sunnudagur, mars 04, 2001

Skilaboðaskjóðan

Leikfélag Fljótsdalshéraðs og Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum
Valaskjálf 4. mars 2001

Höfundur: Þorvaldur Þorsteinsson
Tónlist: Jóhann G. Jóhannsson
Leikstjóri: Sjöfn Evertsdóttir
Leikmyndarhönnuður: Unnur Sveinsdóttir
Tónlistarstjóri: Keith Reed

Í Ævintýraskóginum

SÝNING Leikfélags Fljótsdalshéraðs á Skilaboðaskjóðunni eru fyrstu kynni mín af þessu vinsæla verki sem byggt er á enn vinsælli bók. Það eru því líklega lítil tíðindi fyrir flesta að þetta er hið ágætasta verk. Fyndin og umhugsunarvekjandi leiðsögn um ævintýraskóginn, íbúa hans og ævintýrareglurnar sem þar gilda. Putti litli, sem vill svo gjarnan forða Mjallhvíti, Rauðhettu og sætindabelgjunum Hans og Grétu frá ógæfunni, kynnist illskunni af eigin raun. Maddamamma lærir að illvirkjarnir eru í alvörunni illvirkjar, án þeirra væru engin ævintýri, og glíman við þau stælir með okkur samkennd, hugrekki og útsjónarsemi.

Leikfélag Fljótsdalshéraðs hefur löngum verið ófeimið við að glíma við stórsýningar og nú, með fulltingi Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum, er miklu til tjaldað. Viðamikil leikmynd og samsvarandi búningar, krefjandi tónlist og fjölmennur leikhópur. Kröfur verksins eru miklar. En Egilsstaðamenn standast þær og skila frábærlega skemmtilegri sýningu.

Leikstjóri sýningarinnar hefur greinilega lagt sig eftir skarpri persónusköpun, sem skilar sér í óvenju jafn-góðum leik. Allar persónur verksins verða algerlega skýrar. Textameðferð var undantekningarlítið góð. Á stundum fannst mér sem staðsetningar og umferð um leikrýmið væri ekki nógu markviss, sem dró úr áhrifamætti sumra atriða, sérstaklega kaflans þar sem Putti villist um skóginn og leitar árangurslaust liðsinnis hjá illþýðinu. Þá þótti mér verkið víðar kalla á að talað væri beint til áhorfenda en gert var. Bæði eintöl og nokkur laganna virðast mér klárlega vera ávarp til áhorfenda, til að mynda fyrsti söngur Möddumömmu og hið víðfræga dvergalag.

Leikmynd Unnar Sveinsdóttur er ævintýraleg, í öllum skilningi. Hún og hennar fólk hafa skapað sannfærandi ævintýraheim fyrir leikritið að gerast í. Eins eru búningar vel útfærðir. Margt var fallega gert í tónlistinni, stundum komu upp sambandsleysisvandamál milli söngvara og hljómsveitar sem vafalaust verða úr sögunni að fáeinum sýningum liðnum.

Í svo svo jafnri sýningu er erfitt að týna til einstaka leikara, en margir verðskulda sérstakt hrós. Sigurlaug Gunnarsdóttir var geislandi sem Putti, og var hreint ekki feimin við að beina orðum sínum að áhorfendum. Kristrún Jónsdóttir var góð Maddamamma og Vígþór Sjafnar Zophoníasson var frábærlega skemmtilegur sem hinn gleymni sendiboði Dreitill. Dvergarnir allir áttu fínan samleik og eins var illþýðið firnagott, Bjartmar Bergmann sem hinn gráðugi úlfur, Erla Dóra Vogler sem nornin ljóta, og Oddný Dóra Sævarsdóttir, sannkallað flagð undir fögru skinni.

Skilaboðaskjóðan á Egilsstöðum er sigur fyrir aðstandendur alla. Leikritið er eitt af þessum gullvægu verkum sem gerir greinarmun á barna- og fullorðinsverkum hlægilegan, hér fá allir eitthvað til að gleðjast yfir og hugsa um. En til þess þarf að drífa sig í leikhúsið, það er vel þess virði.
Þorgeir Tryggvason