þriðjudagur, október 24, 2017

Guð blessi Ísland

Eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Sunneva Ása Weisshappel. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Danshöfundur: Aðalheiður Halldórsdóttir. Tónlist: Katrín Hahner. Hljóð: Baldvin Þór Magnússon. Leikgervi: Sunneva Ása Weisshappel og Elín S. Gísladóttir. Myndband: Elmar Þórarinsson. Leikarar: Aðalheiður Halldórsdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Brynhildur Guðjónsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Halldór Gylfason, Hilmar Guðjónsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Örn Árnason. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn 20. október 2017.

Óreiðumenningin

Eins og gjarnan á sýningum Þorleifs Arnar Arnarssonar er eitt lykilaugnablik hennar utan hefðbundins sýningartíma. Í hléi rúlla fréttamyndir frá hrundögum, í kringum fall Glitnis, og rétt áður en leikarar hefjast handa á ný er þar talað við Þorstein Má Baldvinsson, stjórnarformann bankans. Hann er harla óhress með að vera búinn að missa bankann sinn og jafnvel harðmæltari en hversdags og þegar hann er spurður hvort hann sjái einhverja sök hjá bankanum, eitthvað í framferði og stefnu sem hefði átt þátt í því hvernig fór, fer hann með hina klassísku trúarjátningu valdakalla með allt niðrum sig: að það sé óþörf og fráleit tíma- og orkusóun að horfa til baka. Auðvitað gerir hann það. Af þeirri heiðbjörtu, manni liggur við að segja helbláu, sannfæringu sem leikari í absúrdleikriti þarf alltaf að leggja í replikkurnar sínar.

Á níu ára afmæli þessa viðtals erum við enn að horfa til baka, og sér ekki fyrir endann á því verkefni. Enn er eins og hrunið hafi bæði verið rætt í kaf, krufið til mergjar, og svo á hinn bóginn alls ekki greint eða skýrt nægjanlega. Það er enn að „þvælast fyrir okkur“. Stundum erum við líklega aðeins líkari Pétri Gunnlaugssyni á sínu frægðarkorteri á blaðamannafundinum í Iðnó en við kærum okkur um að vita. Tilbúin að fullyrða og slá föstu einhverju sem byggist meira á óskhyggju og afstöðu en staðreyndum. Það er svo yfirþyrmandi mikið af þeim. Rannsóknarskýrslan er yfir 2.000 síður og segir ekki allt. Pétur fær að vera með í sýningunni, Örn Árnason fer glæsilega með korterið. Fyndið. Fyndnara en fyrirmyndin, sem er auðfundin á YouTube? Eiginlega ekki.

Hvað getur leikhúsið gert? Alltaf er það nú lykilspurningin í verkum Þorleifs og Mikaels Torfasonar, að minnsta kosti jafnfætis hverju því efni sem vinna skal úr og miðla. Hvernig nýtast möguleikar formsins, tækni leiksviðsins og aðferðir sviðslistamanna við rannsókn og framsetningu efnisins? Við því fæst auðvitað ekki endanlegt svar núna, frekar en endranær. Atriðin í þessari revíuformuðu sýningu hitta sum í mark, önnur síður. Eitt hittir þennan áhorfanda en segir sessunaut hans ekki neitt. Svo kemur nýtt. Einn hlær hér, annar þar. Þetta er Skaupið. Er þetta fyndnara eða beittara en skaupin eftir hrun? Eiginlega ekki. En dýpra? Sannara? Ég er ekki heldur viss um það.

Ég veit ekki heldur hvort það er ósanngjörn nýjabrumsgræðgi í mér að finnast sumt af aðferðunum og nálguninni sem naut sín svo vel í Njálu og Álfahöllinni ekki vinna af nægjanlegum krafti fyrir kaupinu sínu hér. Kitsuðu skrautbúningarnir hennar Sunnevu Ásu Weisshappel til dæmis. Og það hvernig leikararnir sjálfir birtast okkur meðfram persónunum sínum. Áreitisofgnótt sem stundum hellist yfir í umgjörð, leikmunum, tónlist, myndböndum og lýsingu. Og ekki síst sú gegnumgangandi afstaða að helst þurfi allt að orka tvímælis. Allt þurfi að hverfast í kaldhæðni, speglast í afstöðu leikendanna, haldast opið á einhvern hátt. Dæmi um þetta í Guð blessi Ísland er hvernig móðursýkisleg og ýkt túlkuð reiðiköst ómerkja sjálfshjálparræðu Björgúlfs Thors (eins og þess væri nú þörf). Annað er þegar Ingibjörg Kristjánsdóttir flytur sína klisjulegu fjallgöngupredikun en missir sig aftur og aftur í bræðiköst yfir hlutskipti eiginmannsins, Ólafs Kvíabryggjufanga.

Skemmtilegasta hugmyndin í sýningunni, sú sem mesta eldsneytið er í, er góðu heilli ein þeirra sem er gegnumgangandi. Lottóhugmyndin. Hvernig stöðugt er verið að draga í Lottóinu, við minnt á til hve mikils sé að vinna og gefið skemmtilega í skyn að stundum sé kannski vitlaust gefið. Einkum þó hin brilljant lína sem endurtekur sig nokkrum sinnum í ólíkum myndum: að það sé hægt að vera góður í Lottói. Að sigur í þessum leik líkindanna sé í krafti einhverra verðleika. Er trú á þessa firru kannski kjarninn í ógæfunni? Ætli mitt eftirlætisatriði í Guð blessi Ísland verði ekki hinn klaufski og augljóslega snaróheiðarlegi Ólafur Ólafsson Hilmars Guðjónssonar að stýra þessari vél.

Versta atriðið er síðan aðdragandinn að fyrrnefndri ræðu Kvíabryggjugrasekkjunnar, þegar leikhópurinn flytur tónverk sem afsökunarbeiðni til þýskra banka fyrir tap þeirra á viðskiptum við snillingana okkar. Ef maður setur upp greiningargleraugun má alveg lesa út úr því einhverja meiningu um innistæðulaust sjálfsöryggi fólks sem veit ekkert hvað það er að gera. Eða jafnvel einhverja pína banal túlkun á „falskri iðrun“. Aðallega er það samt bara leiðinlegur hávaði, blessunarlega stuttur.

Í heildina er sjónarhorn sýningarinnar merkilega þröngt. Hér er lítið sem ekkert grúskað í aðdragandanum; hinum sögulegu, hagfræðilegu eða sálrænu djúprótum hrunsins. Kannski eins gott, því mikið skelfilega er vandræðalegt að sjá montnu Kaupthinking-auglýsinguna og að þurfa enn og aftur að sitja undir eðlishyggjuþvælunni úr Ólafi Ragnari og Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Að öðru leyti erum við að mestu stödd síðustu sólarhringana í aðdraganda yfirtöku Glitnis og síðan í áfallastreitu og eftirmálunum eins og þau horfa við helstu leikmönnum. Útrásarvíkingum og svo manninum sem mætir á svæðið með goðsagnakenndum stæl undir eigin þematónlist snemma leiks.

Það er einhvern veginn allt í senn: óþolandi, óhjákvæmilegt og stórkostlegt að Davíð Oddsson skuli yfirtaka þessa sýningu eins og hann tók yfir banka óreiðumannanna. Það segir sig sjálft að það var óhjákvæmilegt. Stórkostlegt er það vegna þess hvernig bæði handritshöfundur og leikkona fara á kostum í að vinna úr efniviðnum. Óþolandi vegna þess að þrátt fyrir allt plássið sem hann tekur þá eru varla nokkur spurningarmerki sett við nokkuð sem hann segir eða gerir, alla vega ekki af neinum marktækum persónum; hér hafa allir eigið skinn að verja. Það fellur utan verkefnis sýningarinnar – Guð blessi Ísland er ekki um einkavæðingu, nýfrjálshyggju, reiðareksstefnu í eftirlitsmálum eða Eimreiðarhópinn – og svo er þetta jú hann Davíð og við vitum hvernig hann er.

Og hvílíkur Davíð! Hvernig Brynhildur Guðjónsdóttir nær í alveg hæfilega mikið af kækjum og einkennum þessa auðþekkta manns, hvernig Mikael Torfason hefur augljóslega notið þess að nostra við málsniðið, hvernig Brynhildur hefur öll völd á sviðinu þegar hún kærir sig um, dyggilega studd auðvitað af leikhópnum. Hvernig allt sem hún segir er alltaf svo augljóslega það eina rétta. Og síðast en ekki síst, þegar Davíð lætur svo lítið að ræða við leikarana sjálfa. Þar sést þó að það er enn bensín á þeirri brellu að færa til skilin milli leiks og „raunveruleiks“.

Að öðru leyti er farið hæfilega kæruleysislega og „pragmatískt“ með umbreytingu leikhópsins í þekktar persónur. Það er til dæmis dálítið fyndið hvernig Kristín Þóra Haraldsdóttir virðist nánast enga tilraun gera til að líkjast Hannesi Hólmsteini, en verður stundum talsvert lík öðrum talsmanni og varðhundi, Sean Spicer í túlkun Melissu McCarthy. Kannski útsmogin og vel útfærð vísun, mögulega samt bara tilviljun. Aðallega er aðdáunarverð samvinnuorka og sannfæring í leikhópnum og fimin við að hoppa í og úr hlutverkum, og koma þess á milli „nakin fram“ í eigin persónu leikur í höndum þeirra allra.

Þau syngja líka fallega. Mér finnst samt vanta svolítið upp á sniðugheitin í lagavali. Upphafshluti „Bohemian Rhapsody“ smellpassar auðvitað, en setur samt einhvern veginn ekkert nýtt svif á hugsanir okkar um hrunið. Við vitum vel að það orkar mjög tvímælis hvort það var „real life“ eða „fantasy“. Okkur leið – og líður sumum enn – eins og við séum „caught in a landslide“. Revíur þurfa beittari gamanvísur en þessa.

Guð blessi Ísland er kraftmikil sýning, stundum fyndin, sjaldnast hugvekjandi, fimlega leikin, útfærð og hönnuð á öllum póstum. Íburðarmikil revía sem minnir okkur á nokkur mikilsverð atriði varðandi þennan þáttaskilaatburð í Íslandssögunni, en það er lítið um nýja eða spennandi vinkla. Spurningunni um hvað leikhúsformið hefur til málanna að leggja er enn ósvarað, en atlögur Þorleifs, Mikaels og félaga þeirra að svari halda áfram að vera áhugaverðar.