laugardagur, apríl 29, 2023

Góða ferð inn í gömul sár

Tímarnir tvennir


Góða ferð inn í gömul sár er heimilda- og upplifunarverk, afrakstur vinnu Evu Rúnar Snorradóttur sem leikskálds Borgarleikhússins, sem að auki er leikstjóri sýningarinnar. Forvitnilegt í forminu og víðfeðmt að innihaldi. Fyrri hlutinn er hlaðvarps- eða fléttuþáttur sem gestir hlusta í heyrnartólum heima hjá sér. Þar heyrum við í hópi viðmælenda sem upplifðu alnæmisfaraldur níunda og tíunda áratugs síðustu aldar á ýmsan hátt; sem aðstandendur, heilbrigðiststarfsfólk, baráttumenn og fræðingar. Þar koma einnig fram Ahd Tamimi
, Bjarni Snæbjörnsson, 
Bjartmar Þórðarson
, Jóhannes Davíð Purkhús
 og Sigurjón Jóhannsson

 í ýmsum hlutverkum og gefa hlustendum m.a. fyrirmæli um um atferli til að tengja þá enn sterkar við hið átakanlega efni. Framsetningin er áhrifarík og upprifjunin þörf, enda einstök saga sem tæpast hefur enn fengið verðuga greiningu eða viðurkenningu. 
Eftirleikurinn er merkilegur. Það virðist ekki umdeilt að samstaðan sem myndaðist í  samfélagi samkynhneigðra og vitundarvakningin sem faraldurinn þröngvaði upp á samfélagið hafi verið mikilvæg forsenda fyrir sýnileika, réttarbótum og útbreiddri viðurkenningu á veruleika hinsegin fólks. Sá raunveruleiki er vegsamaður í síðari hlutanum, sem fram fer á Nýja sviði Borgarleikhússins, undir styrkri stjórn dagdrottninganna D-Anal (Omel Svavarss), Lady Zadude (Vilhjálmur Ingi Vilhjálms), Gógó Starr (Sigurður Starr Guðjónsson) og Jenny Purr (Kristrún Hrafns). Þær leiða áhorfendur í salinn eftir að hafa frískað upp á útlit hópsins, sem mætir svartklæddur eftir fyrirmælum forleiksins. 
Þegar í salinn kemur upphefst blönduð dagskrá, nokkurskonar kabarett. Eða kannski frekar kvöldvaka, því áherslan er ekki nema hálfvegis á skemmtun heldur ekki síður á að snerta á ólíkum birtingarmyndum hinseginleikans. Mars Proppé reið á vaðið með því að segja frá leið sinni að eigin hinseginleika. Skaði Þórðardóttir bauð upp á ágengt tónlistaratriði en Jakub Stachowiak las smásögu úr evrópskum baðhúsaheimi fyrri ára. Embla Guðrún Ágústsdóttir veitti innsýn í veruleika samkynhneigðrar fatlaðrar konu, Starína (Ólafur Helgi Móberg) setur nettan grínsnúning á dragdrottningarhlutverkið og Gabríel Brim ögrar tveggja kynja módelinu á snjallan hátt. Lady Zadude slær botninn í samkomuna með einkennissöngnum alkunna: Ég er eins og ég er.
Sem kvöldskemmtun er þessi samkoma nokkuð frá því að vera frábær. Alvarlegu hlutarnir snerta vissulega við öllum, geri ég ráð fyrir, og með góðum vilja er hægt að finna í þeim enduróm af hinum myrku dögum útskúfunar og alnæmis. En hann er daufur. Samnefnarinn, brúin milli heimsins þar sem hommarnir „dóu einir“, eins og Einar Þór Jónsson, talsmaður HIV Ísland orðaði það í ávarpi áður en gengið var inn í nútímann á Nýja sviðinu, og hinna hugrökku fulltrúa eigin sjálfsmyndar sem birtast í kabarettinum, er of almennur, of langsóttur. 
Við erum komin langt, en þó langt í frá alla leið. En það vitum við vel, og þessi vel meinta en sérkennilega stefnulausa ferð bætir þar litlu við.