sunnudagur, janúar 26, 2003

Frá myrkri til ljóss

Leikfélagið Platitude
Sal KFUM og K við Holtaveg sunnudaginn 26. janúar 2003.
Höfundar og leikstjórar: Rakel Brynjólfsdóttir og Þóra Jenný Benónýsdóttir.


Barist um sálir

STARFSEMI leikfélagsins Platitude hefur ekki farið hátt í íslensku leikhúslífi, og hefur það þó starfað síðan haustið 1999 samkvæmt leikskrá sýningarinnar Frá myrkri til ljóss og sett upp þrjár aðrar sýningar. Félagið starfar undir hatti KSS, Kristilegra skólasamtaka, og sækir trúlega áhorfendur og annan stuðning í raðir þess félags, auk vina og ættingja þátttakenda og þarf því kannski ekki á frekari athygli að halda. Engu að síður vekur þessi vel falda starfsemi upp vangaveltur um hvort víðar sé leiklist stunduð án þess að hátt fari, leiklist sem svalar þörf afmarkaðs hóps eða jafnvel bara löngun þátttakendanna. Um það verður eðli málsins samkvæmt ekkert vitað, en er óneitanlega skemmtileg tilhugsun, allt iðandi af neðanjarðarleiklistarstarfsemi og engan grunar neitt. En nú hefur leikfélagið Platitude allavega komið úr felum og gagnrýnandi sendur út af örkinni.

Verkið Frá myrkri til ljóss er samkvæmt leikskrá höfundarverk tveggja stúlkna úr hópnum, þeirra Rakelar Brynjólfsdóttur og Þóru Jennýar Benónýsdóttur. Hvort þær hafa verið í forystu hópsins frá upphafi veit ég ekki, né hvort fyrri verk eru einnig frá þeim komin. Einnig er ómögulegt að vita hvort hópurinn hafi notið leiðsagnar kunnáttufólks um leiklist nú eða fyrr. Ef ekki verður að taka ofan fyrir þeim stallsystrum og hópnum í heild fyrir djörfung, að ekki sé sagt fífldirfsku.

Sagan er ekki ýkja flókin. Þegar hinn frelsaði Breki deyr reynir hann með öllum ráðum að gera Sóleyju kærustu sína hólpna. Hún er hins vegar ekki meira en svo móttækileg fyrir Orðinu, og það sem meira er, laðast að skuggalegum náunga, Heiðari, sem reynist vera á vegum hins illa. Baráttan er tvísýn, en best að láta lesendum eftir að geta sér til um hvort aflið hefur sigur að lokum. Þó fyrrnefndar stúlkur séu nefndir höfundar verksins ber textinn það með sér að vera að miklu leyti spunninn. Þá er sýningin krydduð með sönglögum úr ýmsum áttum.

Það sem fyrst og síðast er hrífandi við sýningu Platitude er hin augljósa knýjandi þörf til að koma boðskap á framfæri. Hér er svo sannarlega á ferðinni ungt fólk sem hefur eitthvað að segja. Það vinnur síðan á móti áhrifamættinum hvað mikið skortir á reynslu og kunnáttu, sem vonlegt er. Kemur þetta bæði fram í framvindu sögunnar sem hefði mátt vera skýrari og sviðsetningunni, sem ekki var sérlega markviss. Aðstæður og búnaður í sal KFUM var líka með frumstæðasta móti, og tæknistjórn óþarflega ónákvæm.

Í ljósi þessa er varla sanngjarnt að leggja dóm á frammistöðu einstakra leikara, en tveggja verður þó að geta. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson var spaugilegur Aron, einhverskonar starfsmannastjóri englaskarans á himnum og Tinna Rós Steinsdóttir var yndisleg sem ein af þessum ljóskum sem veit ekki hvað hún hugsar fyrr en hún heyrir hvað hún segir.

Það búa hæfileikar í leikfélaginu Platitude, að ógleymdum eldmóðnum. En til að virkja möguleika leikhússins þarf reynslu og kunnáttu. Hana öðlast menn smám saman, og þessi sýning er áfangi á þeirri leið ef hópnum endist áhuginn.