föstudagur, nóvember 07, 2003

Sódóma Reykjavík

Leikfélag Verzlunarskóla Íslands Höfundur: Óskar Jónasson; leikstjóri: Ólafur S.K. Þorvaldz; lýsing: Bragi og Andri. Frumsýning í hátíðasal VÍ, 7.nóvember, 2003.

Er gamalt grín gott grín? 

UNDANFARIN ár hafa Verzlunarskólanemar gert garðinn frægan með söngleikjum og glanssýningum. Nú breyta þeir um stefnu, en innan sama geira: Þeir sviðsetja kvikmyndina Sódómu Reykjavík. Það er leitun að því ungmenni sem ekki hefur séð myndina og haft gaman af en það er eimnitt ástæðan fyrir vali krakkanna í samvinnu við leikstjórann: Að taka eitthvað sem allir þekkja, eins og kemur fram í leikskrá. Gamalt grín getur oft verið gott en ekki er hægt að telja það frumlegt að velja verk þar sem eini tilgangurinn er að gefa áhorfendum kost á að hlæja að þekktum bröndurum. 

Það fór þó ekki á milli mála á frumsýningunni að áhorfendur kynnu vel að meta grínið og allra best það sem frægast er úr kvikmyndinni. Leikstjórinn, Ólafur S.K. Þorvaldz, er aðeins 23 ára gamall. Hann er nýútskrifaður úr leiklistarskólanum Arts Ed í London og fyrrverandi Verzlunarskólanemi. Ólafur velur áhugaverða leið til sviðsetningar: Hann notar enga leikmynd og lítið af leikmunum en gerir skemmtilegar tilraunir með lýsingu. Það hefði verið gaman að sjá hann fara alla leið með hugmyndina: Að treysta leikurunum alveg og sleppa öllum leikmunum. Mig grunar að sýningin hefði orðið meira spennandi ef leikurinn hefði verið ýktur til muna ásamt því að einfalda söguþráðinn meira en gert var. Sögumaður fyllti í eyður milli hápunkta úr myndinni og þannig var öll sagan sögð. Þegar lítil reynsla leikaranna er höfð í huga heppnast leið Ólafs þó bærilega. Honum tókst vel að virkja hópinn sinn til að ná fram fjöri og gleði því ekkert vantaði upp á kraftinn sem þarf til drífa áfram sýningu af þessu tagi. 

Tveir leikarar eru eftirminnilegir sem sýndu persónulegan leik, og þar með nýja túlkun á persónum sínum: Maggi í hlutverki hins treggáfaða Ella og Lana sem lék Unni, systur Mola. Auk þeirra var Eyjólfur í aðalhlutverki Axels alveg prýðilegur sakleysingi. 

Þrátt fyrir hina stóru spurningu valið á verkinu er engin spurning um það að leikhópur þessi var efnilegur í heild og spennandi verður að sjá meira til Ólafs leikstjóra í framtíðinnni.