laugardagur, apríl 05, 2003

Gullna hliðið

Ungmennafélagið Vaka
Félagsheimilinu Þjórsárver 5. apríl 2003.

Höfundur: Davíð Stefánsson Leikstjóri: Gunnar Sigurðsson.

UNGMENNAFÉLAGIÐ Vaka hefur sofið leiklistarlegum þyrnirósarsvefni síðan 1970, fyrir utan smá rumsk fyrir fjórum árum. En núna eru þau komin á fætur og sýna vandvirknislega, einlæga og að mestu leyti hefðbundna uppfærslu Gunnars Sigurðssonar á móður allra íslenskra alþýðusjónleikja, Gullna Hliðinu.

Að mestu leyti, segi ég, því vissulega örlar á stundum á háðstóni tuttugustu og fyrstu aldarinnar yfir bernskri trúarlífsmynd Davíðs - ótrúlega hlægilegur Prestur Þorsteins Loga Einarssonar kemur upp í hugann. En hæðnin virkar vegna þess að heildarlögnin er einlæg og vinnur með verkinu en ekki á móti. Annað frávik frá hefðinni er sú snjalla hugmynd að láta tvær leikkonur fara með hlutverk Óvinarins. Þetta gefur kost á að láta hinn lævísa Belsebúbb koma Kerlingu sífellt á óvart, hann er ekki fyrr horfinn út af sviðinu öðru megin en hann birtist fyrir aftan hana hinu megin. Snjöll hugmynd, sem Gunnar hefði reyndar átt að nýta sér á ögn fjölbreyttari hátt.

Leikhópurinn er ungur að árum og reynslu, en ná margir furðusterkum tökum á persónum sínum. Ber þar hæst falleg meðferð Gróu Valgerðar Ingimundardóttur á Kerlingu. Sigmar Örn Aðalsteinsson var skemmtilega ofvirkur Jón (það hefur trúlega verið lítið um himneska ró í efra síðan hann kom), en furðulegur munur á framsögn hans eftir því hvort hann talaði í hljóðnema innan úr skjóðunni (góð) eða stóð á sviðinu í eigin persónu (ekki svo góð). Guðmunda Ólafsdóttir og Laufey Einarsdóttir voru öflugur Óvinur. Aðrir leikarar brugðu sér í ótal hlutverk og tókst öllum vel að greina milli þeirra, engum betur þó en Valdimar Össurarsyni sem var frábær hreppsstjóri og yndislegur bóndi á himnum.

Sýning Umf. Vöku er ágæt skemmtun og óskandi að ekki líði þrjátíu ár fram að næstu uppfærslu í Þjórsárveri.