Hvað sem þið viljið
Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Karl Ágúst Úlfsson. Leikgerð: Ágústa Skúladóttir og Karl Ágúst Úlfsson. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Tónlist og tónlistarstjórn: Kristjana Stefánsdóttir. Hljóðhönnun: Brett Smith. Myndbandshönnun: Ásta Jónína Arnardóttir. Leikarar: Almar Blær Sigurjónsson, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Hilmar Guðjónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Kristjana Stefánsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Þórey Birgisdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 12. janúar 2023.
Öll fara í sveitaferð
Tvennt er gott að hafa í huga varðandi þau leikrit Shakespeares sem eru flokkuð sem gleðileikir. Það má oftast engu muna að þau séu harmleikir, og þegar William er greinilega að reyna sem mest að vera fyndinn er hann það sjaldnast.
As you like it, eða Hvað sem þið viljið, eins og það heitir í nýrri þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar, hefur alla burði til að verða hið drungalegasta drama vel fram í annan þátt. Illgjarn aðalsmaður leggur á ráðin um dauða bróður síns, og minnir okkur bæði á þorparann Játmund í Lé konungi og Kládíus kóng í Hamlet að plotta með Laertesi um dauða prinsins. Valdagráðugur bróðir hrekur réttkjörinn hertoga í útlegð, en er ekki öruggari með sess sinn en svo að ung dóttir þess síðarnefnda fylgir fljótt á eftir, með dóttur illmennisins í eftirdragi. Leikrit um annan ofsóknaróðan valdaræningja og landflótta ríkisarfa var frumsýnt í hinu stóra leikhúsi borgarinnar kvöldið eftir að Hvað sem þið viljið, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og sviðsaðlögun þeirra þýðandans, var frumsýnt í Kassa Þjóðleikhússins.
Fæstir gleðileikjanna eru miklar hláturbombur. Plottin eru oftast of þunglamaleg til að ná farsaflugi. Frá höfundarins hendi eru fleiri vel lukkaðir brandarar í Hamlet en As you like it. Og fíflið í Lé konungi er betri í sínu starfi en vesalings Prófsteinn, sem segir einn voðalegan pabbabrandara snemma verks, en er að öðru leyti – sem betur fer – aðallega hjálparhella stúlknanna og vonbiðill í sveitinni.
Skoplegur vonbiðill. Og það er einmitt málið: það sem virðist ekki endilega ætlað til að vekja hlátur gerir það engu að síður í krafti þess að vera léttleikandi en trúverðug mynd af fólki í aðstæðum sem það ræður ekki alveg við. Og hvað kemur fólki eins kröftuglega úr jafnvægi án þess að vera lífshættulegt og ástarbríminn? Sem er einmitt meginefni verksins sem hér er til umfjöllunar. As you like it er doktorsritgerð Shakespeares í ástarmálum. Fjögur tilbrigði við stefið: Rósalind og Orlandó, Silvíus og Fífa, Adda og Prófsteinn (með hinn lánlausa Vilhjálm á kantinum) og svo að lokum Selja og Ólíver. Og eigum við kannski að tala um ást öldungsins Adams til skjólstæðings síns líka, og ekki síst? Ástin getur birst í svo óteljandi myndum, eins og annað skáld sagði löngu síðar.
Þennan kjarna fangar uppfærsla Ágústu eins vel og sanngjarnt er að fara fram á. Mögulega fer einhver alvarlegur og hátimbraður kjarni, sem sum vilja leita að í verkinu, forgörðum í galskapnum. Vera má að hóp- og samvinnunálgunin sem liggur sýningunni til grundvallar vinni gegn því að ná í skottið á dramanu og grimmdinni sem er í verkinu, í aukahlutverki þó. En þegar gleðisprengja springur er ekkert spurt um það. Allt sem ætlunin virðist að ná fram gengur eftir.
Leikgerðin einbeitir sér að ástarmálunum, þó frægir hápunktar sem snúa að öðrum hlutum fljóti með. Við myndum ekki kæra okkur um As you like it án frægustu ræðu verksins, sem kortleggur æfiveginn með hjálp hlutverkana sem (karl)menn leika frá vöggu til grafar og hefst á þeim frægu orðunum „Veröldin er leiksvið“. Það rými sem verður til við styttingar og samþjöppun er meðal annars nýtt til söngs. Lagasmíðar Kristjönu Stefánsdóttur og Hallgríms Ólafssonar eru indælar mjög, og svo verður að teljast leiftursnjöll (og kannski augljós) hugmynd að kalla til Bítlana, þau ensku ástarskáld sem komast næst Shakespeare í alþjóðlegu orðspori. Nokkur laganna eru sungin í sýningunni við nýja og viðeigandi texta og önnur hljóma í hléi. Je Je Je!
Söngtextar Karls Ágústs eru hver öðrum betri í smekklegri smellni. Eins er um leiktextann. Karl tekur sér sjálfdæmi um hvenær hann þýðir bundið mál Shakespeares í stakhenduform eða lausamál, en jafnvel í prósanum leynist stuðlasetning og rím hér og hvar, sem flinkir leikarar smjatta á. Leikdómur um frumsýningu er ekki vettvangur fyrir mikið grúsk um einstakar lausnir, hvað þá samanburð við frumtextann og/eða Helga Hálfdanarson. Engar líkur tel ég á að þessi útlegging leysi þýðingu Helga af hólmi sem íslenski „staðaltextinn“. En vel hljómar hún, bundin og óbundin og þjónar markmiðum túlkunarinnar fullkomlega. Auðskilin, hæfilega smekkleg, oft fyndin í sjálfri sér, krydduð krassandi nútímaorðum þegar góð færi gefast.
Leikhópurinn er vel skipaður fyrir einmitt svona sýningu. Léttleikandi kómískir og músíkalskir leikarar sem njóta þess að afhjúpa sig og mynda beint samband við salinn, en eru jafnframt í traustu sambandi við tilfinningarófið sem knýr vélina. Þannig verður til dæmis hinn óhamingjusamlega ástsjúki Silvíus hjá Hilmari Guðjónssyni gráthlægilegur og brjóstumkennanlegur, en ekki bara skopleg fígúra í samleiknum við Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur sem er kostuleg Fífa og frábær í hlutverki meinhornsins Jakobs. Og það gerir ekkert til þó Prófsteinn sé ekkert fyndinn frá höfundarins hendi þegar við fáum sannfærandi mynd af frekar venjulegum manni finna ástina á óvæntum stað eins og Hallgrímur Ólafsson gerir hér, enda Adda hennar Kristjönu Stefánsdóttur ómótstæðileg krúttbomba. Sigurður Sigurjónsson hefur brillerað sem karlæg gamalmenni frá unga aldri og allt sem sést hér til hins aldna Adams er sprenghlægilegt og satt.
Á pappírunum geta sinnaskipti vonda bróðurins og skyndilegt ástarskot hans og Selju undir lokin virkað eins og klunnalegur frágangur lausra enda, en Þórey Birgisdóttir er búin að teikna svo skýrt hvað stúlkan er orðin leið á skógarlífinu í skugga lagskonunnar og Guðjón Davíð Karlsson kemur með sinn pínu óvænta dramatíska þunga í bland við galskapinn og allt gengur upp.
Bitastæðust og miðlægust eru síðan hlutverk Rósalindar og Orlandós, sem verða ástfangin snemma verks, en missa sjónar hvort af öðru á flótta undan ofsóknum vondu kallanna. Þegar þau finnast á ný er Rósalind komin í karlgervi og notar tækifærið til að reyna á þolrifin í ástarhug drengsins. Það er stjörnubragur á framgöngu Katrínar Halldóru Sigurðardóttur hér og karlgervið kostulegt. Almar Blær Sigurjónsson gelgjulegur mjög, sem rímar alveg við þroskamuninn á parinu frá höfundarins hendi. Kannski hefði verið gaman að sjá Orlandó aðeins vandræðalegri í hlutverkaleiknum, þegar hann er að játa bóndadurgnum sem Rósalind þykist vera ást sína, en það er líka einmitt mjög fyndið svona.
Útlitið er síðan ljómandi fallegt hjá Þórunni Maríu Jónsdóttur. Rómantískt og hæfilega flippað þegar við á. Fallega lýst af Jóhanni Bjarna Pálmasyni.
Það er bernsk og leikglöð stemming yfir þessari sýningu, eitt af höfundareinkennum leikstjórans, sem rímar vel við græskuleysið í verkinu og yfirgnæfir dekkri undirtónana á sannfærandi og fullnægjandi hátt. Það þarf meiri fýlupúka en mig til að kvarta yfir svoleiðis.
<< Home