sunnudagur, mars 11, 2001

Platonov

Herranótt
Tjarnarbíói sunnudaginn 11. mars 2001

Höfundur: Anton Tsjekhov.
Leikgerð: Ólafur Darri Ólafsson, byggt á þýðingum Árna Bergmann og Péturs Einarssonar.
Lýsing og útlitshönnun: Sigurður Kaiser.

Leikendur: Ástrós Elísdóttir, Bragi Páll Sigurðarson, Friðrik Thor Sigurbjörnsson, Grétar Már Amazeen, Grímur Hjörleifsson, Hildur Knútsdóttir, Kristín Una Friðjónsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Margrét Erla Maack, Margrét Jóna Einarsdóttir, Saga Sigurðardórri, Sunna María Schram, Svanlaug Jóhannsdóttir, Sverrir Ingi Gunnarsson, Tanja Marín Friðjónsdóttir, Valgerður B. Eggertsdóttir og Þorgeir Arason.

Hljómsveit: Árni Egill Örnólfsson, Brynja Guðmundsdóttir, Eiríkur Gauti Kristjánsson, Kristmundur Guðmundsson og Sigurður Þór Rögnvaldsson.

Skortur á lífsleikni

ÞÓ Platanov jafnist ekki á við meistarastykkin fjögur sem frægð Tsjekhovs hvílir á er í þessum sex klukkutíma óskapnaði að finna nánast öll viðfangsefni og flestar persónugerðir sem hann síðar fágaði og mótaði af fullþroska snilld. Auralaus yfirstétt, yfirvofandi gjaldþrot, menntamenn þrúgaðir af eigin getuleysi í lífinu, hlægilegir eldri menn, drykkfelldir læknar, fjálglegar og innihaldslausar ræður um göfgi vinnunnar, vonlaus ást. Lífsleikni er lítt gefin fólkinu hans Tsjekhovs.

Fólkið sem safnast í kringum hina töfrandi en illa skuldsettu Önnu Petrovnu á sveitasetri hennar á hverju sumri er af þessu Tsjekhovska sauðahúsi, og Platanov er bæði fíflið og riddarinn við hirðina. Frekar óheppileg blanda því þegar hann þarf að velja milli kvennanna sem elska riddarann velur fíflið þær allar með tilheyrandi fyrirgangi. Tsjekhov reyndi aldrei síðar að skrifa farsa, en sum atriði Platonovs sýna að það hefði ekki vafist fyrir honum frekar en annað. Leikgerð Ólafs Darra er fjórða útgáfa verksins sem ég hef séð og þær eru ótrúlega ólíkar innbyrðis. Villihunang, leikgerð Michael Frayn, leggur mest upp úr farsanum, en hin ómótstæðilega kvikmyndagerð, Sjálfspilandi píanó, nær best inn að kvikunni.

Að óreyndu mætti ætla að óheflað æskuverk á borð við þetta sé heppilegra viðfangsefni fyrir unga og óreynda leikendur sem ættu erfitt með að sýna og fela í senn þann undirtexta sem spennan í síðari verkum Tsjekhovs byggir á. Galgopaskapurinn og fjörug atburðarásin í Platonov ætti að henta betur. Leikstjóri þessarar sýningar hefur hins vegar valið leið hófstillingar og fágunar og verður það óneitanlega á kostnað krafts og leikgleði. Eins hefði Ólafur Darri þurft að leggja meiri rækt við að móta persónur og gera afstöðu þeirra skýrari. Of mörg lykilandartök fara forgörðum vegna þess að á þetta skortir.

Ekkert skortir hins vegar upp á fágun og umgjörð. Glæsileg leikmynd og búningar ásamt bráðskemmtilegri tónlist setja sterkan svip á sýninguna. Og á þeim augnablikum sem sýningin sleppir fram af sér beislinu sést hvaða möguleikar eru fyrir hendi í verkinu og hópnum. Framsögn er með örfáum undantekningum prýðileg. Það er samt eiginlega ekki sanngjarnt að leggja dóm á frammistöðu einstakra leikara á grundvelli þessarar sýningar. Hæfileikana vantar ekki, hér eru þeir einfaldega vannýttir. Við býðum spennt framhaldsins.