sunnudagur, október 21, 2001

Hinn eini sanni

Leikfélag Kópavogs
Félagsheimili Kópavogs laugardaginn 21. október 2001

Höfundur: Tom Stoppard
Þýðandi: Guðjón Ólafsson
Leikstjóri: Bjarni Guðmarsson
Leikmynd: Frosti Friðriksson
Leikendur: Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, Ástþór Ágústsson, Birgitta Birgisdóttir, Einar Þór Samúelsson, Frosti Friðriksson, Guðmundur L. Þorvaldsson, Helgi Róbert Þórisson, Huld Óskarsdóttir og Júlíus Freyr Theodórsson.

Enginn má yfirgefa húsið

STOPPARD var einhverntímann spurður um störf sín sem leiklistargagnrýnandi sem hann gegndi áður enn hann sló í gegn sem leikskáld. Hann svaraði: “Ég hafði aldrei siðferðisþrek til að rakka niður vini mína. Eða réttara sagt: ég hafði siðferðisþrek til að rakka aldrei niður vini mína”. Síðar skrifaði hann Hinn eina sanna, skopstælingu á hefðbundnum sakamálaleikritum þar sem siðferðisbrestir leiklistargagnrýnenda eru eitt helsta hreyfiaflið. Sjálfsagt er þetta tilviljun, en það er þá skemmtileg tilviljun.

Hinn eini sanni er langmest leikna verk Stoppards hér á landi, enda þakklátt verk að fást við, fyndið og snjallt og kallar á afgerandi leikstíl sem við fyrstu sýn er ekkert annað en hefðbundinn ofleikur sem þorri leikara hefur á valdi sínu og nýtur þess að velta sér uppúr. Málið er nú samt ekki alveg svona einfalt. Leikstíllinn þarf að taka mið af klisjunni um yfirdramatískan leikstíl sem allir tengja strax við sviðsetningar á Agötu Christie og öðrum af sama sauðahúsi. Til að leikstíllinn virki þurfa persónurnar aukinheldur að hafa innistæðu fyrir ýkjunum, grunnurinn þarf að vera traustur svo skoptstælingin standist. Svo má heldur ekki gleyma því að gagnrýnendurnir tveir sem dragast inn í atburaðrás verksins sem þeir eiga að fjalla um eru í öðrum stíl. Texti þeirra samanstendur af einlínubröndurum og grínið hvílir á tímasetningu og raunsæislegri meðferð textans sem er í þeim vitsmunalega stíl sem einkennir flest önnur verk höfundarins og þykir sumum nokkuð harður undir tönn.

Bjarni Guðmarsson hefur greinilega fullkominn skilning á þörfum verksins og skilar góðu verki. Ýktur og stílfærður sakamálaleikstíllinn var vel útfærður og aldrei innistæðulaus hjá vel skipuðum leikhópnum. Aðal sýningarinnar er samleikurinn og því erfitt og ástæðulaust að draga einstaka leikara fram til að hrósa þeim. Kannski hefði verið hægt að kreista fram meira skop með því að láta stílinn þróast og þokast nær fáránleikanum samhliða því að atburðarásin segir skilið við rökvísi heimsins. Gagnrýnendurnir voru ekki alveg eins öruggir á sínum stíl, en áttu þó sterk og fyndin augnablik, sérstaklega eftir að þeir hafa horfið inn í glæpaleikritið. Þessir aðfinnslupunktar eru samt smáatriði hjá þeirri staðreynd að sýningin heppnast í grundvallaratriðum, sem er alls ekki sjálfgefið með þetta verk. Þá er leikmynd Frosta Friðrikssonar bæði falleg og rétt.

Sýning Leikfélags Kópavogs er vel leikin og stýrt af styrkri hendi. Metnaður og vandvirkni er eitt helsta höfundareinkenni félagsins og það fer ekki á milli mála hér og sést á öllum þáttum sýningarinnar.