laugardagur, febrúar 14, 2004

Landsmótið

Leiklistarhópur Umf. Eflingar Höfundar: Jóhannes Sigurjónsson og Hörður Þór Benónýsson, leikstjóri: Arnór Benónýsson, tónlistarstjóri: Jan Alavere. Félagsheimilinu Breiðumýri í Reykjadal laugardaginn 14. febrúar 2004.

Eflingu allt 

BREIÐAMÝRI í Reykjadal norður er ein af orkustöðvum íslensks áhugaleikhúss þessi árin og hefur tekist að þróa starfsemi sem á engan sinn líka á landinu. Félagarnir hafa að mestu sérhæft sig í fjölmennum sýningum með söngvum, oftast í léttum dúr og kraftur og leikgleði eru áberandi þættir í framsetningu þeirra. Undir markvissri stjórn Arnórs Benónýssonar hafa þau leitt saman áhugasama unglinga úr Laugaskóla og harðsnúinn kjarna leiklistarfólks úr sveitinni og náð að bræða þessar fylkingar saman á eftirtektarverðan hátt. 

Að þessu sinni er verkið frumsamið og fjallar um atburði á landsmóti í sveit fyrir norðan sem vel getur verið í Þingeyjarsýslu um miðjan sjöunda áratuginn. Höfundarnir hafa ekki áður sett saman leikrit af þessari stærðargráðu en eru að ég held báðir skrifvanir og af þessum frumburði að dæma pennafærir mjög. Það er stór og vel pússaður spéspegill sem hér er stillt upp og honum er snúið í ýmsar áttir. Gagnkvæmir fordómar sveitafólks og borgarbarna eru fyrirferðarmiklir, svo og ungmennafélagsrómantík og rembingurinn sem verður til þegar hún gengur út í öfgar. Þá er skotið föstum skotum að fortíð og samtíð, og oft hitta þau þannig í mark að syngur í. Það er greinilegt að höfundunum er ekki sýnt um að hemja skáldtrippi sín. Hugmyndirnar eru næstum of margar og sumir efnisþættirnir þola varla hvað dvalið er við þá, það á einkum við um sveitar- og borgarríginn. 

Höfuðmáli skiptir þó að Landsmótið er ósvikin og óbeisluð skemmtun og þá þýðir ekkert að setja fyrir sig byggingarfræðilega vankanta heldur hlæja með. Það var líka mikið hlegið í Breiðumýri á laugardagskvöldið. Sýningin ber öll helstu einkenni félagsins. Kraftur, mannfjöldi og taumlítil leikgleði, sem þó fer aldrei alveg úr böndunum í sterkri umferðarstjórn Arnórs sem jafnframt er laginn við að laða það besta fram hjá leikurum sínum svo skýrar mannlýsingar standa út úr mannmergðinni þegar það á við. Það vinnst ekki pláss til að telja upp alla þá sem fara á kostum hér, en þó verður að nefna nokkra sérstaklega. Hilmar Valur Gunnarsson er frábær sem helsti töffari sunnanmanna og Birkir Sveinsson sérlega sannfærandi sem ímynd ungmennafélagshetjunnar, hinn berfætti Norður-þingeyski Magnús. Jón Friðrik Benónýsson er óborganlegur sem gamall og plássfrekur forkólfur. Þorgrímur Daníelsson var sannfærandi og fyndinn Ungmennafélagsandi. Þorgerður Sigurgeirsdóttir aldeilis stórfínn miðill. Svona mætti lengi telja. 

Söngtextar höfundanna eru prýðilega skemmtilegir og lagavalið snjallt. Tilvalið að nota minna þekkt bítlalög eins og hér er gert, The Continuing Story og Bungalow Bill sómdi sér til að mynda vel sem söngur Vínandans. Það er vel hægt að þusa yfir smáatriðum í sýningunni. Búningar sveitaunglinganna voru ekki eins vandlega tímabilstengdir og klæðnaður borgartöffarana. Verkið er heldur langt og í skemmtiþörf sinni stigu höfundar og leikendur einstaka sinnum yfir smekkleysismúrinn. En þetta er tittlingaskítur miðað við alla þá gleði, fyndni og kraft sem streymir frá sviði niður í sal í Breiðumýri þessar vikurnar. Allir á Landsmótið!