppfyllir fyllilega þær væntingar, rígheldur áhorfandanum við efnið og skapar þá samúð sem skilur hann eftir hugsi yfir örlögum persónanna og þeim öflum sem stýra manndýrinu.

Viðar Eggertsson hefur löngum sýnt það að hann er ekki áhugamaður um málamiðlanir og á hann trúlega stærsta heiðurinn af því að gera sýninguna jafn áhrifamikla og raun ber vitni með því að gera einarðar kröfur til leikhópsins. Hann hefur kosið að færa verkið til nútímans, en það er skrifað árið 1973. Það er dálítið erfitt að trúa á hrekkleysi persónanna og grandaleysi gagnvart þeirri ógn sem stafar af ofbeldismanninum núna á þessum síðustu og verstu tímum. Þetta kemur þó vart að sök, hér er á ferðinni raunsæi persónusköpunar og tilfinninga, félagslegi þátturinn er minna atriði.

Leikhópurinn stendur sig allur með mikilli prýði. Mest mæðir á þeim Halldóri Magnússyni í hlutverki ofbeldismannsins Teddys, og Ólafi Steini Ingunnarsyni og Taniu Íris Melero í hlutverkum starfsfólksins Stephen og Angel. Halldór hefur bæði kraftinn til að sannfæra mann um að hann hafi allt í hendi sér og blæbrigðin til að verða aldrei leiðigjarn. Ólafur Steinn er sannfærandi sem ungi maðurinn sem uppfullur af innistæðulausu sjálfsöryggi verður helsti skotspónn Teddys og Tania Íris á hreinlega stórleik í hlutverki einfeldningsins Angel sem síðust allra gerir sér grein fyrir alvarleika málsins. Þau Alexía Björg Jóhannesdóttir og Daniel Viggósson leika hjón af betri stigum sem lenda á röngum stað á röngum tíma. Bæði skila góðu verki, en eru full-ung til að gera harmleik hjónanna fullkomlega trúverðugan. Lárus Vilhjálmsson fer vel með hlutverk hins góðhjartaða Lyle, sem með hjálpsemi sinni kemur í rauninni öllu hinu illa til leiðar. Huld Óskarsdóttir er Cheryl, lagskona Teddys og gerði vel í litlu hlutverki. Gunnar B. Guðmundsson hefur síðan úr minnstu að moða í hlutverki Clarks, eiganda vegasjoppunnar, sem einn persónanna "missir" af öllu fjörinu. Gunnar skilar hlutverkinu hins vegar vel.

Umgjörðin er hæfilega hráslagaleg og nostur við smáatriði skilar sér í sterkari tilfinningu fyrir lífi persónanna.

Hvenær kemurðu aftur rauðhærði riddari? er áhrifamikið og gott leikrit. Það sýnir hvernig hægt er að fjalla um ofbeldi án þess að dýrka það, hvernig vekja má til umhugsunar án þess að predika. Sýning Leikfélags Hafnarfjarðar er kraftmikil og sannfærandi túlkun á verkinu og svo sannarlega ferðar til Hafnarfjarðar virði.