laugardagur, nóvember 06, 2004

Álagabærinn

Leikfélag Reyðarfjarðar
Félagslundi, Reyðarfirði 6. nóvember 2004

Höfundur og leikstjóri: Ármann Guðmundsson
Tónlist: Ármann Guðmundsson, Helgi Friðrik Georgsson og Jón Hilmar Kárason.

Bein snerting við lífið

SÚ snjalla hugmynd forsvarsmanna Leikfélags Reyðarfjarðar að láta skrifa fyrir sig leikrit um atvinnumál í plássinu bendir óneitanlega til þess að Austfirðingar séu í beinna sambandi við hræringar í leikhúsi heimsins en sum önnur og suðvestari landsvæði. Í Bretlandi og annars staðar í Evrópu úir og grúir af sýningum um samtímaviðburði, stinga á kýlum, spyrja spurninga. Af nógu er líka að taka á þessum síðustu og verstu. Álagabærinn er svo sem ekki ýkja djúpskreið þjóðfélagsgagnrýni, en engu að síður heiðarleg og mestanpart vel heppnuð atlaga að því að búa til leiksýningu í beinni snertingu við líf þeirra sem skapa hana og hinna sem koma að sjá. Hér er skotið í allar áttir á góðlátlegan hátt svo enginn á að verða sár, en beinskeytt svo þeir taka til sín sem eiga.

Álagabærinn er, eins og nafnið bendir til, í álögum. Allt athafnalíf þar er að drabbast niður í bið eftir stórri allsherjarlausn að utan. Útgerðarmaðurinn hefur fyrst og fremst áhuga á að bjarga sjálfum sér, aðrir sitja og bíða. En þegar fréttist af áhuga svissnesks stórfyrirtækis á að byggja (nokkuð kostulega) verksmiðju í bænum fer allt af stað. Sumir kaupa fasteignir í bjartsýniskasti, aðrir hefja mótmælaaðgerðir. En allt er þetta unnið fyrir gýg - ekkert verður af framkvæmdum, og sagan endurtekur sig.

Kannski ekki mjög tilkomumikil flétta, og vissulega eru í verkinu daufir punktar. En þeir eru sem betur fer færri og minna eftirminnilegir en það sem betur heppnast; hnyttin tilsvör, skarpar skopmyndir og snjallir söngtextar. Allra best er þó sú ágæta hugmynd að binda verkið saman með tveimur persónum, einhver konar þorpsöndum, sem eru greinilega komnir af sömu írsku þrælunum og þeir Vladimir og Estragon í Beðið eftir Godot. Þeirra hlutskipti er að bíða og velta fyrir sér því hlutskipti, sem þeir gera af mikilli og bráðhlægilegri skarpskyggni trúðsins. Þau Hjördís Ósk Sigtryggsdóttir og Ólafur Gunnarsson stóðu sig vel í hlutverkunum og uppskáru margan hláturinn.

Leikhópurinn stendur sig með prýði. Hann er eins og oft vill verða skipaður fólki með mismikla sviðsreynslu, og það verður að segjast eins og er að það sést. Á köflum verður sýningin óþarflega dauf, missir kraft og gleði. Að einhverju leyti skrifast það á frumsýningarstress og óöryggi sem of mikil orka fer einatt í. En það er líka að hluta til við leikstjórann að sakast sem hefði þurft að endurspegla snjallan texta sinn með meiri hugkvæmi og fjölbreytni í sviðsetningu. Og svo hreinlega að leggja meiri áherslu á að leysa menn úr læðingi og minni á nákvæmni og skýrleika. Verkið, stíllinn og tilefnið kallar á það. Meira pönk!

Mikið sópaði að Daníel Má Sigurðssyni sem var hæfilega, eða kannski óhæfilega, tækifærissinnaður útgerðarmógúll og Hafdísi Sjöfn Harðardóttur sem fór létt með að vera mótvægi við alla hina í hlutverki verndarsinnaðrar fjöllistakonu. Þá var Gunnar Theodór Gunnarsson skemmtilega veimiltítulegur bæjarstjóri. Hann hefur fína sviðsnærveru og á örugglega eftir að eflast í hlutverkinu með öryggi reynslunnar.

Tónlistin var skemmtilegt krydd í sýninguna, áheyrilega samin og vel flutt, bæði af þéttri hljómsveit og vel syngjandi leikhópi. Söngtextar komust að mestu leyti til skila þótt lengi megi skerpa þann þátt. Leikmyndin pottþétt hvort sem horft er á útlit eða notagildi.

Það var gaman að sitja í fullum salnum í Félagslundi og hlæja með Reyðfirðingum að ráðleysinu, tækifærismennskunni og óheiðarleikanum sem alltof oft einkennir háttalag okkar. Og gleðjast yfir bjartsýninni, dugnaðinum, trúfestinni og samheldninni sem við eigum til líka. Vonandi flykkist Fjarðarbyggðarfólk í leikhúsið. Þetta er klárlega leikhúsið þeirra.