föstudagur, apríl 05, 2002

Það er spurning

Leikfélag Fjölbrautaskólans við Ármúla
Tjarnarbíó föstudaginn 5. apríl 2002

Byggt á kvikmyndinni “Clue”
Þýðendur: Unnar Þór Reynisson og Ævar Guðmundsson
Leikstjóri: Kristjana Pálsdóttir

Leikendur: Arnar Magnússon, Baldvin Albertsson, Bernharð Aðalsteinsson, Einar Már Björnsson, Eyþór Theodórsson, Friðjón B. Gunnarsson, Guðrún H. Sigfússdóttir, Hrönn Sveinsdóttir, Júlíana Sigtryggsdóttir, Kristín Edda Sigurðardóttir, Ragnar Jóhannsson, Rebekka Atladóttir, Sigrún Kristín Skúladóttir og Vilhjálmur Gunnar Pétursson.

Var það yfirþjónninn?

ÞAÐ er búið að skopstæla hefðbundin sakamálaleikrit svo oft og rækilega að trúlega eru þau farin að skopstæla sig sjálf. Það væri tilraunarinnar virði að sviðsetja “alvöru” sakamálaleikrit í fúlustu alvöru og athuga hvort ekki verður hlegið jafn mikið að þeim og á öllum þeim aragrúa skopstælinga sem nú um stundir eru mun vinsælli viðfangsefni en þau verk sem höfð eru að skotspæni.

Það verk sem hér um ræðir er byggt á kvikmyndinni “Clue” sem er ágætt dæmi um þessar skopstælingar. Og þar sem kvikmyndin virkar eins og klaufaleg yfirfærsla sviðsverks á tjald þolir hún ferðina upp á sviðið betur en margar þær kvikmynda sem hafa fengið þessa meðferð undanfarið (önnur tíska). Grínið á ágætlega heima á sviði og efnisþráðurinn er kunnuglegur. Hópi fólks er stefnt til kvöldverðarboðs og í ljós kemur að öll eiga þau gestgjafanum grátt að gjalda. Fljótlega fellur fyrsta fórnarlambið í valinn og smám saman hrannast líkin upp. Allt er þetta með hinum ánægjulegustu ólíkindum, en að lokum er yfirþjóninum ómissandi nóg boðið og hann gerir grein fyrir hvernig í pottinn er búið. Og jafnvel þá er ekki allt búið og verður ekki ljóstrað upp hér hvað gerist næst, hvað þá hver morðinginn er.

Skopstæling sem þessi er vandmeðfarin, leikstjóri og leikhópur þurfa að hafa klisjurnar allar á hreinu og velta sér upp úr þeim svo allt virki. Þetta tekst á köflum nokkuð vel í sýningu Ármúlafólksins. Umgjörð og búningar eru stórfínir og hárréttir og margir leikaranna ná stílnum fullkomlega, einkanlega þeir sem glíma við skrítilegustu persónurnar. Vil ég sérstaklega nefna Friðjón B. Gunnarsson sem er óborganlegur sem hinn viðurstyggilegi prófessor Plóma. Rebekka Atladóttir, Júlíana Sigtryggsdóttir og Guðrún H. Sigfúsdóttir voru líka bísna skemmtilegar.

Það sem stendur sýningunni hins vegar dálítið fyrir þrifum er að henni er dálítið stirðlega fyrir komið á sviðinu, sem kemur niður á snerpu og fókus. Hún fór dauflega af stað en náði sér allvel á strik um miðbikið. Síðan dalar hún á ný og óöryggi gerði vart við sig með tilheyrandi skorti á krafti. Vonandi eru þetta tanntökuvandamál sem verða úr sögunni á næstu sýningum. Eins mætti messa betur yfir fólkinu um skýra framsögn, fléttan er nógu flókin þó heilu og hálfu setningarnar fari ekki forgörðum sakir óskýrmælgi.

Þegar á heildina er litið er “það er spurning” allskemmtileg sýning, góðir sprettir í leik og hnittið handrit sjá til þess. Með meiri krafti og skýrari texta væri lítið út á hana að setja.