mánudagur, febrúar 23, 2004

Sálmurinn um blómið

Útvarpsleikhúsið
febrúar 2004

Leikgerð: Jón Hjartarson, leikstjórn: María Reyndal, hljóðvinnsla: Björn Eysteinsson, tónlist: Úlfur Eldjárn. Leikendur: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Álfrún Örnólfsdóttir, Guðmundur Ólafsson, Gunnar Hansson, Gunnar Helgason, Hanna María Karlsdóttir, Jón Hjartarson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Víkingur Gunnarsson, Þorsteinn Gunnarsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir.

Guði líkur

ÞÓRBERGUR Þórðarson skýtur upp kollinum víða á ferli Jóns Hjartarsonar. Hann fór á kostum í Ofvitanum á sínum tíma, algerlega trúverðug mynd af meistaranum. Svo sannfærandi að, þökk sé velgengni sýningarinnar og síðar sjónvarpinu, að mynd hans er mynd Þórbergs í hugum margra, svo er allavega farið með undirritaðan, ef hann hefur ekki vara á sér. Seinna gerði Jón sviðsgerð af Sálminum um blómið, setti upp með Leikfélagi Hornafjarðar og lék sjálfur Sobbeggi afa. Og nú er leikgerð sögunnar komin í útvarpið og enn er Jón Þórbergur, jafn trúverðugur og áður, stílsmáti skáldsins runnin honum í merg og blóð. Ekki hef ég þekkingu til að segja hversu mikið hin fyrri leikgerð Jóns er gengin aftur í þessari, enda skiptir það svo sem engu máli.

Þroskasaga Lillu Heggu, eða kannski frekar, saga viðbragða Þórbergs við fullorðnun þessarar litlu vinkonu sinnar, er makalaust verk, hliðstæðulaust í íslenskum bókmenntum, og mögulega heimsins. Leikgerðin byrjar á því að guð birtist Þórbergi og setur honum verkefnið fyrir. Síðan er því lýst hvernig hann þarf að finna leiðina að verkefninu, sem endar með því að hann leitast við að gera sér upp og nálgast þannig þroskastig viðfangsefnisins. Síðan rekur hver gullmolinn annan í lýsingum á samskiptum litlu manneskjunnar og höfundarins. Óneitanlega er því eins farið með leikgerðina og söguna, fyrri hlutinn er mun skemmtilegri en sá síðari, meðan framandleikinn er mestur og Lilla Hegga sjálf í forgrunni. Í seinni hlutanum verða önnur hugðarefni Þórbergs og hvernig hann kynnir Lillu Heggu þau meira áberandi: Kommúnismi, Spírítismi og Suðursveit, og þá fatast verkinu flugið nokkuð.

Eins og fyrr sagði er Jón Hjartarson sannfærandi sem Þórbergur, en hefur að sama skapi minni möguleika á að sýna manni óvænta fleti á persónunni sem hann hefur tengst svo traustum böndum á löngum tíma, enda reynir hann það alls ekki. Það er sjálfsagt að varðveita sem mest af þessu sérstæða sambandi leikara og viðfangsefnis úr raunveruleikanum.

Álfrún Örnólfsdóttir nær framúrskarandi tökum á að lýsa þroska Lillu Heggu, óborganleg sem ungabarn, ótrúlega trúverðug upp frá því, og skemmtilegt hvernig hún dregur fram tilfinninguna fyrir því hvernig samneyti við fullorðna mótar orðfæri barnsins, eftir að málsnið þess hefur sett svip sinn á tungutak hinna fullorðnu.

Anna Kristín Arngrímsdóttir er prýðileg sem Mammagagga, rödd skynseminnar og Þorsteinn Gunnarsson sömuleiðis sem rödd guðs. Aðrir vekja varla eftirtekt, enda hlutverkin lítil.

Öll vinnan við verkið einkennist að mínu viti af vandvirkni og trúmennsku við viðfangsefnið. Á það við um stælalausa leikstjórn Maríu Reyndal, áferðarfallega tónlist Úlfs Eldjárn, hljóðvinnslu og alla framsetningu.