föstudagur, júlí 06, 2001

Fenris V

Ragnarock frá Danmörku, Dramash frá Álandseyjum, Fívill frá Færeyjum, Alleq frá Grænlandi, Leikklúbburinn Saga frá Íslandi, Sámi Vildonat frá Noregi og Cameleonterna frá Svíþjóð.
Glerárskóli á Akureyri 6. júlí 2001

Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Útlit: Sigurður Keiser
Tónlist: Kristian Blak

Líkin í lestinni

FENRIS er einstakt fyrirbæri, bæði í íslensku leikhúsi og norrænni samvinnu. Frá 1985 hafa fimm sýningar verið unnar undir þessu heiti, samstarfsverkefni unglingaleikhópa víðsvegar að af Norðurlöndunum. Nú hefur sú fimmta verið frumsýnd, og við tekur leikferð um Norðurlöndin, sem væntanlega verður ógleymanlegt ævintýri fyrir þátttakendur alla. Sama má líklega segja um sköpunarferlið allt, því sýningin er greinilega samstarfsverkefni allra þátttakenda, og vel hefur tekist að mynda einn stóran hóp úr leikhópunum sjö sem að verkefninu standa.
Sýningin sver sig í ætt við aðrar fjölmennar hópvinnusýningar þar sem tungumálið verður að víkja úr fyrsta sæti sem tjáningartæki. Einföld saga, skýr tákn, tónlist, endurtekningar. Innan þessa ramma nær Fenris V að vera býsna áhrifamikil sýning, dulúðug, kraftmikil og fellur aldrei í predikunargryfjuna þó viðfangsefnið séu mannlegir brestir.
Í upphafi er lífsháski og þegar björgin berst í líki skips er ekki rúm fyrir alla. Þeir sem er hafnað eru þó ekki úr sögunni, heldur taka á sig mynd skuggahliðar mannlífsins, alls þess sem við bælum og höfnum í fari okkar sjálfra. Sá sem nær að beisla þau myrku öfl getur náð völdum um tíma, en sú leið felur í sér tortímingu og sýningin endar líkt og hún byrjar, með syndafalli.
Skipið er megintákn sýningarinnar og er auðvitað margrætt; heimur í hnotskurn mannssálin, lífsbjörgin. Fenrisfólki nær að halda þessu tákni lifandi gegnum alla sýninguna, sem byggir ekki síst á því að þau treysta efnivið sínum og leyfa mótsögnum að tala, boðskapurinn verður aldrei alveg skýr. Enda eru spurningarnar stórar og fara með áhorfendunum út að leik loknum. Þannig á það að vera.
Leiðtogar hópsins eiga heiður skilinn. Sigurður Keiser fyrir einfaldan ramma sem tekur aldrei neitt frá leikhópnum en styður allt sem fram fer, Kristian Blak fyrir að virkja tónlistina í fólkinu og beina henni í sömu átt og sýningin í heild en þó fyrst og síðast Agnar Jón Egilsson fyrir að stilla saman þessa sjö strengi. Fenris V er önnur Fenrissýningin sem ég sé og tekur þeirri fyrri langt fram, fyrst og fremst vegna þess hve vel hefur tekist að láta hópana vinna saman og hve langt hópurinn hefur komist á þeim stutta tíma sem hann hefur haft til eiginlegrar samvinnu. Það verður að stórum hluta að þakka stjórnandanum.
Ég óska þessum samstillta og kraftmikla hópi til hamingju með frumsýninguna og góðrar siglingar.