laugardagur, maí 29, 2004

This is not my body

Subfrau
Borgarleikhúsinu laugardaginn 29. maí 2004

Leikendur: María Pálsdóttir, Kristina Alstam, Ida Løken, Lotten Roos, Sonja Ahlfors, Sofia Törnqvist og Kristjana Skúladóttir.

Dragspil á röngunni

GRUNNHUGMYNDIN að baki vinnu Subfrau-hópsins, og þar með að baki þessarar sýningar, er næsta alvörugefin rannsókn á kynhlutverkum og -ímyndum, og sérstaklega hvernig þessir hlutir endurspeglast í líkamsmáli og rýmisupplifun. Hljómar gríðarlega hátíðlega og ekki kannski uppskrift að sérlega skemmtilegu leikhúskvöldi, en sem betur fer taka þær Undirmálskonur sig ekki sérlega hátíðlega þegar á hólminn er komið.
Eins og fram hefur komið í kynningu á sýningunni á hópurinn rætur sínar í námskeiði í Dragspili fyrir konur, þar sem ungar leikkonur frá Norðurlöndunum rannsökuðu atferli, líkamsmál og framkomu karlmanna og sköpuðu í framhaldinu karakter sem þær síðan íklæddust. Það var satt að segja nokkur opinberun að sjá þær birtast í hlutverkum sínum á Nýja sviðinu, átta sig á hversu nákvæm og vægðarlaus þessi rannsókn hefur verið, og hve skýrri mynd hún hefur skilað. Og vitaskuld dregur sú staðreynd að hér eru leikkonur að taka á sig þessi gervi athyglina að allskyns smáatriðum í því hvernig karlmenn bera sig, standa, sitja, hreyfa sig, tala og hlusta, sem maður hefur aldrei veitt athygli áður. Og eins og einatt þegar eitthvað er algerlega satt verður það hryllilega hlægilegt. Fyrsta hluta sýningarinnar, meðan áhorfendur eru að kynnast (og venjast) strákunum gekk á með hlátursrokum við nánast hvaðeina sem þeir sögðu eða gerðu.

Form sýningarinnar er öðrum þræði sótt í dragspil og nektarsýningar, er rammað inn með dansatriðum en er að öðru leyti byggt upp á eintölum eða öllu heldur uppistandssketsum þar sem hver leikkona lætur ljós sitt skína, og sýnir okkur sinn karakter. Þessir sketsar voru nokkuð misgóðir, og báru þess nokkur merki að vera spunaafrakstur. Nokkrir duttu niður á frekar þreytandi hellisbúaplan í lýsingu sinni á hinum dæmigerða karlmanni, áhyggjum af typpastærð og vandræðum með að samræma bleiuskipti og boltagláp. Aðrir voru hnyttnir, en eftirminnilegastur er sá óræðasti, sá sem minnst var upptekinn af boðskap eða meðvitaðri greiningu á karlmennsku. Þegar persóna Ida Løken, "Råttan" tók til við að kenna okkur að gera ávaxtasalat eins og mamma hans hafði kennt honum, sveiflandi fiðrildahnífnum og leggja okkur lífsreglurnar um hreinlæti og val á hráefni með Rammstein-sálminn Mutter í bakgrunni tókst sýningin á loft, varð frumleg að innihaldi til viðbótar við óvenjulega forsenduna.

En þó innihaldið væri á köflum rýrt var unun að fylgjast með persónunum, trúa á þær en vera jafnframt sífellt að meta og dást að tækninni og alúðinni sem lögð var í að skapa þær. Þetta jafnvægi hélst út alla sýninguna og er til marks um hversu vel er að verki staðið. Það eina sem mætti finna að er að ef til vill eru karakterarnir of líkir, af of svipuðum þjóðfélagsstiga, allir með of háan innri status miðað við þann ytri (sem er kannski full-einföld leið til að sýna karldýrið). Allir með þykka yfirbreiðslu á innra óörygginu. Í frekari vinnu væri gaman að þróa þá meira í sundur, leggja áherslu á það sem gerir þá ólíka frekar en sem hóp. Einnig væri gaman að sjá meira samspil tveggja og þriggja, þar sem munurinn á stöðu kristallast.

Í raun er ekki ástæða til að skrifa langt mál um frammistöðu hverrar og einnar, svo mjög sem þær hafa jafnsterk tök á viðfangsefninu. Nokkuð mæddi vissulega á Maríu Pálsdóttur sem kynnti þær til sögunnar sem gestgjafinn, og gerði það vel. Karlinn hennar Maríu, Siggi var skemmtilegur og vafalaust hefur einhverntíman sést til hans á sveitaballi klukkan korter í þrjú. Sérstaka athygli mína vakti svo Marcel, sköpunarverk Kristinu Alstam, sem býr að glæsilegri djúpri söngrödd sem hún lét sig ekki muna um að beita við flutning á Sixteen Tons án þess að blikna.

Lokaatriðið var sterkt, þegar leikkonurnar svifta sig karlgervinu og standa hreyfingarlausar og þöglar drykklanga stund með nafn sýningarinnar letrað á nakta líkamana. Og blálokin, þegar hinn ólétti gestaleikari Kristjana Skúladóttir svífur inn, krýpur niður, lyftir kjólnum sínum og sýnir okkur áletrunina: "It's a boy." Skemmtilega órætt, ljóðrænt, mótsagnakennt og snjallt. Þessi lok og landnám leikkvennanna í karlaheiminum eru best heppnuðu hlutar sýningarinnar og leiða hana til sætis sem ein eftirminnilegasta leikhúsupplifun vetrarins.

Frekari vinna með þessa hugmynd óskast, og fleiri heimsóknir frá þeim Undirmálsfrúm.