miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Sextán

Nemendamót Verzlunarskóla Íslands. Höfundur: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjóri: Selma Björnsdóttir. Aðstoðarleikstjórar: Rúnar Freyr Gíslason og Nanna Kristín Magnúsdóttir. Tónlistarstjórar: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Vignir Snær Vigfússon. Austurbæ 21. febrúar 2007.

Gelgja


ÞAÐ GÓÐA við nýjustu stórsýningu Verzlunarskólans er að helstu einkenni þessa merka menningarfyrirbæris eru á sínum stað. Hér er söngur og dans af þeim gæðastaðli að undrun og aðdáun vekur í hvert sinn, sérstaklega þegar mannmergðin á sviðinu er skoðuð. Þá bætir leikurinn það upp með krafti og skýrleika sem hann skortir kannski í dýpt og innlifun, og svei mér þá ef þetta er ekki jafnbest leikna Verzlósýning sem ég hef séð og á að auki sína stjörnu í Ólöfu Jöru S. Valgeirsdóttur, sem fer með aðalhlutverkið af miklu öryggi og sviðssjarma. Verzlingar hafa hins vegar aldrei komist upp á lag með að gera nothæfar leikskrár, þannig að ekki verður gerð tilraun til að ráða í leikaramyndir til að útdeila frekara lofi. Nema þá til leikstjórans sem hefur unnið gott verk. Þó verðskuldar hrós drengurinn sem lék hin síbjartsýna lúða Gogga, hvað sem hann heitir.

Það sem helst reynist sýningunni mótdrægt í að heilla mann er því miður handritið. Það fylgir að sönnu þeirri formúlu sem hefur verið brúkuð undanfarin ár, að flétta sögu í kringum nokkur vinsæl lög, gjarnan þematengd. Vinnubrögð sem ættu að henta skopskyni og hæfileikum Gísla Rúnars einkar vel. En því miður er fléttan svo losaraleg að sagan vekur aldrei áhuga og söngtextarnir við lögin (íslensk dægurlög að þessu sinni) ýmist látnir óbreyttir, sem oft verður ankannalegt, eða þá skortir þá hugkvæmni sem ætlast má til af jafnsnjöllum textasmið.

Verst er þó að persónurnar eru nánast undantekningarlaust svo grunnhyggnar, sjálfhverfar, fordómafullar og jafnvel illgjarnar að það er erfitt að hafa með þeim samúð eða á þeim áhuga. Húmorinn í samtölunum stígur of oft niður úr leyfilegri lágkúrunni og verður óþægilega andstyggilegur. Kannski er ég að verða gamall. En hvað, ég er yngri en Gísli.

Þessi glæsilegi og hæfileikaríki hópur á betra skilið. Sérstaklega þegar litið er til þess hvað þeim tekst að skila gölluðum efnivið af miklum sannfæringarkrafti sem fleytir sýningunni upp í það að vera ágætis skemmtun, einkum í söng- og dansatriðum.