mánudagur, nóvember 15, 2021

Sýningin okkar

Eftir Jóhann Kristófer Stefánsson og Tatjönu Dís Aldísar Razoumeenko. Dramatúrg: Karl Ágúst Þorbergsson. Leikmynd: Hallveig Kristín Eiríksdóttir Búningar: Erna Guðrún Fritzdóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Leikmunir: Halldór Sturluson. Tónlist/hljóðmynd: Guðlaugur Hörðdal Einarsson og Kári Guðmundsson. Leikarar: Jóhann Kristófer Stefánsson, Tatjana Dís Aldísar Razoumeenko og Hákon Jóhannesson. Leikhópurinn Konserta frumsýndi á Loftinu í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 22. október 2021.

Í afdrepi

Sundurgerð og visst kæruleysi eru meðal grunntónanna í Sýningunni okkar, ríflega klukkustundarlöngu nýju leikverki sem leikhópurinn Konserta sýnir á Loftinu, smárými uppi í rjáfri Þjóðleikhússins. Loftið hefur verið helgað barna- og brúðuleiksýningum en það fer líka vel á að gera það að tilraunastofu fyrir ungt leikhúslistafólk og aðra sem vilja reyna sig. Flest af því sem þar var boðað í kynningarbæklingi leikhússins eru „verk í vinnslu“, en sá fyrirvari er ekki gerður við Sýninguna okkar, þó vel mætti hugsa sér frekari úrvinnslu meginefnis hennar.
Engan þarf að undra að leikhópur sem vísar með nafni sínu í velþekkt lyf gegn ofvirkni og athyglisbresti hlaupi svolítið út undan sér, haldi ekki alltaf þræði. Þannig er meginefni Sýningarinnar okkar brotið upp með stuttum atriðum, „sketsum“, sem sumir eiga að vera nokkurskonar treilerar, eða kynningarbrot úr sýningum Þjóðleikhússins; þakklætisvottur fyrir aðstöðuna og hjálpina sem Konserta hefur notið í húsinu. 
Það fer nú svona og svona: kynningarstikla um Framúrskarandi vinkonu tengist verki Elenu Ferrante ekki hætishót, en skoðar þess í stað vináttuna sem fyrirbæri á gervidramatískan hátt, og ekki sérlega skemmtilegt sem slíkt. Og eitthvað hefur slegið út í fyrir hópnum þegar þau ákváðu að stiklugera söngleik um sjálfan Bubba Morthens. Bráðfyndið atriði, fyrir utan kómíkina í að hafa það yfirleitt með.
Annars er svolítið eins og Konserta-fólk sé á báðum áttum með hvort það sé verðugt verkefni að koma fólki til að hlæja. Jafnvel þar sem efniviðurinn er í grunninn skoplegur, og efnistökin háðsk er eins og þau vilji ekki stíga grínskrefið til fulls. Það er eins og þeim finnist þau ekki vera, eða vilja vera, „þannig“ listamenn. Þau eigi alvarlegra erindi.
Þannig verða sketsarnir aldrei alveg nógu snjallir, og þeir búa forms síns vegna heldur ekki yfir möguleikum til að segja eitthvað djúpt eða sérlega satt um fólkið í þeim eða gefa áhorfendum bitastætt efni til að máta við sig og sitt líf. Þetta er vandratað einstigi sem Konserta hrasar stundum á.
Þau Jóhann Kristófer Stefánsson og Tatjana Dís Aldísar Razoumeenko komast öllu nær „alvöru“ áhrifum í meginefni sýningarinnar: sögunni af unga parinu Heiðbrá og Þresti, sem fengu opinberun með hjálp afurða kakóplöntunnar í Mið-Ameríku, sérstaklega Heiðbrá sem glímir við afleiðingar óskilgreindra áfalla. Og eins og sannir nútímaíslendingar vilja þau deila þessari opinberun með öllum, sérstaklega öllum sem eru eitthvað í samfélaginu. Því að sjálfsögðu er þetta unga og andlega þenkjandi hugsjónafólk líka markaðsfræðingar og ætla sér stóra hluti í viðskiptalífinu. Hvort mannræktarhugsjónin er skel utan um kapítalíska eðlishvötina eða öfugt verður aldrei ljóst. En vöruvæðing sjálfsleitarinnar er vissulega á lokastigi í samfélagi okkar og verðugt viðfangsefni.
Hvort fyrirlestur Heiðbrár í Eldborg verður að veruleika, eða hafi jafnvel farið fram og lukkast vonum framar, fáum við ekki að vita. Ekki heldur hvort „rítrítið“, eða afdrepið sem þau eru að skipuleggja til að kynna öllum sem einhverju máli ná í velgengniskreðsunum fyrir dásemdum kakósins, stendur undir væntingum. Ég saknaði að sjá framvindu í broslegu bjástri þeirra skötuhjúa. Einhverjar alvöru hindranir, einhverja safaríka bresti í sambandinu. Og kannski aðeins einarðari afstöðu til efnisins. 
Fínlegu blæbrigðin í valdataflinu voru ágætlega teiknuð, sérstaklega eftir að stirðleikinn fór af Jóhanni og Tatönju eftir fyrsta atriðið. Drepfyndnar upptalningar á merkilega fólkinu sem þurfti að bjóða og blíðka urðu því sniðugri sem þær urðu endalausari. Alltaf á mörkunum að breytast í hina dýrðlegu Bílastæðaverði Fóstbræðragengisins. Og fallegt og snjallt þegar þær þulur runnu saman við þakkarlista leikaranna sjálfra til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við gerð sýningarinnar. Við getum nefnt Karl Ágúst Þorbergsson dramatúrg, leikmyndahönnuðinn Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur, búninga Ernu Guðrúnar Fritzdóttur og lýsingu Jóhanns Friðrik Ágústssonar. Og Hákon Jóhannesson sem bregður sér í nokkur smáhlutverk. Enginn er titlaður leikstjóri í kynningarefni sýningarinnar. Í sýningunni sjálfri eru nokkur sögð hafa lagt til efni fyrir utan þau Jóhann og Tatönju, þar á meðal Ragnar Kjartansson, danshöfundurinn Katrín Gunnarsdóttir og Margrét Bjarnadóttir. En á endilega að leggja trúnað á það? Þetta er þegar öllu er á botninn hvolft fólk sem heldur að 9 líf séu sýnd í Þjóðleikhúsinu.
Það eru ónýttir möguleikar í meginefni Sýningarinnar okkar. Ég hefði viljað meira drama, meiri átök, skýrari afstöðu. Minna af hálfvolgri kaldhæðni, þó sniðug sé. Þó það hefði kostað hefðbundnari vinnubrögð og ófrumlegra form þá held ég að það hefði verið þess virði.