fimmtudagur, desember 04, 2003

Sveinsstykki

Hið lifandi leikhús
Loftkastalanum 4. desember 2003

Höfundur. Þorvaldur Þorsteinsson
Leikstjóri: Þorleifur Örn Arnarsson
Leikari: Arnar Jónsson
Leikmynd og búningar: Stígur Steinþórsson
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Aðstoðarleikstjóri: Arndís Þórarinsdóttir.

Dragðu ekki það að elska

EIGINLEGA ætlast maður alls ekki til að afmælissýningar séu frábærar. Það er vissulega betra að þær séu ekki algjör stórslys, en þær ná algerlega tilgangi sínum þó afmælisbarnið geri ekki annað en sýna að það er enn í fullu fjöri, gefi smá sýnishorn af því hversvegna er yfirhöfuð ástæða til að fagna tímamótunum. Síst af öllu gera áhorfendur ráð fyrir að í afmælissýningum sé tekin listræn áhætta. Að sumu leyti er það verra - hvað ef allt mislukkast? Hvaða gagnrýnanda langar til að segja afmælisbarni til syndanna?

Afmælissýning Arnars Jónssonar var því fyrirfram talsvert áhyggjuefni. Nýtt leikrit, lítt reyndur leikstjóri og persóna sem hljómaði ekki í kynningum eins og hún væri á heimavelli Arnars. En þeim mun meiri sigur, því Sveinsstykki er feikilega áhrifamikil sýning - magnaður flutningur á frábæru leikriti.

Fyrstu kynni mín af Arnari Jónssyni sem leikara voru andvökunæturnar sem ég upplifði eftir að hafa séð hann sem Þorleif Kortsson í Skollaleik. Á sviði sá ég hann ekki fyrr en löngu síðar og í millitíðinni í Útlaganum, frammistaða sem mig grunar að sé vanmetin vegna þess hve látlaus kvikmyndin er í samanburði við skrautlegri túlkanir annarra leikstjóra á söguöldinni. Af ljósmyndum og lýsingum að dæma hefur hann verið aldeilis magnaður ungur leikari, orkuþrunginn, fimur svo af bar og áreiðanlega þá þegar með þá sterku nærveru sem allir leikhúsgestir skynja. Þegar Arnar er á sviðinu þá horfir þú á hann.

Samt sem áður er eitthvað við Arnar sem vekur fremur aðdáun en hrífur mann. Upphafin og álítið hátíðleg raddbeitingin, hlutverkin sem hann velst í. Þegar ég las útlistanir Þorvaldar Þorsteinssonar á efni og persónu Sveinsstykkis þá óttaðist ég að þarna hefði hann lagt einn illyrmislegan Snóker fyrir stórleikarann - skrifað persónu fyrir utan svið Arnars Jónssonar. Kannski er það tilfellið. Og kannski sækir sýningin hluta af áhrifum sínum í að það er einmitt Arnar, meistari bundna málsins, klassíkurinnar, hins upphafna og fjarlæga, sem þarna leggur hjartað á lagergólfið.

Sveinn Kristinsson hefur unnið í fjörutíu ár á lager í varahlutaverslun. Frá blautu barnsbeini hefur hann fetað veg hinna réttvísu og nákvæmu, skilað sínu, skaffað, hvergi brugðist. Nema sjálfum sér - og fyrir vikið öllum sínum nánustu; systur, konu, börnum sjálfum sér. Sveini hefur láðst að lifa.

Viðfangsefni Þorvaldar hér er giska kunnuglegt. Lífslygi meðaljónsins hefur verið vinsælt viðfangsefni í leikhúsinu frá því Arthur Miller skapaði sölumanninn Willy Loman úr minningum um frænda sinn. Og vafalaust má kvarta yfir að linnulaus ógæfan sem hellist yfir Svein verði nánast sápuóperuleg á köflum. En það skiptir engu máli við hliðina á því að Þorvaldur skrifar hér frá hjartanu, en jafnframt með þeirri tækni sem hann hefur yfir að ráða, og með þeim stílbrögðum sem hafa gert hann að merkilegasta leikskáldi landsins. Hárnákvæmu valdi á fyndni, íróníu og tilfinningasemi, sjálfsaga til að láta aðalatriðin liggja milli hluta. Þorvaldur fellur aldrei í þá gryfju að mjólka hápunktana. Að sjálfsögðu dvelur Sveinn aldrei við það sem mestu varðar, en það fer aldrei milli mála gagnvart áhorfandanum. Sveinsstykki er við fyrstu kynni besta verk Þorvaldar fram að þessu.

Og að þessu sinni er Arnar algerlega hrífandi. Þó svo tæknin og færnin fari aldrei á milli mála er það einlægnin, samúðin og hlýjan sem leikarinn hefur lagt til persónunnar sem gerir þennan fráhrindandi mann að vini okkar þessa tvo tíma. Arnar leikur sér að því að sýna okkur Svein á öllum æviskeiðum, við ýmsar aðstæður, og brunar af óskeikulum krafti hins þrautþjálfaða listamanns inn í ólíkustu tilfinningar og aðstæður. Ég minnist þess ekki að hafa verið jafn snortinn af leik Arnars Jónssonar og í þessari afmælissýningu.

Þessi sýning er sú fyrsta sem ég sé af leikstjórnarverkefnum Þorleifs Arnar Arnarssonar, og má það furðu gegna, svo afkastamikill sem hann hefur verið frá því hann útskrifaðist úr Leiklistarskólanum sl. vor. Mig grunar að Þorleifur eigi stóran þátt í áhrifamætti sýningarinnar, þó hann hafi stillt sig um að setja augljós leikstjórnarleg fingraför út um allt. Það er er fágun og öryggi yfir bæði staðsetningum, uppbyggingu og tempói sýningarinnar sem vitnar um vinnubrögð leikstjóra sem á framtíðina fyrir sér.

Reyndar eiga þeir það allir þrír. Þorvaldur nær sífellt sterkari tökum á formi og máli, Þorleifur eflist og eflist. Og af Sveinsstykki að dæma getur Arnar Jónsson allt.