fimmtudagur, mars 19, 2020

9 líf

Leiktexti og leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Tónlist og söngtextar: Bubbi Morthens. Útsetningar og tónlistarstjórn: Guðmundur Óskar Guðmundsson. Danshöfundur: Lee Proud. Dramatúrg: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson og Þórður Gunnar Þorvaldsson. Myndband: Elmar Þórarinsson og Andri Björn Birgisson. Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir. Raddþjálfun: Kristjana Stefánsdóttir. Kórstjórn: Sigríður Soffía Hafliðadóttir. Kórar söngskólans Domus Vox, Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora. Skólastjóri Margrét Pálmadóttir. Hljómsveit: Aron Steinn Ásbjarnarson, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Þorvaldur Þorvaldsson og Örn Eldjárn. Leikendur: Aron Már Ólafsson, Björn Stefánsson, Esther Talía Casey, Halldóra Geirharðsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Rakel Björk Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Baldur Björn Arnarsson, Gabríel Máni Kristjánsson og Hlynur Atli Harðarson. Dansarar: Katrín Mist Haraldsdóttir, Sólbjört Sigurðardóttir og Sölvi Viggósson Dýrfjörð. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn 13. mars 2020.

Lítill drengur gleymdi sér

Þetta hefði svo auðveldlega getað farið illa. Þetta hljómaði eins og ansi hæpin hugmynd þegar hún var kynnt: að búa til söngleik byggðan á ævi og tónlist Bubba Morthens. Í fyrsta lagi: er eitthvað ósagt um þann mann? Eitthvað sem við vitum ekki frá fyrstu hendi um þennan óstöðvandi sagna- og tjáningarmann sem hefur staðið í forgrunni á þjóðarsviðinu síðan áður en við af miðaldrakynslóðinni fermdumst? Og annað: verður þetta ekki bara tákrullandi stórhittarasjó með mishæpnum afsökunum fyrir því að flytja helstu smelli? Og talandi um þá: hver á eiginlega að syngja þessi lög svo eitthvert bragð verði að sem jafnast á við eða minnir allavega á meistarann sjálfan?

En þetta fer allt vel. Oftast á algerlega óvæntan og og stundum mótsagnarkenndan hátt. Eitt er nú að auðvitað er það ekkert endilega verkefni leikhússins að segja okkur einhver ný tíðindi. Heldur einmitt að minna okkur á, spegla og kryfja það sem við þegar vitum. Þannig verða alþekktir áfangar í lífi stjörnunnar, sigrar og skipbrot í bland við skondnar atvikssögur, tilefni til upprifjunar og endurmats í nýju samhengi.
Frumsýningarsalurinn rifnaði til dæmis þegar barnungum Ásbirni var sett fyrir að skrifa orðið „bomba“ á skólatöfluna, vitandi fullvel hvernig það myndi fara. Og já, auðvitað eru stórsmellirnir eins og vörður á leiðinni. Vitaskuld hefði aldrei komið til greina að sniðganga Ísbjarnarblús, Hiroshima, Afgan, Rómeó og Júlíu eða Blindsker. En samhengið er alltaf rétt og stundum óvænt. Og notkun á minna þekktum lögum oft brilljant: að grafa upp hið sniðuga og lúmskt sjálfshæðna Ég hata þetta bít til að fylgja útúrkókuðum Bubba á veiðilendur Safari þegar fyrstu endalokin nálgast. Eða teikna sögusvið upphafsins með hinni stórkostlegu og sjaldheyrðu Dauðakynslóð Egósins.

Eftir á að hyggja var líka ástæðulaust að hafa áhyggjur af handritsgerðinni. Afrek Ólafs Egils Egilssonar í Elly sýndi okkur að þetta gerir hann öllum betur: að fella saman framvindu og fyrirframgefna tónlist þannig að hvort styðji, spegli, dýpki og ögri hinu. Og varðandi þetta með að fylla fótspor mannsins: auðvitað er það ekkert hægt. En það þarf heldur ekkert. Að deila verkefninu, persónunni, í marga hluta, lauslega eftir tímabilum og enn lauslegar eftir eiginleikum og afstöðu er ein leið, og að henni valinni opnast ótal tæknilegir möguleikar sem hér eru þaulnýttir til að ýta undir þá tilfinningu að við séum að deila sögunni. Sögu sem við erum löngu farin að líta á sem sameign okkar hvort sem er. Þessi uppdeiling fríar sýninguna líka að mestu undan þeim eðlislæga vanda að það er ekki hægt að leika að maður hafi rokkstjörnuútgeislun.

Fyrir vikið gátu Bubbarnir einbeitt sér að því að lifa persónuna og búa í aðstæðum hennar, og leystu það öll framúrskarandi vel, frá dásamlegum litla-Bubba Hlyns Atla Harðarsonar til vígamóðs sátta-Bubba Vals Freys Einarssonar með viðkomu hjá ólgandi reiða-Bubba Rakelar Bjarkar Björnsdóttur, ómótstæðilega gúanó-Bubba Arons Más Ólafssonar, tryllta utangarðs-Bubba Björns Stefánssonar, kókdrifna egó-Bubba Halldóru Geirharðsdóttur, brotthætta edrú-Bubba Hjartar Jóhanns Jónssonar og gráthlægilega góðæris-Bubba Jóhanns Sigurðarsonar. Góðu heilli var ákveðið að láta ekkert þeirra herma eftir þessum næst-eftirhermdasta manni Íslandssögunnar, en áhugafólk um þá list fær engu að síður sitthvað fyrir snúð sinn: smámyndir af þjóðþekktu fólki birtast hér og þar, frá dýrðlegri Silju Aðalsteinsdóttur Estherar Talíu Casey til morðfyndins Þórarins Tyrfingssonar frá Jóhanni, en auk allra Bubbanna bregða þau sér öll í ýmis hlutverk í því sameiginlega verkefni að rekja þessa miklu sögu. Allt gengur þetta lipurlega og fallega fyrir sig. Eftirminnilegir hápunktar eru margir og fleiri rifjast upp eftir því sem lengra líður. Vert er að geta sérstaklega túlkunar Estherar Talíu á móðurinni Grethe. Flutningur hennar á Talað við gluggann eitt af mörgu í sýningunni sem grætti mann og gleymist seint.
Annars hvílir áhrifamáttur Níu lífa merkilega lítið á tilþrifum, hvað þá fullkomnun, í flutningi laganna. Enginn Bubbanna er þarna á þeim forsendum að vera söngleikjahetja eða rokkguð og þau nálgast tónlistina öll á sínum forsendum, syngja með sínu nefi. Það kemur aldrei að sök en gefur tóninn, ef svo mætti segja, um hverskonar sýning þetta vill vera. Og varpar stundum óvæntri birtu á eitthvað sem maður var hættur að heyra, eins og t.d. þegar Halldóra, einn næmasti textaleikari okkar, lætur mann hlusta á Fjöllin hafa vakað eins og í fyrsta sinn eftir öll þessi ár, og í dúett-útgáfunni af Rómeó og Júlíu í meðförum Arons og Rakelar. Eða þá uppbrotið með Stál og hníf, sem mann langar ekki að kjafta frá hvernig er.

Alla hina ólíku hljóðheima fangar stórfín hljómsveitin undir stjórn Guðmundar Óskars Guðmundssonar. Einna síst frumkraft Utangarðsmanna. Pönkið lætur illa að stjórn og þegar það er komið í bönd leikhússins er það ekki lengur það sjálft. Það myndi kannski hjálpa að hækka bara duglega í hljóðkerfinu. Það er ekki á hverjum degi sem ég bið um það.

Kóreógrafía Lee Proud þjónar sýningunni fullkomlega og styður hana í að verða aldrei einbert söngleikjasjó. Dansararnir þrír, Katrín Mist Haraldsdóttir, Sólbjört Sigurðardóttir og Sölvi Viggósson Dýrfjörð, gefa hárrétta orku í heildina og gegna mikilvægum smáhlutverkum hér og þar, og það sama má segja um stúlknakórinn. Ein af þessum hugmyndum sem maður skilur ekki alveg og getur ekki greint vitrænt, en virkar þegar maður mætir henni.

Umgjörðin vinnur vel í þágu þessarar miklu og margþættu sögu. Í glæsilegu afmælisljóði Hallgríms Helgasonar í leikskránni er Bubba líkt við fjall og þau eru nokkur hér hjá Ilmi Stefánsdóttur og reynast til ýmiss nýtileg. Allt flæðir fumlaust upp og niður hlíðarnar, hvort sem það er fiskvinna eða kassagerð, og þeim mun sterkari áhrifin þegar allt er skyndilega horfið af sviðinu og sögunni víkur að Staðarfelli. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar meistaraleg og mikilvæg. Búningar Filippíu I. Elísdóttur pottþéttir, og halda skemmtilega til skila íkonískum fötum á borð við frakkann með loðkraganum og GCD-skyrturnar. Að ógleymdum fölgulu sólgleraugunum.

Meira að segja fötin eru kafli í samtímasögunni. Partur af okkur. Og þegar maðurinn birtist sjálfur undir lok frumsýningarinnar, eftir að farginu hafði loks verið svipt af sálinni, og tók undir í lokasöngnum, var okkur auðvitað öllum lokið. Fullur salur af ást, virðingu, hugrekki og listfengi.

Þetta hefði getað farið illa en gerði það svo sannarlega ekki.