miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Sólstingur

Nemendamót Verslunarskólans Höfundur: Þorsteinn Guðmundsson, leikstjóri: Jóhann G. Jóhannsson, danshöfundur: Helena Jónsdóttir, tónlistarstjóri: Jón Ólafsson, útlit: Sigurður Kaiser. Loftkastalanum 4. febrúar 2004

Sólstingur


ÚTSKRIFTARFERÐALAG Verslunarskólanema er vitaskuld kjörið efni í söngleik af því taginu sem Nemendamót Verslunarskólans hefur sérhæft sig í á undanförnum árum. Það býður upp á endalausa möguleika á gríni, fjöri, dansi og tónlist, ást og afbrýði, gleði og glappaskotum og það hjálpar lítt reyndum leikhópnum hvað persónurnar eru nálægt þeim. 

Að vanda er það samt frammistaðan á dansog söngsviðinu sem skín skærast, leikurinn heilt yfir ágætur en stenst ekki samanburð við afdráttarlausa fagmennskuna á hinum sviðunum. Nýr höfundur hefur verið kallaður til leiks, Þorsteinn Guðmundsson. Hann á nokkur leikrit skrifuð og hefur mótað mjög persónulegan grínstíl sem birtist bæði í skrifum hans, sjónvarpsþáttum og uppistandi, en á því sviði er hann að mínu mati fremstur meðal íslenskra jafningja. Þessi stíll er nokkuð áberandi í Sólsting, og mögulega er hann of persónulegur til að hann henti öðrum en Þorsteini sjálfum að flytja. Hópnum gekk betur með yfirborðsraunsæja íróníu Jóns Gnarr í fyrra. 

Annað sem stendur Sólsting fyrir þrifum er byggingin. Verkið hverfist um fjóra krakka og gerist að mestu í íbúð þeirra á Benidorm, en að forminu til er það uppbyggt af sketsum, laustengdum nokkuð. Kannski hefði verið vænlegra að brjóta verkið enn meira upp og nálgast revíuformið meira. Allavega ná þau tvö mál sem einhver framvinda er í, samband tveggja krakkanna og sambúðarvandi fararstjórahjónanna ekki að mynda heillega fléttu. 

Tónlistaratriðin eru hápunktur sýningarinnar, og gerir þá ekkert til þó stundum bresti þau á af ansi bláþráðóttum ástæðum. Þó er ég ekki frá því að textaframburður hafi verið með óskýrara móti þetta árið. Dansarnir eru á hinn bóginn skemmtilegir mjög, engir betri þó en karlmannlegur stríðsdans hommans og fylgdarsveina hans. Fjórmenningarnir eru leiknir af þeim Ernu Sigmundsdóttur, Jóni Ragnari Jónssyni, Hönnu Borg Jónsdóttur og Kristjáni Sturlu Bjarnasyni. Hlutverk Jóns og Ernu eru sýnu bitastæðari og gerðu þau þeim ágæt skil. Fararstjórahjónin voru bráðhlægileg í meðförum Davíðs Gill Jónssonar og Svandísar Dóru Einarsdóttur. Af öðrum leikurum verður ekki komist hjá að nefna Rúnar Inga Einarsson sem var tvímælalaust fyndnasti maður kvöldsins sem hinn óþolandi Magnús. 

Sólstingur er ekki jafn augljós stórsigur og Nemendamótssýningar undanfarinna ára, en stendur þó fyrir sínu, enda færni og kraftur í réttum hlutföllum orðin algerlega viðtekin lágmarkskrafa í þessu þroskaða söngleikjabatteríi. Aðdáendur Verslósýninganna munu skemmta sér vel í Loftkastalanum.