fimmtudagur, apríl 17, 2003

Sex í sveit

Leikfélag Hólmavíkur
Í Bragganum á Hólmavík fimmtudaginn17. apríl 2003.

Höfundur: Marc Camoletti
Þýðandi: Gísli Rúnar Jónsson
Leikstjóri: Skúli Gautason
Leikmynd: Hafþór Þórhallsson

Að vanda til viðhaldsins

SEX í sveit er algerlega hefðbundinn framhjáhaldsfarsi þar sem næstum allir hafa eitthvað að fela, og smám saman verða aðferðirnar til að fela það enn pínlegri en það sem upphaflega átti að halda leyndu. Úr verður fyndin flækja sem leysist í raun ekki, lausnin minnir meira á vopnahlé en friðarsáttmála.

Sýning Hólmvíkinga verður að teljast í höfuðatriðum vel heppnuð. Sviðssetning Skúla er prýðilega af hendi leyst og umgjörð er til fyrirmyndar í dálítið erfiðum aðstæðum braggans. Oft náðist ágætur örvæntingarfullur hraði í framvinduna, sem er nauðsynlegt til að farsið komist á flug.

Leikhópurinn er blanda af karlkyns reynsluboltum og kvenkyns nýgræðingum og má kalla það djarflega teflt að velja svo tæknilega krefjandi verk sem jómfrúrverkefni stúlknanna. En það gengur upp, allar standast þær raunina, kannski var þeim ekki sagt að þetta eigi ekki að vera hægt. Mest þótti mér koma til frammistöðu Einars Indriðasonar í hlutverki Ragnars og Kristínar Sigurrósar Einarsdóttur, sem hinnar ofurnorðlensku Sólveigar.

Helsti gallinn var sá að nokkrir leikaranna voru of langt frá því að hafa textann sinn fyllilega á valdi sínu. Þó gera megi ráð fyrir að það standi til bóta þegar frumsýningarstress og frekari þjálfun er að baki þá er það auðvitað alls ekki ásættanlegt að treysta jafn mikið á hvíslarann og hér var gert. En í þeim atriðum þar sem þetta var í lagi sást vel hversu skemmtileg sýning Sex í sveit hjá Leikfélagi Hólmavíkur hefur burði til að vera.