föstudagur, apríl 29, 2005

Blessað barnalán

Leiklistarfélag Seltjarnarness
Félagsheimili Seltjarnarness 29. apríl 2005

Höfundur: Kjartan Ragnarsson
Leikstjóri. Bjarni Ingvarsson.

Hún lifir!

HREYFIAFLIÐ í Blessuðu barnaláni er eins og löngum í gamanleikjum togstreita kynslóðanna. Unga fólkið sýnir þeim sem eldri eru enga ræktarsemi og það er ekki fyrr en hin kúgaða heimasæta lýgur upp andláti móður sinnar sem systkini hennar ómaka sig austur í fæðingarþorpið. Og gömlu samskiptamunstrin eru þarna enn þó æskuheimilinu hafi verið breytt í hótel og hver farið sína leið. Síðan gengur á með tilheyrandi veseni út af lyginni og alls kyns pínlegum uppákomum þar til tjaldið fellur.

Verkið er kannski ekki eins vinsælt verkefni nú og það var fyrir nokkrum árum, en við það að sjá hvað það verður Seltirningum efni í líflega og skemmtilega sýningu er alveg ljóst að það er hvorki úrelt né byggir vinsældir sínar á fortíðarþrá. Það er lipurlega skrifaður og áreynslulaus gamanleikur með sterku farsabragði en missir aldrei tökin á því að fjalla um fólk af holdi og blóði af hlýju og samúð. Ég hef enga trú á að þetta verk eigi nokkurn tíma eftir að falla í gleymsku. Spái því að eftir svona tuttugu ár muni fólk kalla Blessað barnalán klassík án þess að blikna.

Bjarni Ingvarsson er bæði gjörkunnugur verkum af þessum toga og þaulvanur að vinna með félögum á borð við Leiklistarfélag Seltjarnarness sem ekki státar af langri sögu og sterkri hefð þó sumir leikaranna kunni greinilega eitt og annað fyrir sér. Uppfærslan er enda hefðbundin mjög, umgjörðin með viðteknum hætti, óaðfinnanlega útfærð reyndar af leikstjóranum, og allt gengur lipurlega fyrir sig. Sýningin er heilt á litið kraftmikil og fjörug, þó einstaka leikarar ættu enn eftir að hrista af sér skrekkinn á frumsýningunni og gefa í botn. Mestu skiptir þó að kómíkinni er vel til skila haldið með góðum tímasetningum og hæfilegum hraða þegar það átti við. Fyndin tilsvör hittu í mark, framsögn öll til fyrirmyndar. Í stuttu máli sagt: þetta virkar.

Þó svo allir hafi tækifæri til að sýna skemmtilega takta, og geri það, hvílir ábyrgðin á að halda sýningunni á floti þyngst á þremur leikurum. Jóhanna Ástvaldsdóttir skilaði hlýjunni í frú Þorgerði með mikilli prýði og var aukinheldur fyndin þegar á þurfti að halda. Askur Kristjánsson er ungur að árum og greinilega efni í afbragðs gamanleikara ef marka má hinn kostulega og vandræðalega séra Benedikt sem hann skapar hér án teljandi áreynslu að sjá. Síðast en ekki síst er Guðrún Ágústsdóttir yndisleg sem hin bælda systir sem kemur öllu af stað og glímir við afleiðingarnar út verkið. Hún á samúð áhorfenda óskipta þó við hlæjum að hverjum þeim ógöngum sem höfundurinn sendir hana í af stráksskap sínum.

Þetta er fyrsta sýningin sem ég sé hjá Leiklistarfélagi Seltjarnarness. Það er óhætt að segja að þau kynni fari vel af stað. Blessað barnalán er ósvikin skemmtun af gamla skólanum, en fersk samt eins og góð leiklist er ævinlega; búin til á staðnum og því síung. Takk fyrir mig.