þriðjudagur, janúar 09, 2007

Blúskóngur mærður

[Listapistill]

Menningarlíf utan höfuðborgarsvæðisins stendur í blóma. Það á ekki síst við um sviðslistir. Auk hefðbundinnar starfsemi áhugaleikfélaganna, sem mörg hver eru að hefja vinnu við sýningar leikársins, er gleðilega viðbót við þá merku starfsemi að finna víða. Kómedíuleikhús Elvars Loga Hannessonar er gott dæmi og nýlega sá undirritaður ansi hreint athyglisverða sýningu á sveitakrá í Reykjadal norður. Þar komu saman burðarásar úr leikfélagi Húsavíkur og Umf. Eflingar og settu á svið einþáttung úr smiðju eins félagans. Remba heitir verkið og höfundurinn Hörður Benónýsson. Árangurinn var vonum framar, bráðfyndið en laundjúpt verk um lífskrísur nokkurra iðnaðarmanna, sem varð einkar áreynslulaust í meðförum úrvalsleikaranna. Og þar með áhrifamikið. Ég veit ekki hvort sýningum er lokið en ef svo er ekki er heimsókn í vinnuskúrinn til kallanna algerlega ómaksins verð. 

Áreynsluleysi er líka aðalsmerki nýrrar sýningar í Landnámssetrinu í Borgarnesi, en þar hafa Kristján Kristjánsson og Einar Kárason tekið saman höndum á ný og unnið dagskrá upp úr lífshlaupi og list KK. Landnámssetrið heldur því áfram á sinni kröftugu braut við að efla menningarlíf héraðsins. 

Form sýningarinnar gæti að óséðu áreiðanlega ært hvern óstöðugan póstmódernista. Sögumaður segir uppvaxtarsögu manns, sem sjálfur situr og hlustar á og svarar með tónlist og textum, að mestu úr eigin smiðju. Sem betur fer stóðust þeir félagar þá freistingu að gera sér sérstakan mat úr þessum óvenjulegu aðstæðum. Til þess bera þeir of mikla virðingu fyrir viðfangsefni sínu. Kristján fyrir tónlistinni og Einar fyrir sögunni. 

Útkoman er alveg töfrandi. Sennilega nýtur Einar sín hvergi betur en einmitt svona. Með nokkurn veginn ákveðið umfjöllunarefni sem hann endurskapar þó í hvert sinn, les ekki upp heldur miðlar efninu með þeim orðum sem koma í hugann í augnablikinu. Sagan er enda mögnuð, lífshlaupið á köflum óvenjulegt, en líka kunnuglegt og snertipunktaríkt við líf áheyrendanna. Sviðsetningar Einars á helstu sögusviðum ævinnar voru hver annarri ágætari, Kalifornía eftirstríðsáranna, Þingholtin á bítlaárunum, sumardvölin í Húnaþingi. Ef eitthvað á að hnýta í þá væri það helst að söguhetjan sjálf fellur eilítið í skuggann fyrir leiktjöldunum, og svo endirinn sem var óþarflega snubbóttur. En það er á við góðan dekurdag að láta segja sér sögu af svona mikilli íþrótt. 

Kannski er það einmitt tengingin við Landnámssetrið, sem gæti virst ankannalegur staður fyrir þennan viðburð. En hér var auðvitað verið að mæra konung eins og Egill og fleiri gerðu forðum og hlutu af virðingu mikla og frægð um leið og þeir héldu nafni höfðingjans á lofti. Kvæði sín fluttu þeir vitaskuld í áheyrn viðfangsefnisins. það er í þau fótspor sem Einar stígur og flytur ræðu sína um hinn íslenska blúskóng. Og Einar og við hin þiggjum síðan góðar gjafir hans. 

KK er sennilega að mestu leyti búinn til úr tónlist. Svo áreynslulaus virðist hún streyma frá honum. Átökin sem einkenna sum lögin eru alltaf úr tónlistinni sjálfri, aldrei frá honum. Hann glímir ekki við formið heldur dansar í því. Meira að segja þegar röddin er ekki alveg í eins góðu formi og hann vildi, sem kannski var raunin í upphafi leiks á laugardagskvöldið, er allt eðlilegt. Það hvað hann er lunkinn textasmiður, fimur gítarleikari og sjarmerandi „performer“ eru aukaatriði. Tónlistin er það sem skiptir máli. Og hún skilar sér. Það sama má segja um söguna sem Einar segir. Hann miðlar henni og reynir að trufla hana sem minnst. Þetta einkenni þeirra beggja leggur grunninn að því hvað samspilið verður fallegt og sýningin öll tær. Og þeir sem dýrka „virtúósítet“ og halda að þetta sé auðvelt ættu að reyna það. 

Ferð upp í Borgarfjörð er lítið ómak fyrir svona ágæta stund. Blúskonungur mærður Töfrandi „Útkoman er alveg töfrandi. Sennilega nýtur Einar sín hvergi betur en einmitt svona. Með nokkurnvegin ákveðið umfjöllunarefni sem hann endurskapar þó í hvert sinn, [...].