föstudagur, nóvember 30, 2001

Þetta er bara prinsippmál

Leikfélag Seyðisfjarðar
Félagsheimilinu Herðubreið, Seyðisfirði, 30. nóvember 2001

Höfundar, leikstjórar og leikmyndahönnuðir: Ágúst Torfi Magnússon og Snorri Emilsson.
Leikendur: Ágúst Torfi Magnússon, Hrefna Hafdal Sigurðardóttir, Hrönn Sigurðardóttir, Ívar Björnsson, Klemens Hallgrímsson, Lilja Björk Birgisdóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir og Snorri Emilsson.

Þúsundþjalasmiðir á Seyðisfirði

ÞAÐ teljast líklega litlar ýkjur þó sagt sé að tveir menn eigi stærstan heiðurinn af þessari sýningu Leikfélags Seyðisfjarðar. Þeir Ágúst Torfi Magnússon og Snorri Emilsson skrifa leikritið, leikstýra því, leika báðir burðarhlutverk og hanna leikmynd, auk þess sem Snorri sér um lýsingu í félagi við Ívar Björnsson. Það er enginn smá fengur fyrir svona atorku í einum bæ, ekki síst þar sem afraksturinn er jafn ágæt skemmtun og raun ber vitni.

Af hinum fjölmörgu verkefnum sem þeir félagar hafa sinnt hér sætir árangur þeirra við skriftirnar mestum tíðindum. Þeir velja sér hið erfiða farsaform og komast satt að segja ótrúlega langt með að skrifa einn burðugan slíkan. Verkið hverfist um hina mannfælnu félaga Jónas og Martein, sem reka lítið hótel og eru aldrei sælli en þegar öll herbergi standa auð. Dóttir Jónasar elskar hinn ofurklaufska vikapilt Jósep og hann hana, en áður en þau ná saman gengur mikið á, hver misskilningurinn rekur annan og verulega reynir á þolrif mannafælanna tveggja.

Framvinda er næsta lipur í verkinu og samtöl mörg snörp og skemmtileg. Ekki tekst höfundum alls kostar að skapa verulega snúna fléttu, oft er ekki alveg innistæða fyrir óðagoti persónanna og niðurlagið dregst óþarflega á langinn. En þessir lestir verksins skyggja ekki á kosti þess, það heldur athyglinni, kitlar hláturtaugarnar og segir þegar best lætur satt um okkur Íslendinga í dag.

Það er ekki öllum gefið að leikstýra eigin verkum og að mínu viti hefði Þetta er bara prinsippmál grætt mikið á að þriðja auga hefði verið kallað til og falið sviðsetning verksins. Ekki hvað síst þar sem höfundar og leikstjórar standa einnig á sviðinu. Þeim félögum hefur ekki tekist nógu vel að stilla úrverkið í stykkinu, persónuleikstjórn óþarflega ómarkviss og staðsetningar of oft tilviljanakenndar og óheppilegar. Þannig skilaði sér illa fyndni sem byggir á að ein persóna heldur að önnur sé að tala við sig, þegar sú er í raun að tala við sjálfa sig eða í síma. Mörg slík samtöl eru í verkinu og lipurlega skrifuð, en of oft sáu persónurnar hvor aðra og því datt grínið í gólfið. Þess ber að geta að sýningin mun vera æfð upp á skömmum tíma, og meira nostur hefði ugglaust skilað henni betri, en albest hefði að mínu viti verið sýn utanaðkomandi leikstjóra.

Af leikurum standa sig best Snorri Emilsson, sem heldur sýningunni í raun gangandi sem Jónas, greinilega sviðsvanur og gekk vel að átta sig í rýminu. Þá var Hrönn Sigurðardóttir örugg og fyndin í hlutverki dóttur Marteins sem á í tilfinningasambandi við gemsann sinn. Faðir hennar var bráðhlægilega túlkaður af Klemens Hallgrímssyni.

Eftir stendur að þetta merkilega framtak Ágústs og Snorra hefur skilað bráðgóðri frumraun í leikritun, sem vonandi verður framhald á. Sýningin er ágæt skemmtun sem óskandi er að Seyðfirðingar og aðrir austanmenn flykkist á. Ég óska Leikfélagi Seyðisfjarðar til hamingju með ofurhugana sína.