fimmtudagur, desember 30, 2004

Jamie Kennedy og Grindergirl

Broadway 30.12.2004

Féflett með slípirokk

UPPISTANDI á Íslandi má skipta nokkuð snyrtilega í tvennt. Annarsvegar er um að ræða þá fáu Íslendinga sem berjast við þetta erfiða sviðslistaform, og þá útlendinga sem fluttir eru inn í ljósi verðleika sinna til að efla þennan nýgræðing í listalífinu, oftar en ekki frá Bretlandseyjum. Margt af þessu hefur reynst alveg frábær skemmtun. Hinsvegar eru sóttir amerískir frægðarmenn, iðulega einhverjir sem hafa náð frama í sjónvarpi, jafnvel á einhverjum öðrum sviðum en sem stand-up listamenn. Því miður hafa þessar skemmtanir alltof oft einkennst af fátæklegum og illa undirbúnum atriðum stjarnanna, með fyrirferðamikilli uppfyllingu misskemmtilegra innlendra og erlendra aukaatriða. Of oft lykta herlegheitin af peningaplokki í krafti frægðar sem reynist þegar á hólminn er komin innistæðulítil. Þessu marki brennd var heimsókn Jamie Kennedy óneitanlega.

Hr. Kennedy er greinilega margt betur gefið en uppistand. Atriði hans var illa upp byggt, brandararnir meira og minna fyrirsjáanlegir og flatneskjulegir. Það var einna helst að hann næði sér á strik í skopstælingum á amerískum sjónvarpsþáttum, en veiklulegar tilraunir hans til að snúa gríni sínu að íslendingum voru andvana fæddar. Maðurinn er einna frægastur fyrir fimlegar eftirhermur en hér voru þær meira og minna andlausar, og hvers vegna heldur hann að Íslendingar tali ensku eins og Indverjar? Verst var að í lokin var eins og Kennedy þryti erindið, hann spurði salinn hvað klukkan væri og hvort ekki væri nóg komið, enda væri hann búinn með efni sitt. Hvað á svona hörmungarframmistaða að þýða?

Kynnir dagskrárinnar var Þorsteinn Guðmundsson, sem náði sér heldur ekki almennilega á strik. Upphitunaratriðið var stórfurðuleg framkoma Grindergirl sem hafði dottið níður á þá ágætu hugmynd að saga í sundur stálslegið korselett sitt með slípirokk, sem rifjaðist upp fyrir mér meðan á atriðinu stóð að var kallaður “graddi” á æskuárum mínum sem handlangari iðnaðarmanna á Húsavík. En graddastelpunni tókst að jarða hugmyndina með ótrúlega viðvaningslegri framkomu og algerum skorti á tilfinningu fyrir tímaetningu, áhorfendum og spennusköpun. Kannski hún ætti að bregða sér á næsta erótíska dandsstað áður en hún hverfur af landi brott, þar ku starfa stúlkur sem kunna að byggja upp áhuga áhorfenda sinna.

Skemmtun þeirra Jaime og Grindergirl var afleit. Ófyndin, illa undirbúið fúsk. Ekki hjálpar hinn hörmulegi staður Broadway sem virðist fyrst og fremst hannaður til að hindra nokkur samskipti millum sviðs og salar. Þessum gestum tókst ekki að yfirvinna þessi vandkvæði, enda virtist hvorugt þeirra hafa áhuga á því að þessu sinni.