fimmtudagur, september 22, 2016

Maður sem heitir Ove

Eftir Fredrik Backman í leikgerð Emmu Bucht, Johans Rheborg og Marie Persson Hedenius. Íslensk þýðing: Jón Daníelsson. Leikstjórn: Bjarni Haukur Þórsson. Leikmynd og búningar: Finnur Arnar Arnarson. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson. Tónlist: Frank Hall. Hljóðmynd: Frank Hall og Kristján Sigmundur Einarsson. Leikari: Sigurður Sigurjónsson. Frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 17. september 2016, en rýnt í aðra sýningu sunnudaginn 18. september.

Lestir og kostir

Helsti veikleiki metsölubókarinnar um þverhausinn Ove er hve formúlukennd og fyrirsjáanleg hún er. En kannski samt helst hversu áreynslulaus fléttan reynist. Hversu auðveldlega þessi lífsdagasaddi leiðindapúki snýst á sveif með lífi í sátt og samlyndi við skrautlegt mannlífið í kring. Hann fær ekki einu sinni að vera sannfærandi rasisti eða hommahatari þegar á reynir, sem óneitanlega hefði sett sterkara krydd í kássuna. Þegar sagan af Ove er sögð á innan við einum og hálfum tíma af einum leikara hætta þessir annmarkar að skipta máli, verða jafnvel að gagni við að gleðja áhorfandann. Ekki síst þegar haldið er á spilum af jafn miklu öryggi og hér er gert. Af þessu má örugglega draga einhverjar ályktanir um eðlismun prentgripa og leiksviða. Það er líka hægt að láta það eiga sig.

Allt veltur þetta á titilpersónunni. Reyndar gerir einleiksformið verkefnið bæði auðveldara og erfiðara fyrir leikarann. Einn helsti styrkur bókarinnar er hin háðska en hlýja afstaða sögumanns til Ove. Þegar snjallyrði sögumanns eru lögð persónunni sjálfri í munn verður hún aðeins meðvitaðri um „ástand“ sitt en Ove bókarinnar virðist vera. En á móti fær hann úr ýmsu góðu að moða af skemmtilegheitum.

Þetta er kostulegur karakter. Drifkraftur sögunnar er auðvitað hversu illa Ove er í húsum hæfur, en ef við skrúfum hann í sundur og skoðum partana (eins og Ove myndi gera sjálfur) koma eiginlega eintómar gamaldags dyggðir í ljós. Sumar mætti kalla „borgaralegar“: reglusemi, stundvísi, sparsemi. Aðrar: orðheldni, æðruleysi, þrautseigja, handlagni, hefðu einhvern tímann verið kallaðar „karlmannlegar“.

Það er svo til marks um hvert heimurinn er kominn að þegar allir þessir kostir eru saman komnir virka þeir eins og lestir. Eða jafnvel einhvers konar röskun. En allt verður þetta mjög hratt og örugglega sjarmerandi þegar hrúðurkarlinn gengur í lið með nágrönnum sínum, ýmist vegna eigin undirliggjandi gæsku eða fyrir áhrif frá hinni látnu en heittelskuðu eiginkonu. Sonja gegnir hálfgerðu Kristshlutverki í siðfræði verksins. Ove reynir að breyta eins og hún, eða í það minnsta eins og hann ímyndar sér að vekti velþóknun hennar. Og svo þráir hann ekkert heitar en að hverfa til hennar yfir í sælli veröld.

Aðallega er það svo frammistaða leikarans sem gerir þetta sjarmerandi. Sigurður Sigurjónsson fer listilega með sitt helsta verkefni, að verða Ove lifandi kominn. Líkt og persónan, sem býr að ævilangri þjálfun sem er orðin að inngróinni færni í að bakka með kerru og fást við dyntótta ofna, mætir Sigurður til leiks með starfsævilanga reynslu af kallasmíði. Við vonum bara að hann hnussi ekki jafn áberandi að yngri kollegum sínum þegar þeir svitna af áreynslunni við að ná sömu áhrifum við að vekja hlátur og framkalla tár, sem hvorttveggja lék í höndum leikarans.
Sigurður kann öll tímasetningartrikkin og veit að undir öllu þarf að krauma alvöru samlíðan með persónunni til að hlátrarsköllin verði hlý og tárakirtlarnir fái líka sína örvun. Þetta gengur allt upp.

Vel mætti hugsa sér að þeir Bjarni Haukur Þórsson, leikstjóri og samverkamaður leikarans til margra ára, hefðu mátt nostra aðeins meira við aðrar persónur sem Sigurður þarf að bregða upp til að fleyta sögunni áfram. Það er reyndar líka veikleiki frá höfundarins hendi hvað allt þetta skrítna fólk umhverfis Ove er þolinmótt og uppbyggilegt í samskiptum við hann frá fyrstu stund. Ekki síst, en ekki bara, hin goðumlíka en merkilega sviplitla persneska nágrannakona Parvaneh, sem svo sannarlega hefði átt skilið að fá litríkari mynd af sér í stúdíói Sigurðar og Bjarna.

Leikmynd Finns Arnar Arnarsonar þykir mér sérkennileg smíð. Finnst eiginlega að hinn stolti handverksmaður og þúsundþjalasmiður Ove, sem býr í hálfgerðu safni – musteri – til heiðurs hinni dáðu eiginkonu eigi skilið meira en einn bakvegg, tilbúinn undir tréverk. Einhver lausn sem hefði skapað fjölbreyttari sviðsetningarmöguleika hefði líka unnið með sýningunni. Og hið sjálfspilandi píanó fannst mér ekki réttlæta nærveru sína á nokkurn hátt.

En þetta er fyrst og síðast sýning leikarans, eins og viðeigandi er þegar þjóðargersemi á borð við Sigurð Sigurjónsson fagnar fjörutíu árum á sviðinu. Viðfangsefnið hentar Sigurði ákaflega vel og hann skilar þessum einkennilega, og einkennilega ástsæla Svía frábærlega. Drepfyndinn þegar þess er kostur, ekki síst í því hvernig hann smjattar á bíltegundanöfnum, nokkuð sem verður fljótt þreytandi leiðarstef í bókinni en fær vængi hér. Og sannfærði mann líka um hjartað sem slær innra með Ove, en þó kannski aðallega undir vel hirtu leiði Sonju heitinnar.

Um það vitnuðu snöktin í salnum milli hlátranna.