fimmtudagur, febrúar 25, 2016

Píla Pína

Eftir Heiðdísi Norðfjörð, byggt á ævintýri Kristjáns frá Djúpalæk. Tónlist: Heiðdís Norðfjörð og Ragnhildur Gísladóttir. Leikgerð: Sara Marti Guðmundsdóttir og Sigrún Huld Skúladóttir. Leikstjórn: Sara Marti Guðmundsdóttir. Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Kór: Eldri barnakór Akureyrarkirkju, en kórstjóri er Sigrún Magna Þórsteinsdóttir. Leikmynd og brúðuhönnun: Rebekka A. Ingimundardóttir. Búningar og gervi: Margrét Einarsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarsson. Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson og Þóroddur Ingvarsson. Myndband: Ingi Bekk. Danshöfundur: Katrín Mist Haraldsdóttir. Teiknarar: Dan Denton og Ana Stefaniak. Grímur: Sigríður Rósa Bjarnadóttir og Sif Guðmundsdóttir. Leikarar: Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir, Þórunn Lárusdóttir, Benedikt Karl Gröndal, Saga Jónsdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Eik Haraldsdóttir, Eyþór Daði Eyþórsson, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Freysteinn Sverrisson og Jón Páll Eyjólfsson. Frumsýnt 7. febrúar, en rýnt í sýningu 21. febrúar 2016.

Ljúf stund í músaheimum

Vinir mínir sem eru svona tíu-fimmtán árum yngri en ég eiga eitt sameiginlegt: Þeir verða væmnir og voteygir þegar músasaga Heiðdísar Norðfjörð og Kristjáns frá Djúpalæk berst í tal. Eru þetta þó upp til hópa hin mestu hörkutól dags daglega. En það er eitthvað í þessari hugþekku sögu sem hefur náð til þeirra áður en karlmennskan setti sitt mark á hjörtun. Hjartað er svo eitt leiðarstef verksins. Hvernig við eigum að hlusta á það, næra það og sækja til þess bæði visku og styrk.

Líklega gegnir tónlistin þarna lykilhlutverki. Lög Heiðdísar og Ragnhildar Gísladóttur eru framúrskarandi og hin minnisstæðustu þeirra í fremstu röð í ágætu safni íslenskra barnalagaperlna. Flutningur laganna í sýningu Menningarfélags Akureyrar er lýtalaus, bæði söngur og spilamennska. Þessi tónlist kallar ekki beinlínis á íburðarmiklar útsetningar eins og þær sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hefur búið þeim hér, en þær drekkja heldur ekki hinum lagræna þokka.

Almennt má segja að mikið sé í þessa sýningu lagt. Leikhópurinn allstór, leikmynd og lýsing falleg og smekkleg notkun myndbandatækni stækkar hana umtalsvert. Búningar og gervi sérlega falleg í hinum hefðbundna, rómantíska stíl sem best þykir henta barnaleikritum með dýrum í aðalhlutverki, ekki bara Egner. Ég set spurningarmerki við brúðunotkunina, hún hefði að mínu mati þurft að vera mun inngrónari hluti af aðferð sýningarinnar til að réttlæta sig, en það væri líka lítil eftirsjá í þeim þó vel væri á þeim haldið í sjálfu sér.

Það hefur líka verið ráðist í að auka efni í söguna sjálfa og má segja að það hafi verið nauðsynlegt. Þrátt fyrir allan sinn þokka er sagan óneitanlega í rýrara lagi til að réttlæta heila leiksýningu þar sem öllu er tjaldað til. Ferð músarstelpunnar Pílu pínu úr öryggi Lyngbrekkunnar í leit að móðurfjölskyldunni og heim aftur full-áreynslu- og hnökralaus, lausnin of auðfengin. Þó eru þarna forvitnilegir þættir innan um. Harðneskjan í þröngum heimi bæði haga- og húsamúsa og tortryggni í garð ókunnugra svo sannarlega viðeigandi viðfangsefni, en bráðna full-auðveldlega í ylnum frá heitu hjarta söguhetjunnar. Og hinn sí-nálægi dauði sem talað er um af óvenjulegu hispursleysi, og sungið um í frábæru lagi, þó viðtakendur séu ungir að árum.

Viðbæturnar hjálpa líka upp á að auka frásagnarspennuna. Einkum samband Pílu við hinn vængbrotna Kidda krumma sem minnir á hina gömlu sögu um Andrókles og ljónið og er annað lóð á vogarskál hins tímabæra boðskapar um sátt og samlyndi við hina ókunnugu og öðruvísi. Sagan á síður efni til að útlista á sannfærandi hátt hitt meginerindi sitt; að vilji, þor og trú sé það sem þarf til að gera alla vegi færa, jafnvel fyrir litla mús. Fallegur boðskapur samt.

Þá létti kostulegt par úr mannheimum heldur betur stemminguna í þéttsetnum salnum. Þó það atriði væri eins og aðskotahlutur úr öðru verki gerði það í raun ekkert til – heimar manna og músa eru jú af ólíku sauðahúsi.

Þar sýndi Benedikt Karl Gröndal ágætis tilþrif í svolítið groddalegum grínleik, prýðilega studdur af Þórunni Lárusdóttur sem einnig var fallega mædd Gína, flóttamúsin, móðir Pílu. Og vel fór hún með þekktasta lag verksins, saknaðarsönginn undurfallega. Benedikt var líka faðir Pílu, sem ekki er feitur hlutverksbiti, en meira gaman var af hrafnaparinu illyrmislega sem hann myndaði með Jóni Páli Eyjólfssyni í stuttu en kröftugu atriði.

Það er langt síðan ég hef séð Sögu Jónsdóttur á sviði og hún sýndi okkur tvær mýs. Hugnæm sem amman af ætt húsamúsa og kostuleg sem hin taugastrekkta kennslumús Vera fróða.

Kjartan Darri Kristjánsson fékk einnig tvö hlutverk. Kiddi krummi pínu ógnvekjandi en meira aumkunarverður og svo rændi Kjartan senunni sem vel útfærð og bráðfyndin margfætla.

Það kemur síðan í hlut Thelmu Hrannar Sigurdórsdóttur að bera herlegheitin uppi í titilhlutverkinu og gerir það með sóma og sjarma. Falleg nærvera og söngrödd sjá til þess að áhorfendur eru með Pílu alla leið.

Hópur yngri leikara fer snoturlega og snurðulaust með smærri hlutverk systkina og frændsystkina hennar.

Þetta er sem sagt allt frekar ljúft. Örlítils textaóöryggis gætti reyndar í upphafi, sem vera má að stafi af því að langt líður milli sýninga. Verkið sjálft er líka á mörkunum að halda dramatískum dampi eins og áður sagði. Einnig má velta því fyrir sér hvort Sara Martí Guðmundsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, hefði átt að leyfa aðeins meiri ærsl, taka örlítið meiri áhættu í sviðsetningunni. En notaleg er sýningin, mjúk og blíð.